Fellur á "Silfrið"

Mér fannst viðtalið hjá Agli við Jón Ásgeir afleitt. Skil ekki hvað honum gekk til og finnst þátturinn, sem mér finnst oftast ágætur, hafa sett verulega niður með þessu.

Ég held að það sé of snemmt að fara að tjarga og fiðra einstaklinga og jafnvel að reisa gálga til að svala einhverju réttlæti, sem byggir á engu nema tilfinningu augnanliksins. Á þessum tímum er mikilvægast að fjölmiðlafólk "tryggi" að fjórða valdinu sé treystandi. Ekkert er jafn mikilvægt núna til að við komust í gegnum þennan skafl og til að við getum síðar meir gert þessi mál upp á viðeigandi hátt.

  


How is your wife? Og ruglingur með víxlregluna

Spurði einn tölfræðingur annan á árshátíð þeirra í Chicago fyrir nokkrum árum. "Compared to what?'" Svaraði hinn. Kannski er það líka eina "rétta" svarið ef þá yfirleitt eru til rétt svör við einhverri spurningu. Allavega virðast þau svör sem Darling hefur væntanlega fengið við spurningum sínum til Árna M. fengið túlkun sem hefur tvær andstæðar merkingar. Það er dálítið merkilegt hvað þessir hlutir virðast gerast oft í stjórnmálum, þ.e. að ákvörðun, tilskipun, samtöl á milli manna og jafnvel niðurstöður í stjórnmálum skuli hafa aðra merkingu í heimi þeirra sem eru "viðtakendur" en þeirra stjórnmálamanna sem bera okkur tíðindin. Nýleg dæmi um þetta er samtal Darlings og Árna og svo yfirlýsingar Björgvins Sigurðssonar frammi fyrir nokkur hundruð sæmilega gefnum sálum, þar sem hann staðhæfði að engar breytingar yrðu gerðar á LÍ, allt yrði óbreytt og fólk héldi störfum sínum.

Það er vont þegar stjórnmálamenn geta ekki talað skýrt. Sérstaklega við aðstæður eins og nú eru. Ég hef líka velt því fyrir mér hvort að stjórnmálamenn séu haldnir "Víxlreglublindu", þ.e. að þeir hafi í barnaskóla miskilið víxlregluna sem aðeins gildir í stærðfræði og talið að einnig mætti notast við hana í málfræði. Hugsanlega gæti þetta líka verið frávik á einhverjum litningi, þ.e. að það væri til fólk með ákveðinn erfðabera sem hefði tilhneigingu til að rugla víxlreglunni. Ég skal ekki segja en mér finnst það stórmerkilegt hvað mikið er um þetta í stjórnmálum. Kannski safnast þar saman fólk sem hefur ekki nægilega þekkingu á merkingu orða og þýðingu íslensks máls.

Víxlreglan gildir t.d um 1x2=2 og 2x1=2, 1+2=3 og 2+1=3. En "How is your wife?" er ekki sama og "Who is your wife'". Þarna liggur kannski meinið hjá Árna og Darling?

 

 


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var vélstjóri.....

Einu sinni var vélstjóri sem varð það á að opna óvart fyrir botnlokann á bátnum sem hann var nýráðinn á. Hann var dudda sér þarna niðri í vélarrúmi og þurfti síðan að skjótast upp í bæ til að ná í fittings og tvist. Þegar hann kom aftur maraði báturinn í kafi. Eðlilega var honum brugðið og þegar tekist hafði að dæla úr bátnum og farið var að leita skýringa á þessu öllu saman kom hið sanna í ljós. Útgerðarmaðurinn var spurður hversskonar bjána hann hefði eiginlega ráðið og hvort hann fengi ekki að taka pokann sinn. "Nei" sagði útgerðarmaðurinn. "Hann gerir þetta aldrei aftur!"

Ég held að botnlokinn hafi verið tekinn úr fjármálakerfinu fyrir mörgum árum síðan. Seðlabankinn og stjórnvöld höfðu ekki fyrirhyggju til að efla þrautarvarasjóðinn og Seðlabankinn og eftirlitsstofnanir annaðhvort skildu ekki eða létu hjá líðast að bregðast við þeirri ábyrgð er fólst í vaxandi umsvifum bankanna erlendis.

Nú þurfum við líklega að fá Alþjóða gjaldeyrirssjóðinn til að dæla úr skútunni og hugsanlega þarf að koma henni á þurrt til að hægt verði að gera við allar skemmdirnar. Þær eru ekki litlar. Og líklega eru þeir fjármunir sem þurft hefði til að verja bankana aðeins brot af því sem hefur tapast í eignum á brunaútsölu, 25% afskrift lífeyrissjóðanna, niðurskrift hlutafjár, glötuð markaðsbréf og hundruðir eða jafnvel þúsundir glataðar starfa og tækifæra. Nýr og endurbættur botnloki hefði líklega verið kostnaðarminni en allt þetta tjón sem vélstjórinn og útgerðarmaðurinn hafa valdið.

Við hefðum betur hlaustað á varnaðarorð erlendra ferðamanna á bryggjunni sem sáu að eitthvað var að og báturinn tekinn að síga. En svona er þetta, stundum er sendiboðum slæmra tíðinda illa tekið. Eða þá að eitthvað er að málakunnáttunni eins og manni virðist vera að þessa dagana.


mbl.is Geysis-skýrsla Danske bank rifjuð upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að leiðrétta!

Á fréttaveitu Bloomberg hefur í morgun stöðugt verið hamrað á því að við hyggjumst ekki standa við skuldbindingar okkar. Þetta hófst í gær með frá því að sjónvarpað var yfirlýsingum Brown og Darling ásamt umræðum í breska þinginu þar sem mörg miðurfögur orð féllu í okkar garð.

Ef allt þetta er misskilningur og viðbrögð ráðamanna í Bretlandi (sem leitt hafa til ómælanlegs tjóns fyrir okkur) þurfa íslenskir ráðamenn að koma fram í þessum miðli og leiðrétta þetta. Koma "fruntalegum" viðbrögðum Breta á framfæri á réttum vettvangi. Partur af því að komast í gegnum þetta ólag er að vera með upplýsingastreymið tryggt og öruggt og ekki að hleypa aðilum að sem gæta ekki að orðæði sínu, líkt og Seðlabankastjórinn. Það er ekki nóg að vera með upplýsingafundi í Iðnó. Meira þarf að gera!


mbl.is Samtal við Árna réð úrslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Óreiðufólk" og kreppumagnarar

Ég er sjálfsagt eins og flestir, með hugann við atburði síðustu daga og klukkustunda. Til hvaða aðgerða gripið hefur verið til og hver afleiðing þeirra verður og hvert þær muni hugsanlega leiða okkur. Ég er þeirrar skoðunar að það sé búið að klúðra þessu gjörsamlega og að nálgunin og meðhöndlun vandans muni leiða okkur í fang Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem líklega tekur hér við innan örfárra daga (jafnvel klst.) og mun í leiðinni aðstoða við fjárlagagerðina. Kannski ekki vanþörf á m.v. "standardinn" sem halda á hér úti, með tilheyrandi fjáraustri í utanríkisþjónustinni og heræfingum.

Ég get að mörgu leyti verið sammála seðlabankastjóranum að óreiðufólk er það sem ekki greiðir reikninga sína eða stendur við skuldbindingar sínar. Hvað köllum við þá ríki sem ekki hyggjast gera slík hiða sama? Eru það "óreiðuríki"? Við höfum siðferðislega skuldbindingu til að standa við skuldbindingar okkar gagnvart breskum innstæðueigendum. Það er fráleitt að halda að við getum komið okkur undan þeirri ábyrgð. Þó að gerð hafi verið mistök hér varðandi það að hafa ekki fylgst nægjanlega vel með og kannski ekki heldur áttað sig á að við tókumst á hendur þessa ábyrgð, getum við sem þjóð aldrei látið það viðgangast að aðrir verði fyrir tjóni vegna okkar mistaka.

Við mögnum fjármálakreppuna með því að láta það spyrjast út að verið sé að velta þessum hlutum fyrir sér. Innstæðueigendur í erlendum bönkum úti í heimi hljóta að spyrja sig hvort farin verði þessi "Íslandsleið", þ.e. að ekkert mark sé takandi á ábyrgð ríkisins.


Útimaður á plani og litli Landssímamaðurinn

Ég er farinn að hallast að því að þessi ríkisstjórn lifi ekki öllu lengur. Farið að slá í hjónabandssæluna og verkefnin sem stjórnin á að vera að takast við í efnahagsmálum látin reka á reiðanum. Í mínum huga ómöguleg stjórn, sem á helst eftir að vera minnst fyrir að hafa verið að vinna í vitlausum verkefnum.

Það vitlausasta sem verið er að eyða fjármunum og kröftum í er framboð okkar til Öryggisráðsins,  varnarmálin og dugleysi okkar í að skera upp heilbrigðiskerfið.

Við eigum ekkert erindi í Öryggisráðið. Höfum frá 1944 verið taglhnýtingar þeirra þjóða sem farið hafa með valdið, að undanskildum árunum í kringum Þorskastríðin þegar örlaði á því að við hefðum sjálfstæða utanríkisstefnu. Við höfum engan "áunninn" trúverðugleika á þessum vettvangi og komum örugglega til með að rekast, eins og venjulega, auðveldlega í stóði þess sem valdið hefur. Það er okkar stíll.

Öryggismálin eru að gera útaf við þjóðina. Hætturnar virðast allstaðar vera. Jafnvel á stöðum sem maður hélt að væru öruggir. Allir orðnir óvinir, svona MacChartyismi, sem hefur smitað um sig í þjóðarsálinni sem einhver vá, sem alltaf þarf að vera á varðbergi vegna. Þetta er langt frá því að vera reyndin. Sumir staðir í heiminum eru ótryggari en þeir voru fyrir 11. september 2001, en flestir staðir hafa ekkert breyst. Heimurinn jafn öruggur og hann var á flestum stöðum, en eina breytingin er að óarðbærum störfum í öryggisvörslu hefur fjölgað til muna og mannréttindarbrotum og eftirliti með þegnunum hefur aukist. Okkar áhætta felst í dópsölum og kannski hvítbjörnum Smile en ekki andstæðingum sem þarf að glíma við með því að leigja orustuþotur frá NATO. Skilgreiningin er kolröng.

Ég hélt að Guðlaugur Þór hefði þor til að taka á handónýtu og óskilvirku heilbrigðiskerfi. Ég held að hann geti það ekki miðað við hvernig verklagið hefur verið fram til þessa. Þar sem óráðsían fær þrifist á mörgum stöðum innan kerfisins, þar sem viðhorfið til atvinnuveitandans er þannig að á sumum stöðum stimplar fólk sig og jafnvel aðra inn sem ekki mæta til vinnu, þar sem matarskammtarnir myndu duga til að halda erfiðisvinnumanni í holdum og þar sem ekki er hægt að greiða fólki mannsæmandi laun vegna þess að fjármagnið er illa nýtt. Allt þetta blasir við en dugurinn til að taka á málunum er enginn.

Kannski er gott að vera útimaður á plani, eins og einn ráðherrann komst að orði, þegar ástandið er erfitt. Vera stikkfrír og þurfa helst aldrei að koma að málum sem eru erfið. Láta innimanninn sjá um erfiðleikana og geta bara dólað sér úti með smúlinn og hrósað happi yfir því hlutskipti að þurfa aldrei að taka á leiðinlegum málum. Þegar að kreppir og taka þarf á málum eru svoleiðis starfsmenn lítils virði. Starfsmönnum sem annt er um sessuna sína og stólinn en vilja ekki glíma við hina sameiginlegu erfiðleika. Á slíkum tímum getur litli Landssímamaðurinn skipt sköpum.

 


"Maria Antonette heilkenni"

Ég vil ekki líkja mótmælunum við Norðlingaholt í gær við frönsku stjórnarbyltinguna. En hugsanlega kunna þessi mótmæli að vera fyrsta vísbendingin um að það sem vörubílstjórar byrjuðu á, þ.e. mótmæla háu orkuverði og hvíldartímareglum, kunni að vera að breytast í "birtingarmynd" yfir almenna óánægju með aðgerðaleysi ráðafólks og þá fyrirséðu lífskjaraskerðingu sem fyrirséð er að ríði yfir. Að því leytinu eiga mótmælin við Norðlingaholt og franska stjórnarbyltingin sér samsvörun.

"Geta þau ekki borðað kökur?" Spurði Maria Antonette þegar henni var sagt að lýðurinn væri að mótmæla og krafðist þess að einvaldurinn útvegaði brauð. Hún missti höfðið í eiginlegri merkingu síðar. Ráðaleysi frönsku aristókratana hratt af stað byltingu sem líklega hefur haft mest áhrif á þróun lýðræðis á undanförnum 300 árum. Ráðaleysi ráðamanna okkar kann hugsanlega að verða til þess að mótmælunum linni ekki. Viðtölin við þau í gær lýsa ágætlega "veruleikafirrtum" viðhorfum fólks sem skynjar ekki grasrótina lengur, "Maria Antonette heilkenni". Þeir geta ekki leyst erfiðleika í eiginn ranni en eru tilbúnir að miðla málum í erfiðleikum annarra og telja sig hafa eitthvað fram að færa í Öryggisráðinu. Ráðamenn sem ekki geta leyst úr vandamálum heimafyrir eiga ekki bjóðast til að koma að lausn á vandamálum annarra.

Ég batt miklar vonir við nýtt stjórnarsamstarf s.l. vor, en hafði áhyggjur af efnahagsmálunum. Nú er komið í ljós að þetta fólk ræður ekki við vandann.


"Endimörk vaxtarins"

Í æsku las ég kiljuna "Endimörk vaxtarins", sem mig minnir að einhverjir aðilar í svokölluðum Rómarsamtökum hafi gefið út snemma á áttunda áratugnum. Kiljan lýsti því á nokkuð sannfærandi hátt hvernig náttúruauðlindir jarðar myndu verða fullnýttar, olía að mestu uppurin um 1980 og kopar og og aðrir málmar einhverjum árum síðar.

Það sem var gott við kiljuna að hún fór vel í hendi og mig minnir að hún hafi verið af svipaðri stærð og Rauða kver Maó formanns og fór því einnig vel í vasa. Þessum heimsbókmenntum var hampað af hinum unga menntskælingi sem algildum sannleika um þá hraðferð til glötunar sem við stefndum, í þeim skilningi að senn myndu bræður berjast og bræðravíg yrðu háð um síðasta olídropann um víða veröld. Allt rímdi þetta vel við nýnumda Völuspá drengsins og þau endalok sem birtast í þeim mikla bálki. Maó formaður hafði líka svörin við flestu, þó að ég hefði ekki komist að því fyrr en mörgum árum síðar að í engu hafi hann breytt í samræmi við sitt eigið kver. 

Mér var hugsað til þessara gömlu kvera sem hrifu milljónir manna áður fyrr og fólk var jafnvel tilbúið að láta lífið fyrir, þegar ég var að hlausta á Al Gore. Velti því fyrir mér hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar til að hægt sé að hrífa með sér fólk í einhverja "göngu" sem á sér kannski ekkert upphaf og engan endi. Hvort þetta væri ekki bara "fanatísk" trúarbrögð þar sem verið væri að spila með fólk? Settur á þetta "vísindastimpill" til að "garantera gæðin", þar sem flestir eru hvort eð er löngu búnir að glata þeim eiginleika að nota rökhugsun í þessu "sjálffóðrandi" neyslusamfélagi.

Mér finnst Al Gore og þessi stefna hans vera líkt og trúarbrögð, sem leyfir lítil sem engin frávik frá hinu boðaða orði. Stefnan hans er að því leytinu eins og Rauða kverið og greiningin og tillögurnar ekki ólíkar því sem ég fræddist um í "Endimörk vaxtarins". Ég er hvorki sannfærður að hann hafi greint vandann rétt eða leggi til réttar lausnir við því sem hann greinir. Bendi þeim sem vilja láta þessi mál sig skipta að lesa bók Nigel Lawson (pabba matreiðslukonunnar fallegu Nigellu) sem kallast "An Appeal to Reason: A Cool Look at Global Warming".


Beðið eftir kreppunni

Ákvörðun Seðlabankans um að hækka vexti og þær hugmyndir sem bankinn setur fram í stefnu sinni um hugsanlegar aðgerðir til að auka aðgengi að erlendum gjaldeyri hafa aukið líkur á verulegri kreppu hér á landi. Vaxtaákvörðunin er ótrúverðug og eykur enn á erfiðleika fólksins í landinu. Verðbólgan og verðbólguþrýstingur nú er að verðulegu leyti tilkominn vegna kostnaðarhækkana erlendis, t.d. á hrávöru, olíu og matvælum.

Tillögur bankans um aukið aðgengi að gjaldeyri virðast mér vera endurbætt útgáfa af Krónubréfum nema að nú er það ríkissjóður sem á að vera skuldarinn. Ég held að sama vitleysan fari í gang ef þetta verður niðurstaðan. Gengið spennist upp og háir vextir eru komnir til að vera. Það er bara verið að míga í skóinn. Spurning hvort ekki hefði verið hægt að fara þá leið að opna lánalínu eða opna heimild hjá öðrum seðlabönkum og nýta línuna ef forða þyrfti fjármálakreppu hér. Byrðarnar af óráðssíunni þurfum við að bera og verðum að taka á okkur klúðrið með tilheyrandi lífskjaraskerðingu.

Ég tek undir það sem Gylfi Magnússon dósent í HÍ lét hafa eftir sér í fréttatíma Rúv í kvöld að peningamálastefnan hefði brugðist, hún virkaði ekki og skipta ætti út stjórn og stjórnendum bankans. Ég hef haldið þessu lengi fram.

Kreppan kemur þótt að tekið verði til í Seðlabankanum. Hún er óumflýjanleg úr þessu. Skútan er komin of nærri landi, inn fyrir brimskaflinn, stýrið brotið og stjórnendurnir hafa ekki enn rifað seglin og hafa engin ráð til að forða henni frá strandi. Nú er um að gera að fyrir okkur farþegana að finna okkur haldreipi, eitthvað fast til að halda okkur í þegar hún tekur niðri og fyrsta stóra ólagið ríður yfir. Við sem erum vön gömlum ströndum, þekkjum hvaða festur halda best. Nú þarf að spara. Skera allt sem hægt er að skera niður. Hætta við utanlandsferðirnar, fyrirhuguðu bílakaupin, segja upp áskriftum af blöðum, tímaritum, sjónvarpsstöðvum og líkamsræktarstöðinni. Nota fjármagnið til að þjónusta skuldir og reyna að gefa krökkunum að éta. Bíða eftir og vonast til að skútuna reki það langt upp í fjöru að við eigum okkur einhverja von um björgun. Einhverjum á eftir að skola útbyrðis. Það er óhjákvæmilegt, fylgifiskur kreppu og flestra stærri stranda. En nú verðum við að hugsa um okkur sjálf og þá sem eru okkur tengdastir.


Ferðaskrifstofa ríkisins

Ég er nokkuð ánægður með ráðdeildarsemi ráðmanna okkar varðandi þessa för þeirra suður til Rúmeníu. Að hafa í huga hvað svona ferð kostar, bera hana saman við það sem er í boði og taka inn í myndina að ónýttur tími frá mikilvægum störfum kostar líka peninga, er stórkostleg framför og líklega nýjung í íslenskri stjórnsýslu. Ég tek ofan fyrir þessari nýju hugsun. Það eina sem ég get kannski gagnrýnt er að skipuleggjandi ferðarinnar skuli ekki hafa athugað þann möguleika að hugsanlega hefði verið hægt að nýta ferðir fangaflugvélanna, sem eru víst tíðar frá Rúmeníu og vestur um haf með viðkomu hér á landi. Ég hefði séð fyrir mér fánumskrýdda fangaflugvél, auðvitað ekki með fanga, en með okkar ráðamenn innanborðs, á leið á hinn mikilvæga fund. Hróður okkar hefði aukist til muna á þessum vettvangi með slíkri aðgerð og jafnframt hefðum við með áþreifanlegum hætti lýst okkar staðfasta vilja til meðbræðra okkar og -systra í þessu bandalagi, færst ofar í goggunarröðinni og kannski fengið pláss í fremstu röð, nálægt Bush eða Brown, við venjubundnar myndatökur. Ekki ónýtur árangur. Við hefðum hugsanlega, með slíkum vilja, getað átt möguleika að komast í innsta ráð NATO. En eflaust hefur þessi möguleiki verið athugaður af okkar færa fólki.

Þessu framtaki til að spara og ná fram hagræðingu í rekstri hins opinbera ber að fagna á síðustu og verstu tímum og ekki að gera lítið úr vilja ráðamanna til að bregaðst við aðsteðjandi vanda.  Kannski erum við að sjá endurfæðingu "Ferðaskrifstofu ríkisins" sálugu, nema að hér er greinilega sparnaðurinn og hagkvæmnin sem ræður för. Mér finnst líka að ef ráðdeildarsemin nær að þróast það langt, að úr verði ferðaskrifstofa fyrir opinbera starfsmenn, að þá beri að leggja sérstaka áherslu á öryggismálin. Þróa ætti frekar þær hugmyndir að allir ókunnugir eru hættulegir og aðskilja í flugvélum opinbera starfsmenn í sínum mikilvægum erindagjörðum frá okkur hinum, sem kannski höfum enn ráð á því að ferðast til fjarlægra landa.

Við eigum að styðja við bakið á ráðmönnum okkar í þeirri viðleitni þeirra að spara og draga úr viðveru þeirra erlendis. Líklega væri hagkvæmast að kaupa "þjóðarþotu" til að annast ferðir til og frá landinu fyrir ráðherra og æðstu embættismenn. Lægra settir embættismenn gætu nýtt sér ferðir fangaflugvélanna. Ég myndi leggja til að hafin yrði söfnun, líkt og gert var þegar geirfuglinn var keyptur á sínum tíma, til að kaupa þotu. Ríkissjóður er skuldlaus og ekki viljum við að ráðdeildarmennirnir fari að stofna til skulda vegna þessara kaupa. En kannski mætti hugsa sér að þetta yrði í einkaframkvæmd eins og í tísku er í dag til að skuldin verði ekki færð til bókar og að ríkissjóður verði áfram skuldlaus. Legg til að söfnunardagur verði að kveldi Eurovisiondags. Þjóðin getur þá yljað sér yfir gjafmildinni og að ráðamenn okkar verði minna fjarverandi erlendis á meðan við horfum á drauma okkar að Eurovision verði á næsta ári haldin í Egilshöllinni verða að engu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 608

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband