Færsluflokkur: Bloggar

Hugleiðingar á fyrsta degi eftir hlaupaársdag.

Með lögum um fiskveiðar frá 1983 var komið á lénsskipulagi þar sem lénsherrar ráða ákveðnum hluta auðlindar sem áður var frjáls aðgangur að. Í krafti þessara réttinda getur lénsherrann ráði vexti og viðgangi heilu byggðarlaganna eins og sýnt hefur sig. Lélegast verstöð Íslands, Reykjavík, hefur mestu heimildirnar. Fiskveiðistjórnunarkerfið er "peningakerfi" en ekki verndarkerfi. Árangur þessa kerfis er að við það sem það skilar að landi er þriðjungur af því sem sóknin á Íslandsmið skilaði að meðaltali á 40 ára tímabili fyrir 1983 og skuldsetningin er 14 sinnum meiri í greininni að raungildi en hún var við upptöku kerfisins. Frábær árangur hvað varðar vernd og hagkvæmni. Það sem gerst hefur er að sóunin hefur aukist. Enginn sem rær kemur að landi með þriggja nátta blóðdauðgaðan fisk eins og algent var áður í brælutíð. Hversvegna ætti hann að gera það ef hann hefur bara heimild til að landa ákveðnu magni? Sá sem hegðaði sér þannig í slíku kerfi yrði ekki langlífur. Niðurstaðan er því sú að við veiðum mun meira en við nýtum, verðum af miklum tekjum og sóunin sem felst í brottkastinu er gríðarleg. Það þarf að breyta kerfinu og hef ég ákveðnar hugmyndir um á hvern hátt það mætti gera.

Ég var alltaf hlynntur samstarfi við Evrópuríkin, þ.m.t. EES samninginn og Schengen samstarfið. Hef reyndar endurskoðað afstöðu mína og finnst þetta Schengen samstarf vera rugl ef við erum ekki fullgildir aðilar að ESB. Samstarfið er kostnaðar- og áhættusamara fyrir okkur þar sem við erum útvörður svæðisins í samanburði við lönd sem eru inni í "miðjunni". Við eigum ekki að vera "varnarmúr" fyrir ESB ef við erum ekki fullgildir meðlimir.

Ég held að við höfum tvo kosti í dag. Annarsvegar að huga að fullri aðild að ESB eða hugsa okkur sem þjóð sem er óháð eða næstum óháð öllum bandalögum líkt og Sviss. Það eru bæði kostir og ókostir við þessar leiðir. Að vera óháð setur þá kröfu á okkur að við sjálf, þ.e. löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldið sé þannig að við getum útdeilt nægjanlega miklu réttlæti til íbúanna og búið til aðstæður þar sem íbúunum finnst þeir ekki vera verr settir en íbúar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við höfum mörg dæmi um hið gagnstæða. Lögunum er misbeitt, framkvæmdavaldið tekur ákvarðanir sem ekki myndu líðast í öðrum löndum, t.d. ákvörðun um skipan dómara, salan á ferjunni Baldri og lengi mætti telja. REI-málið er dæmi um vanþroskaða stjórnsýslu og eftirmálarnir kannski enn frekar. Allt þetta vekur spurningar hvort að aðild að ESB myndi ekki styrkja, bæta og gera stjórnsýsluna betri. Ég held að myntin sé okkar helsta vandamál við núverandi aðstæður. Við erum með sveiflukennt hagkerfi og myntin getur á margan hátt verkað sem sveifluauki á hagkerfið. Peningamálastjórnunin og ríkisfjármálin hafa að mínu mati verið í molum. Erlendar fjárfestingar, að undanskildum stóriðjuframkvæmdum eru litlar sem engar og er myntin talin vera helsti þröskuldurinn fyrir að lítið erlent áhættufjármagn kemur inn í kerfið. Það er slæmt og dregur til lengri tíma úr möguleikum okkar til frekari þróunar. Kosturinn við að vera óháður bandalögum er að við getum hugsanlega samið við bandalög og orðið brú á milli bandalaga, ESB, NAFTA, Rússa og Kínverja. Afhverju t.d. ekki að leyfa Rússum að taka olíu hér fyrir N-Atlantshafsflotann og koma sér upp aðstöðu, hleypa Kínverjum hér inn til að leita að olíu á Drekasvæðinu, framselja fiskveiðiheimildirnar til ESB (þjóðin fengi þá eðlilegt afgjald fyrir auðlindina) og selja okkur bara þeim sem borga mest? Hvað er að því? Kannski höldum við bara meira sjálfstæði ef grunnhugsunin er sú að við viljum bara hagnast sem mest á samstarfi við ólíka aðila en ekki festa okkur í trússi við ákveðinn hóp eða hagsmuni.

Við vitum líklega hvað við fengjum ef við gerðumst aðilar að ESB. Stjórnsýslan myndi batna og ef við gerðumst aðilar að myntbandalaginu myndum við losna við óhagræðið af krónunni. Það yrði okkur mikill fengur en á móti yrði erfiðara fyrir okkur að stjórna og bregðast við skammtíma hagsveiflum innan kerfisins. Við værum bundin ákvörðunum um vaxtastig Seðlabanka Evrópu. Sveiflum á vinnumarkaði yrði hugsanlega erfiðara að stýra og við værum meira háð ákvörðunum frá Brussel við efnahagsstjórnun.

Ég myndi velja sjálfstæðið og ekki sækja um aðild að ESB. Treysta á það að okkur beri gæfa til að beina stjórnmálunum í þann farveg að búin verði til stjórnsýsla sem er réttlát og sækir kannski fyrirmyndina að einhverju leyti til smiðanna í Brussel. Margt sem kemur þaðan er gott og full ástæða fyrir okkur að aðlaga okkar kerfi að smíðinni þar. Við eigum einnig að haga ríkisfjármálunum þannig að ekki sé við það unað að farið sé fram úr heimildum og styrkja og efla Seðlabankann með nýjum stjórnendum og gera hann pólitískt óháðann. Breyta á fiskveiðistjórnunarkerfinu og setja allar heimildir á uppboðsmarkað og nýta fjármunina til að styrkja við sveitarfélög á landsbyggðinni. Jafnframt að nýting annarra náttúruauðlinda sé þannig að borgað sé afgjald af nýtingunni sem safnast í sjóð eins og Norðmenn eiga. Við eigum að segja okkur úr Schengen og NATÓ. Vera opinn fyrir samstarfi við allar þjóðir, leggja áherslu á samstarf við bandalög og festast ekki í trússi við ákveðin öfl. Halda sjálfstæði okkar og sýna það í verki gagnvart öðrum. Reyna að græða á því að vera óháð. Ég held að myntin verði ekki vandamál við slíkar aðstæður.


"Krónísk" minnimáttarkennd

 

deCode er líklega merkilegast fyrirtæki sem hefur starfstöð hér á landi. Það hefur laðað til landsins fólk sem býr yfir yfirburðarþekkingu á sínu sviði og líklega það íslenska fyrirtæki sem best er þekkt erlendis. Möguleikarnir eru einnig miklir en rannsóknirnar og þróunin er kostnaðar- og áhættusöm. Það er eðli slíkra fyrirtækja.

Það er sorglegt þegar þarf að segja upp góðu starfsfólki sem býr yfir mikilli þekkingu. Stundum er það nauðsynlegt til að aðlaga reksturinn að breyttu og erfiðara umhverfi. Stundum þarf að hörfa og gefa eftir orustuna til að eiga möguleika að sækja fram og vinna stríðið.

deCode hefur starfað hér á landi í umhverfi sem að mörgu leyti hefur verið fyrirtækinu fjandsamlegt. Stundum hef ég velt því fyrir mér afhverju þeir eru ekki fyrir löngu farnir úr landi, t.d. til Indlands eða Kína þar sem aðstæður eru slíkum fyrirtækjum hagfelldari og mörg fyrirtækin vinna í umhverfi þar sem þau njóta virðingar fyrir framlög sín til að bæta lífsgæði jarðarbúa.

Líklega er deCode of stórt fyrir okkur. Þjóðarsálin uppfull af "krónískri" minnimáttarkennd til að hópur snillinga á heimsmælikvarða geti starfað hér á landi við að búa til markaðshæfar lausnir sem byggja á langtíma rannsóknum. Öfundin og naggið hefur oftast yfirgnæft það sem gott hefur komið frá fyrirtækinu. Það er synd að við skulum ekki hafa visku eða manndóm til að geta reist höfuðið hátt og búið til farveg fyrir fleiri fyrirtæki eins og deCode. Nei, áhuginn hjá stjórnmálamönnunum snýst um að falbjóða orkuna, helst undir framleiðslukostnaðarverði, leggjast eins og útglennt portkona fyrir orkugleypum og tryggja lénsskipulag við nýtingu náttúruauðlinda.  


mbl.is Fjöldauppsagnir hjá deCode
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeildarsemi við Kalkofnsveg

"Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, sagði í erindi í Rótarýklúbbi Austurbæjar í dag, að það vekti undru hve kæruleysislegt viðhorf margir virðist hafa til verðbólgu. Ótímabær vaxtalækkun myndi leiða til verðbólgu og kjaraskerðingar og fráleit sé sú kenning að til þess að hemja verðbólgu þurfi að lækka vexti."

Þá vaknar sú spurning hvort Seðlabankinn, með sinni ráðdeildarsemi, geri ekki svipað og stjórn og forstjóri Glitnis gerðu, lækki laun stjórnar og stjórnenda og gefi þar með hugsanlega tóninn í komandi kjarasamningum við ríkisstarfsmenn. Finnst a.m.k. að launahækkunin sem bankastjórar Seðlabankans tóku sér á síðasta ári og réttlætt var með þenslu og mikilli spurn eftir góðu starfsfólki hljóti við þau skilyrði sem nú eru, að ganga til baka. Stjórnarformaðurinn hlýtur að boða lækkun launa og leggja sitt af mörkum til að hemja verðbólguna og koma vaxtalækkunarferlinu af stað. Tal um ráðdeildarsemi og hófstillta kjarasamninga hjá öðrum, úr þessari átt og án þess að leggja sitt af mörkum, er því harla ótrúverðug.


mbl.is Ótímabær vaxtalækkun leiðir til kjaraskerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin stjórnmál

Hvernig er hægt að styðja foringja sem á eftir að taka ákvörðun ef stuðningurinn er skilyrtur? Hvernig er hægt að segja að maður styðji einhvern mann en bíði samt eftir hans afstöðu og að hann taki sínar ákvarðanir? Þetta gengur ekki upp í mínum huga. Annaðhvort styður maður foringjann og hans ákvarðanir eða maður styður eða er á móti ákvörðuninni sem foringinn tekur. Þetta var m.a. umræðuefni í Kastljósi kvöldsins og sá er sat á "beininu" var kjörinn fulltrúi, Gísli Baldur, sem vildi ekki gefa upp hvort að hann styddi ákvörðun Vilhjálms ef Vihjálmur tæki þá ákvörðun að hann myndi falast eftir embætti borgarstjóra í samræmi við málefnasamninginn. Annaðhvort er Gísli Baldur ósáttur eða sáttur við það að Vilhjálmur verði borgarstjóri óháð ákvörðun Vilhjálms. Gísli Baldur styður samt Vilhjálm en er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi sínum við að Vilhjálmur verði borgarstjóri.

Það eru skrýtin stjórnmál þar sem menn geta ekki tekið afstöðu. Þetta mál er þannig að til að því ljúki, þarf að taka afstöðu með eða á móti Vilhjálmi. En eins og með mörg erfið mál að þá fara þeir sem eiga að leysa þau lengra út í forarvilpuna með málin óleyst. Í svona málum á að taka afstöðu, með eða á móti. Menn sem stefna að því að verða foringjar verða að geta tekið afstöðu.


REI-skýrslan er farsi

Verklagið sem notast var við til að leiða "sannleikann" fram í REI-málinu er furðuleg og vekur hjá manni spurningar hvort ekki er eitthvað meiriháttar bogið við íslenska stjórnsýslu. Ég trúði því þegar málið var sett af stað að "velta ætti við öllum steinum". Að nú væri loksins komin "stjórnsýslunefnd" sem færi ofan í sumana á því sem aflaga fór í þessu máli. Trúði því að stjórnsýslunefndin væri stýrihópur sem ákvarðaði umgjörð málsins, stýrði verkefninu og fengi til liðs við sig sjálfstæða og óháða aðila til að framkvæma úttekt og skoðun á málinu ofan í kjölinn. Reyndin varð önnur. Ofan í saumana fóru aðilar sem allir eru á einhvern hátt tengdir málinu. Á milli nefndarmanna fór síðan textinn sem birta átti í lokaskýrslunni. Nefndarmenn gátu sett mark sitt á textann og úr varð  "samningstexti" aðila, sem allir voru tengdir málinu. Trúverðugleiki úttektarinnar beið hnekki með þessu "moði" um sameiginlegt orðalag sem skýrsluhöfundar urðu ásáttir um. Það er miður að þetta skyldi hafa orðið niðurstaðan. Efinn fær bólfestu og maður fer að hugsa hvort þessi niðurstaða sé pólitísk, stjórnmál snúast jú víst um málamiðlanir, sagði einhver. Finnst stjórnsýslunefndin ákvað að fara þessa leið, að þá hefðu þeir a.m.k. átt að bera það mikla virðingu fyrir kjósendum að láta ágreining eða skoðanamun nefndarmanna koma fram í sérbókunum, frekar en að bræða álitin í sameiginlegan texta, sem víða hefur enga merkingu. Þetta er ekki stjórnsýsla sem er boðleg á 21. öld. Markmiðið með úttektinni, hélt ég vera, að upplýsa og gera sýnilega þá atburði sem voru undanfarar REI-málsins. Niðurstaðan er  bara óskýr sameiginlegur texti stjórnmálamanna, sem á engan hátt upplýsir eigendur OR um hina raunverulegu atburði.


Getur ísneysla fjölgað nauðgunum?

Á fimmta áratugnum, þegar menn fóru að nota tölfræðina í auknu mæli til að reyna að skýra út ástæður ýmissa verknaða, fundu menn út að mikil fylgni var á milli aukinnar ísneyslu og aukningar nauðgana. Rannsóknir fóru í gang og margir töldu að hugsanlega kynni að vera efni í ísnum sem "kveikti" á þessu óeðli og breytti mönnum í þessar skaðræðisskepnur. Hugmyndir voru uppi um að banna neyslu á ís. Við nánari skoðun komust menn að því, að þriðji þátturinn hefur áhrif, sem er hitastig. Ísneysla eykst við hækkað hitastig og það gera nauðganir líka.

Mér var hugsað til alls þessa fólks, sem lá kannski andvaka á þessum tíma og var að velta fyrir sér hugsanlegum ástæðum þessa á fimmta áratugnum, þegar ég las grein sjávarútvegsráðherra um hans skýringar á fækkun fólks í sjávarútvegi. Enn situr hann við sama heygarðshornið, hugsaði ég, og reynir að finna rök fyrir að sjávarútvegurinn sé vel rekinn.

Tæknibreytingar sem orðið hafa í sjávarútvegi og vinnslu eru langt frá því að skýra að öllu leyti þá fólksfækkun sem orðið hefur í greininni. "Strúktúrbreyting" m.v. svipað aflamagn skýrir frekar þá fækkun sem orðið hefur. Þegar 24 til 28 kallar á frystitogara keyra í gegnum línuna hjá sér á sólarhring 20 til 25 tonnum og 20 til 30% af verðmætinu rennur út um rennuna, hausar, beinagarðar, slóg og ormuð flök og blóðflök. Hagræðingin sem sjávarútvegsráðherrann telur felast í að telja mannshausa í atvinnugreininni og telja það vera dæmi um hagræðingu þegar verðmætum er kastað á glæ og vinnslan knúin áfram með innfluttum orkugjöfum, finnst mér vera fráleit. Svipað og að halda því fram að hagræðing næðist í vinnslunni með því að pakka öllu í 7 punda smjörpappírspakkningar á Rússland eða hengja allan fisk upp í skreið. Þá gætum við nú aldeilis fækkað fólki og gert okkur glaðan dag og montað okkur yfir því að það þyrfti færra fólk til að vinna sama magn.

Ég er hættur að átta mig á því hvar sjávarútvegsráðherrann er staddur í þessari umræðu um atvinnugreinina. Helst finnst mér hann minna á gamlan kommissar sem sá um stjórnun á samyrkjubúi í sáluga Sovét. Setja baunirnar í 30 punda dósir í stað þess að reyna að framleiða þar sem afraksturinn er mestur, til að geta tilkynnt Kremlverjunum að framleiðslumagninu hafi verið náð með færra starfsfólki.  

Rök sjávarútvegsráðherrans eru eins og í dæminum með ísinn, í versta falli ljótur blekkingarleikur, í besta falli lýsir hann fullkominni vankunnáttu á viðfangsefninu.


"Staðreyndir sem lítið hefur farið fyrir"

Í samnefndri grein lýsir sjávarútvegsráðherra atriðum sem honum finnst ekki hafa verið gerð skil eða komið nægjanlega vel fram í umræðinni um áhrif aflasamdráttarins á atvinnulífið. Dálítið merkilegt að hann kjósi að velja þessi atriði máli sínu til stuðnings. En ugglaust má ætla, að þegar menn eru lítt vopnaðir eða hafa veik rök, sé týnt það til sem hendi er næst, þó deigt sé.

Í viðleitni minni til að aðstoða ráðherrann dreg ég fram staðreyndir sem ekkert hefur farið fyrir í umræðu hans: (1) Á tímabilinu frá því upp úr seinna stríði og fram til gildistöku fiskveiðistjórnunarkerfisins (1983) var árlegur jafnstöðuafli á Íslandsmiðum í kringum 350 til 400 þús. tonn.  (2) Um áramótin 2006 hefur skuldsetning í sjávarútvegi aukist 14 fallt að raungildi miðað við árið 1983.

Aflinn þetta árið er þrefallt minni en hann var að meðaltali á 40 ára tímabili fyrir tilkomu fiskveiðistjórnunarkerfisins og skuldirnar eru 14 sinnum meiri en þær voru við upptöku kerfisins. Þetta er árangurinn! 


"Um vandaða stjórnarhætti"

Ég var að lesa grein eftir Sigurð Líndal prófessor, sem birtist í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann fjallar um skipun Árna Mathiesen á dómara við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Hérðaðsdóm Austurlands. Áhugaverð og góð grein fyrir þá sem hafa áhuga á því að fylgjast með því á hvern hátt framkvæmdavaldið fer illa með það umboð og vald sem það hefur sótt til fólksins.

Ég fylgdist nokkuð náið með umræðum sem urðu á Alþingi í kjölfar þessa máls og verð að segja að margt kom mér þar á óvart. Mínir gömlu samflokksmenn fóru þar fremstir í flokki að verja þá gjörð, sem að mínu mati hefur ekki eingöngu kastað rýrð á ráðherrann og hans embættisfærslur, heldur hefur og vegið að sjálfstæði og trúverðugleika dómstólanna. Mér finnst það með ólíkindum að ungir þingmenn, sem margir hverjir eru löglærðir, skuli hafa reynt að verja þessa embættisfærslu með "froðurökum" og yfirhöfuð tekið þátt í umræðunni um þessi afglöp. Ráðherra sem fremur slík afglöp og misbeitir valdi sínu svo gróflega á að segja af sér. Hann á að sjá sóma sinn í því.

Umhugsunarefni er einnig í ljósi þeirra umræðna sem urðu um málið, hvernig "hugarheimur" þessara ungu þingmanna í mínum gamla flokki er. Eru þeir á þingi til að styrkja framkvæmdavaldið í landinu, draga úr áhrifum og eftirlitshlutverki Alþingis og vega að dómsvaldinu? Í umræðum sínum vóg þetta unga fólk að frelsi einstaklingsins og þrískiptingu valdsins, sem hvorutveggja eru hornsteinar lýðræðisins. Ég spyr mig því: "Er svona illa komið fyrir okkar flokki að grundvallarforsendur lýðræðisins eigi þar ekki lengur bústað?


Skerðing frelsisins

Það er umhugsunarvert hversu miklu við viljum kosta til við að "tryggja öryggi" okkar. "Öryggi" sem mér vitanlega hefur ekki verið skilgreint í pólitískri umræðu hér á landi. Hvar og hver er óvinurinn, sem réttlætir að við eyðum yfir 2.000 millj. á þessu ári til að "tryggja" öryggi okkar? Nær væri að setja alla þessa fjármuni í björgunarsveitirnar.

Við erum, gegnum aðildina að NATO, í trússi með þjóðum sem hafa sérstaklega gengið fram í því að skerða réttindi borgaranna. Lögum um hryðjuverk sem auðvelda á stjórnvöldum að bregðast gegn ósýnilegri vá, hefur ítrekað verið misbeitt af stjórnvöldum, t.d. í Bretlandi, til að skerða og takmarka réttindi samborgaranna. Dómstólar þurfa ekki að fjalla um frelsisskerðinguna og stjórnvöld virðast nýta þessa sértæku heimild úr hófi fram. Hugmyndin um "réttarríkið" hefur verið kastað fyrir róða. Aftur er búið að innleiða hugtakið "Ríkið það er ég", eins og Sólkonungurinn sagði forðum, þar sem rannsóknar-, ákæru- og dómsvaldið er orðið eitt og hið sama.

Við erum, hér á landi, á hraðferð inn í svipað fyrirkomulag. Umræðan um "öryggi" beinist að því að skerða mannréttindi sem hingað til hafa a.m.k. verið talin sjálfsögð. "Öryggi" einstaklinganna og samfélagsins stafar ekki ógn af einhverju sem ekki er hægt að skilgreina. Örygginu stafar ógn af stjórnmálamönnum sem tilbúnir eru að eyða umtalsverðum fjármunum til að vera þátttakendur í hernaðarbandalögum, sem tilbúnir eru að fórna grundvallarhugtökum "réttarríkisins" með því að innleiða hér á landi aukið eftirlit með samborgurunum, koma á fót greiningardeildum sem fylgjast án dómsúrskurðar með fólki og tilbúnir eru að vopna lögregluna eða að koma á fót herdeild. Þetta er hin raunverulega ógn, þegar stjórnmálamenn ganga með það í maganum að "Ríkið það er ég".  


mbl.is Bjarni: Engin stefnubreyting innan NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið breyst á 35 árum

 

Ég man ágætlega eftir þessari nótt. Var á unglingsaldri og hélt fyrst að það væri kviknað í austur á Kirkjubæ. Annað kom síðan í ljós. Ekki man ég eftir því að fólk hafi verið sérstaklega hrætt. Við komumst síðan til lands með Gjafari og tveimur dögum seinna fórum við pabbi með m.b. Gunnari Jónssyni frá Reykjvík til að tæma húsið og koma búslóðinni okkar upp á land. Það var ákveðin upplifun fyrir peyjann að koma til baka og verða vitni að atganginum sem var við að bjarga dótinu. Allt fljótandi í bjór. Menn klæddir í furðulegar "múderingar", sumir með gamla hermannahjálma og ólíklegustu menn að keyra vörubíla. Húsið okkar nötraði og skalf og sérstaklega er mér minnisstætt hversu rúðurnar glömruðu. Eitthvað af rúðunum að austanverðu var brotið og teppin sviðin eftir gjallið sem hafði komist inn. Ég man að mér var falið að sjá um að tæma eldhúsið en í öllum látunum gleymdi ég að tæma gamla Philco ísskápinn. Hann kom því innanbrotinn með ókræsliegri blöndu upp á land þar sem ægði saman lýsi, síld, rauðkáli og tómatssósu (hún var í gleri þá). Á bryggjunni biðu þvottavélar, ískápar og mublur að verða settar í sömu stroffuna og hífðar um borð. Ekki mikið verið að velta fyrir sér rispum og einhverju smávægilegu hnjaski sem stofustássið varð fyrir. En allt fór þetta vel.

Eyjarnar urðu kannski aldrei þær sömu eftir gos. Mikið af rótgrónum Eyjamönnum komu ekki til baka og austurbærinn hvarf að mestu. En uppbyggingin gekk vel og það er til marks um samstöðu og samhug Eyjamanna hversu vel tókst til.

Ég á mjög sterkar rætur í Eyjum og verð alltaf Eyjamaður. Reyni að koma sem oftast til Eyja og börnin mín, þó fædd séu á fastalandinu, eru á vissan hátt Eyjamenn líka í gegnum tengsl og veru í Eyjum. En óneitanlega hefur maður séð í gegnum árin hvernig hnignunin hefur sett mark sitt á allt samfélagið. Atgervisflótti, glötuð tækifæri og "ólög" sem grafið hafa undan samfélaginu. Kjarkurinn og áræðið hefur minnkað og stundum finnst mér fólk vera fullt af þrælsótta og hafi bara sætt sig við ríkjandi ástand. Eyjarnar eru besta verstöð landsins, ekkert annað en "ólög" hafa breytt því að innanmeinið sem herjar á samfélagið grasseri áfram og að endingu geri útaf við samfélag sem áður var það fremsta hér á landi. Engar mótvægisaðgerðir sem felast í fjölgun opinberra starfsmanna eða að mála skúra í eigu ríkis eða bæjarsjóðs koma í veg fyrir að samfélög rotni innan frá. Það þarf alvöru aðgerðir! Aðgerðir sem fólgnar eru í því að opnað verði fyrir aðgengi allra að auðlindinni og þetta lénsskipulag sem verið hefur við lýði verði afnumið. Þá fyrst munu staðir eins og Eyjar rísa til fyrri vegs og virðingar vegna yfirburðar aðgengis að auðlindinni.

Aðgerða er þörf strax, en ekki einhverntíma í fjarlægri framtíð. Fiskveiðistjórnunarkerfið verndar ekki fiskistofnana og hefur ekki byggt þá upp. Það hefur heldur ekki aukið arðsemi. Skuldsetning í greininni hefur aukist 14 fallt frá því kerfið var tekið upp og sífellt fleiri grömm af þeim gula fara í greiðslu vaxta. Það þarf samstöðu, samstöðu fólks í sjávarbyggðum, til að varpa þessu oki af okkur. Vonandi opnast einhver vitræn umræða um þessi mál þegar umræðan um álit Mannréttindarnefndar SÞ fer að taka á sig einhverja mynd við Austurvöll. En ég er efins um það. Held að stjórnmálin séu orðin svo samgróin kvótakerfinu og einnig að skilningur fólks (sérstaklega stjórnmálamanna) sé þverrandi á að það þurfi að framleiða verðmæti og selja til útlanda til að hægt sé að búa hér úti í miðju ballarhafi.

Sjálfum finnst mér að breyta eigi fiskveiðistjórnunarkerfinu á þann hátt að setja eigi t.d. 3ja mílna "sveitarstjórnarlögsögu" (Þrjár mílur í kringum Eyjar) og leyfa öllum sem heimilisfesti eiga í viðkomandi byggð að sækja sjóinn með færi og línu og skilyrða að aflanum sé landað og hann unninn í heimabyggð. Þá finnst mér að hverfa eigi frá kvótakerfinu og taka upp sóknardagakerfi. Bjóða árlega út á markaði með frjálsu framsali tiltekinn fjölda daga. Allur afli kæmi þá í land. Ég hef engar áhyggjur af kvótaveðsetningunni. "Verðmætið" myndi færast úr kvóta yfir á annan "rétt", réttinn til að veiða og hugsanlega myndu skipin fá annað og meira verðmæti í slíku kerfi.

Vona að sá dagur komi að við afléttum þessu oki af okkur. Gerist það ekki, er ég ekki svo viss um að Eyjarnar eigi sér mikla von. 


mbl.is 35 ár frá gosinu í Heimaey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 558

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband