"Braindrain"

Það er örugglega tölverðar líkur á því að við missum úr landi bæði menntað og velvinnandi fólk. Maður þarf ekki að vera doktor í kjarneðlisfræði til að koma auga þessa hættu. Þegar kjörin, möguleikarnir og væntingar til framtíðarinnar verða hér orðnir mun lakari en annarsstaðar, rýfur fólk sig upp og leitar að nýrri og betri framtíð. Þetta hefur gerst hér á landi oftar en einu sinni. Síðast í einhverju mæli við fall síldarstofnsins 1967.

Þetta eru því miður hinar döpru staðreyndir fyrir valdhafana og þá sem ekki treysta sér eða eiga möguleika að leita betri haga. Fólk er bæði skynsamt og hreyfanlegt og tekur ákvarðanir út frá eigin hagsmunum en ekki hagsmunum heildarinnar. Eitthvað sem alltaf hefur pirrað valdhafana í gegnum aldirnar.

Sumir hafa haldið því fram að það sé besta fólkið sem fari. Þeir sem hafi dug og djörfung, en gamla fólkið og aularnir sitji eftir heima. Sumir hafa kveðið svo fast að orði að heimskasti sonurinn verði eftir heima en hinir yfirgefi torfuna í leit að betri tækifærum. Þessari skoðun hefur m.a. verið haldið fram um vanda landsbyggðarinnar. Ég held að það sé nú kannski fullmikið lagt í þessa staðhæfingu, en að öðru leyti rímar hún ágætlega við söguskýringu okkar sjálfra á því þegar við yfirgáfum Noreg á sínum tíma. Við erum jú víst öll eðalborin og þeir ættbálkar sem fylltu í það rúm sem myndaðist þegar við héldum á knörrum okkar hingað út á mitt haf, voru okkur óæðri.

En burtséð frá þessu að þá eigum við örugglega eftir að sjá á eftir mörgu hæfileikaríku fólki. Í sumum löndum A-Evrópu er það þannig að allt að 10% af vinnuaflinu vinnur í öðrum löndum og 20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar koma frá fólki sem vinnur erlendis. Það sama mun líklega ekki gerast hér. Þeir sem flytja munu ekki senda gjaldeyri heim. Þeir munu setjast að erlendis með sínar fjölskyldur og/eða festa þar rætur ef ástandið verður langvinnt hér. 


mbl.is Möguleiki á landflótta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrisskortur og krónuhrun

Það vekur kannski ekki svo mikla furðu að erfiðlega gangi að ná gjaldeyri inn í landið, m.v. það sem á undan er gengið og hvernig fyrirmælin eru sem aðilar sem von eiga á gjaldeyri erlendis frá hafa fengið frá viðskiptabönkunum varðandi greiðslufyrirmæli til erlendra aðila. Þetta er algjört klúður og með ólíkindum að þeir aðilar sem stjórna þessu geti klúðrað þessu svona mikið og í svona langan tíma. Það er ekki lengur hægt að bera við hruni bankakerfisins. Það er orðin frekar ódýr skýring. Annað og meira liggur að baki.

Ég er reyndar þeirra skoðunar að fyrir þessu séu einkum tvær ástæður: (1) Það ríkir ekkert traust til Seðlabankans þannig að ekki er hægt að finna þann erlenda banka sem tilbúinn er að miðla á sína ábyrgð gjaldeyri hingað með bakábyrgð Seðlabankans á að greiðslan skili sér til rétts aðila. (2) Krónan er of dýr þannig að þau fyrirtæki sem eru í útflutningi og enn eiga íslenskar krónur eða hafa möguleika á því að fjármagna rekstur sinn til skamms tíma á þessum okurvöxtum bíða með að koma heim með gjaldeyri í þeirri trú að krónan eigi eftir að gefa verulega eftir.

Á næstu vikum eða jafnvel mánuðum er bara tvennt í stöðunni: (1) Annaðhvort gefur krónan eftir og gjaldeyrir fer að flæða inn í landið með eða framhjá því kerfi sem Seðlabankinn hefur reynt að koma á. EÐA (2) Að vextir verða hækkaðir enn meira.

Hvernig sem fer að þá held ég að við séum orðin það sviðin að sú hjálp sem við eigum hugsanlega eftir að fá (í formi erlendra lána) dugi takmarkað til að styðja við krónuna. Hún hefur fengið annað og lakar gildi og allt tal um að krónan eigi sér "gildi" í einhverju raungengi sem taki mið af framleiðsluþáttum á ekki við til skamms tíma. Ég spái því að krónan hrynji þegar opnað verður fyrir eðlileg viðskipti með hana og þá rætist spádómar dönsku frænda okkar um að verðbólgan hér fari í 75%.


mbl.is Vöruskipti hagstæð í september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á völlinn

Nú þurfum við að sýna samstöðu og mæta á völlinn til að hvetja þessar frábæru stelpur okkar til sigurs! Ekkert landslið í knattspyrnu hér á landi hefur náð viðlíka árangri. Konur eru einfaldlega betri í knattspyrnu en karlar! Góð skemmtun í kreppunni þegar við rúllum yfir Írana.
mbl.is Ísland - Írland: Búið að selja á fjórða þúsund miða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný rödd úr Sjálfstæðisflokknum

Ég var fyrir stundu að hlausta á Sigurð Kára Kristjánsson halda ræðu á Alþingi vegna umfjöllunar um skýrslu forsætisráðherra um efnahagsmál. Þetta var mjög merkileg ræða og vil ég sérstaklega þakka honum fyrir heiðarleika og djörfung sem hann sýndi í ræðu sinni. Hvet ég alla sem þess eiga kost að hlausta á þessa tímamóta ræðu.

Ég hef sjaldnast verið sammála SKK og fundist ungu þingmenn míns gamla flokks vera forpokaðir og hallir undir einhverjar valdaklíkur og oft og tíðum haft skoðanir sem ganga á svig við aukinn réttindi og jöfnuð í þessu þjóðfélagi. Þarna heyrði ég "gamla" rödd sem ég fagna og vona að nú sé loks komið að breytingum og uppgjöri við öfl sem hugsanlega hafa steypt okkur og afkomendum okkar í örbirgð til margra ára.


mbl.is 85% af vergri landsframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokkur atvinnulausra

Ég held að við leysum ekki þann vanda sem við erum í nema með nýju fólki. Það þarf að stofna vettvang og jafnvel nýjan flokk með fólki sem hefur misst vinnuna. Margt af þessu fólki hefur mikla hæfileika og reynsla margra er örugglega þannig að hún myndi nýtast við að byggja upp betra þjóðfélag. Ég er sannfærður að hægt væri að koma saman flokki á landsvísu úr hópi þeirra sem misst hafa vinnu sína sem væri frambærilegri með t.t. menntunar og reynslu til sjávar og sveita en þeir sem nú verma sessurnar á Alþingi.  Ég er ekki viss um að þeir stjórnmálaflokkar sem starfandi eru sé treystandi til að koma að uppbyggingunni. Flestum þeirra ráða fámennar valdaklíkur sem hafa verið iðnar við það í gegnum árin að planta sínu fólki í stjórnsýsluna.

Það þarf að fækka þessum lýðskrumurum og foringjadýrkurum sem sitja á þingi.


mbl.is Starfsmönnum BYGG sagt upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Iceland In Memoriam, Fjármál 101

Áður en að vinir okkar, Færeyingar, ákveða að kasta til okkar bjarghring væri eflaust gott fyrir þá að vita hverju verið er að bjarga. Ísland og það sem gerst hefur hér á eftir að verða "Case-Study" í öllum fjármálabókum sem gefnar verða út í heiminum á næstu árum og líklega eiga milljónir stúdenta í fjármálum eftir að lesa um þetta afhroð og þau mistök sem gerð voru í aðdraganda fallsins og líklegum eftirmálum þess.

Það sem gerðist: (1) Landinu var stjórnað eins og vogunarsjóði með ákvörðun um að halda  vextastigi háu til að auka innstreymi erlends "áhættufjármagns" til að styrkja gengið og "falsa" þar með undirliggjandi verðbólgu (erlenda þáttinn) en í leiðinni halda uppi háum kaupmætti sem átti sér engar "framleiðslulegar" forsendur. (2) Ríkissjóður var rekinn með hagnaði vegna mikils innflutnings (sterk króna/hár kaupmáttur) en ekki af þeim sökum að þar hafi verið gætt sérstaks aðhalds. Þvert á móti hafa ríkisútgjöld vaxið líkt og gerlagróður á undanförnum árum. (3) Opinberir aðilar tóku meðvitaða áhættu með því að fresta eða draga að kaupa tryggingar í formi stærri þrautarvarasjóðs vegna stækkunar bankakerfisins og fylgdu ekki eftir ákvæðum regluverksins.

Það sem hefur verið gert: (1) Ríkið hefur hirt bankakerfið með tilheyrandi mannorðsmissi en ríkisstarfsmennirnir hafa ekki þekkingu til þess að koma á kerfi greiðslumiðlunar við útlönd. (2) Við erum með 3.500 nýja ríkisstarfsmenn í ríkisbönkunum sem sinna eiga innlenda þætti greiðslukerfisins og pólitísk skipuð bankaráð! Of stórt kerfi fyrir of lítil umsvif, sem líklega verður erfitt að selja (einkavæða). (3) "Erlenda" hluta bankakerfisins var fórnað og þar með möguleikum okkar til að afla landinu gjaldeyris. (4) Við þurftum að leita á náðir IMF því annars var óvíst að við höfum ofan í okkur að éta. (5) Vextir hafa verið hækkaðir og þar með aukið á erfiðleika almennings og fyrirtækja í þeim tilgangi að reyna að halda gengi háu.

Það sem getur gerst: (1) Vaxtahækkunin (28/10) mun hafa þveröfug áhrif á gengi krónunnar og auka verðbólguþrýsting. Hún mun jafnframt flýta fyrir gjaldþrotum fyrirtækja og auka á uppsagnir starfsmanna. (2) Meiri líkur eru nú en nokkru sinni áður að fjármálakreppan stökkbreytist eins og sumar veirur gera og verði að almennri alþjóðlegri kreppu með minnkandi eftirspurn og stöðvun framleiðslufyrirtækja. Merki um þetta sjást meðal annars í lækkun á verði hráefna. Miklar líkur eru á því að fiskverð lækki, t.d. hefur hausaður þorskur í Rússlandi lækkað um 10% á einni viku. Gerist það á okkar mörkuðum yrði það gríðarlegt áfall fyrir okkur og ekki bætandi á veika stöðu fyrir.

Það hafa mörg mjög stór mistök verið gerð hér á landi á undanförnum árum. Verst er að við virðumst ekki geta lært af mistökunum. Við hjökkum í sama "meðvirknisfarinu" þar sem öll okkar ógæfa er öðrum að kenna. Ráðdeildarsemi hefur ekki verið til staðar og lítið gert til að leggja í sjóði til mögru áranna.


mbl.is Færeyingar vilja lána Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spái því að krónan veikist

Ákvörðun um að hækka vextina er glapræði í mínum huga. Hún mun hafa öfug áhrif á það sem verið er að reyna ná fram, þ.e. að styðja eða hækka gengi krónunnar. Áhrifin munu helst koma fram í gegnum tvo þætti: (1) Þó svo að "vaxtapremían" sé hækkuð um 50% (úr 12 í 18%) mun vaxtamunaviðskipti ekki fara í gang. Ástæðan er sú sama og ef að fyrirtæki sem er í erfiðleikum ákveður að gefa út skuldabréfaflokk með 50% hærri "premíu". Pappírarnir bera hærri vexti en undirliggjandi áhætta er mun hærri. Hver hefði t.d. keypt skuldabréf af Mest hf. með 100% vöxtum rétt áður en þeir urðu gjaldþrota? Peningamálastjórnunin sem viðhöf er hérna dugar ein og sér til þess að enginn erlendur aðili þorir að setja hér inn fé. (2) Vaxtahækkunin mun gera út af við sum framleiðslufyrirtækin sem afla gjaldeyris, t.d. í sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Það hefði átt að lækka vextina eða í versta falli að halda þeim óbreyttum fram að næsta vaxtaákvörðunardegi. Núna er mikilvægt að reyna að halda þeim fyrirtækjum gangandi sem geta aflað gjaldeyris. Það er ekki gert með þessari ákvörðun.


mbl.is Frostkaldur andardráttur IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott þegar aðrir hafa vit fyrir okkur

Þetta eru jákvæðustu fréttir dagsins! Að fyrrum mannætur í Kyrrahafi skuli hafa haft vit fyrir okkur og komið í veg fyrir að aurunum okkar skyldi verða varið í þessa vitleysu.

Þegar þrengir að á heimilum þarf að spara. Líka á stjórnarheimilinu. En veruleikafyrrta fólkið hefur aldrei þurft að hugsa svoleiðis. Það er vant að eyða og spyr venjulega ekki hvað hlutirnir kosta. Það er nefnilega aðrir sem borga brúsann, fólkið í landinu.

Áfram Ísland!


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Píníngsdómur hinn nýi

Að mörgu leyti má líkja því sem við erum að ganga í gegnum núna við Píníngsdóminn, sem Daði í Snóksdal, Ari í Ögri og félagar leiddu yfir þjóðina á því herrans ári 1490. En ákvæði dómsins (laganna) tafði í 300 ár myndun borgríkis hér á landi, hélt niðri hagvexti, kom í veg fyrir framþróun en útvegaði ódýrt vinnuafl og þá yfirleitt í formi ánauðar til stórbænda.

Við höfum kallað yfir okkur Píningsdóm hinn nýja með aðgerðum og aðgerðaleysi ráðamanna okkur. Þeir hafa haldið þannig á málum að þjóðinni verður líklega kippt niður á sama stig og löndin á Balkanskaga. Þeir hafa hunsað aðvaranir mætra manna, eftirlitsstofnanir hafa ekki unnið grunnvinnuna, peningamálastjórnunin var eins og verið væri að stýra vogunarsjóði og ráðamönnum þótti tryggingin sem fólst í stærri þrautarvarasjóði Seðlabankans vera of dýr til að það réttlætti lántöku. Við og afkomendur okkar munum súpa seyðið af þessum stjórnunarlegu mistökum. Enginn annar mun greiða fyrir skaðann.

Afleiðingar þessa höggs sem reið á hagkerfið er ekki nema að litlu leyti komið fram. Þó að nefið sé brotið, eiga innanmeinin eftir að koma fram. Gjaldþrot fyrirtækja og heimila og síðast en ekki síst að við höfum tapað fyrirtækjum og fólki sem aflaði gríðarlegs gjaldeyris. Hvernig ætlum við að standa undir öllu velferðakerfinu okkar þegar þessar tekjur koma ekki lengur til þjóðarbúsins? Við gerum það ekki með því að gefa raforkuna, ekki með því að setja fólk í skóla og allra síst með því að fresta afborgunum lána.

Við verðum tilneydd til að skera niður opinbera kerfið, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið svo ötull að byggja upp á síðustu áratugum. Við þurfum að búa við lakari efnahagsleg gæði og hugsanlega minna öryggi í velferðarmálum en þjóðirnar sem við venjulega viljum bera okkur saman við.

Og Píningsdómur hinn nýi heldur innreið sína með skertum möguleikum einstaklinganna, meiri ríkisumsvifum og víðtækari pólitískri spillingu. Orsakir alls þessa eru í mínum huga ekki mjög flóknar: Við höfum búið í marga áratugi við veika stjórnsýslu þar sem kerfisbundið hefur verið "plantað" inn mönnum/konum með "rétt" pólitískt bakland. Það er ein helsta ástæðan fyrir hruninu.

 


"Diplómasía"

Það kæmi mér ekki á óvart að Rússar neituðu okkur um lánið, m.v. orðæði sumra embættismanna hér á landi á undanförnum dögum um þessa fyrirhuguðu lántöku. Hvort sem okkur líkar betur eða verr að þá er samband lánardrottins (hver sem hann er) og skuldara oftast með þeim hætti að frekar hallar á skuldarann í þeim samskiptum. Það eru bara því miður staða þeirra sem hafa farið illa með og þurfa að hlaupa upp á náðir annarra til að geta haft ofan í sig að éta.

Ég skil ekki þessa "diplómasíu", að byrja á því að tortryggja þann sem býðst til að veita aðstoð. Það þekkja þeir sem þurft hafa af eigin rammleik að kríja út lán. En kannski eru þetta einhverjir óskiljanlegir klækir þeirra embættismanna sem ráðnir hafa verið til að reka og framfylgja málum okkar erlendis. En m.v. þessar yfirlýsingar og afstöðu þessara manna, að þá er bara vonandi að við náum ekki kjöri til Öryggisráðsins. Þangað eigum við ekkert erindi. Höfum ekki efni á því og einnig að setu okkar þar fylgdu engin ný sjónarmið eða skoðanir. Við myndum ekki bæta heiminn. Setu okkar fylgdu sjónarmið lands, sem hefur frá því það hlaut sjálfstæði verið taglhnýtingur þeirra landa sem valdið hafa.

 

 


mbl.is Engin annarleg sjónarmið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 554

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband