Merkilegt hversu lítið er fjallað um þetta

Ég er mikill áhugamaður um deCode. Fyrir utan það að eiga í í tölvert stóra stöðu í félaginu er ég áhugamaður um að sem mest að fyrirtækjum, þar sem hugvitið er virkja, verði staðsett hér á landi. kannski er ég að verða eins og Kató gamli.

En ótrúlegt finnst mér hvað síðasta afrek deCode fær litla umfjöllun. Þegar þetta er skrifa, rétt fyrir 18:00 hefur hlutabréfið hækkað um 0,42$ (14% hækkun!) á markaði í USA vegna tilkynningar frá félaginu. Þá hefur fréttin fengið tölvert rými í erlendum fjölmiðlum, t.d. á MarketWatch, Yahoo, Forbes og á Bloomberg.

Eini fjölmiðillinn hér á landi sem fjallað hefur um þennan áfanga (sem er einstakur í veröldinni) er mbl.is og þar eru allar fréttir um félagið flokkaðar undir "tækni og vísindi". Á ríkisfjölmiðlinum er t.d. frekar fjallað um "Rennslishraða mjólkur í mjaltarkúm" en þetta afrek sem vekur athygli á heimsvísu. Ekki á ég von á því að þetta heilli "Kastljósfólkið", þar ráða vandamálin, gamlar lummur og illa undirbúnir spyrlar ríkjum.

 


mbl.is ÍE ætlar að færa erfðafræði nær almenningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Carry-trade konsúllinn"

"'Útgerðarkonsúllinn" fyrir erlendar "carry-trade" útgerðir við Kalkofnsveg hefur gefið merkið og á næstu mánuðum munu ryðjast hingað inn á krónumiðinn aðilar í leit að skjótfengnum gróða. Krónan mun við þær veiðar styrkjast enn frekar með tilheyrandi erfiðleikum fyrir alla framleiðslu hér á landi.

Á undanförnum vikum og dögum hafa birst fréttir um lokun á framleiðslufyrirtækjum á landsbyggðinni. Síðustu daga hefur keyrt um þverbak, að meðaltali ein lokun á dag með tilheyrandi uppsögnum starfsmanna. Aðgerðir "Konsúlsins" í dag hraða niðurrifinu og landsbyggðin og framleiðslufyrirtækin í þessu landi eiga eftir að fá enn þyngra högg í framhaldinu.

En kannski vakir fyrir "Konsúlnum" að tryggja þá sem hafa sitt á þurru, hafa allar sínar tekjur í krónum, "millifærslulið" sem hefur aldrei vitað að hér mun ekkert þrífast nema að við getum framleitt og selt afurðir/þjónustu okkar erlendis. Svo hlýtur þetta að vera gott fyrir þá sem þurfa að gera sér tíðar ferðir suður til Indónesíu. Kaupmátturinn meiri og ferðakostnaðurinn ekki eins íþyngjandi fyrir ráðuneytið.

Vaxtabreytingin er hugsanlega dauðadómur krónunnar og kallar ennfrekar eftir vitrænum umræðu um hana frekar en "sprenghlæilegum" athugasemdum.

Ég er að vona að þessi vitlausa ákvörðun verði okkur til góðs. Teygjan slitni með tilheyrandi breytingum sem nauðsynlegar eru til að koma peningamálastjórninni í einhvern vitrænan farveg. Verkalýðsfélögin og Samtök atvinnurekenda hljóta að standa upp og mótmæla þessu. Sama hlýtur að verða með Samfylkinguna ef hún ætlar að standa undir nafni.

 

 


mbl.is Stýrivextir Seðlabanka Íslands hækkaðir um 0,45%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sprenghlægilegt", en sannleikanum er hver sjálfreiðastur

Það er ekkert "sprenghlægilegt" við það að skoða hvort hagkvæmara er fyrir okkur að skipta út krónunni og taka upp aðra mynt, t.d. Evru, eins og Seðlabankastjórinn hélt fram með svo minnisstæðum hætti. Skynsöm umræða um þessi mál er okkur nauðsynleg.

Íslenska hagkerfið hefur af stórum hluta verið fjármagnað með "vaxtarmunarviðskiptum" eins og Manuel Hinds fyrrv. fjármálaráðherra El Salvador bendir á í grein sinni í Viðskiptablaðinu 20. september s.l. Hinds bendir á jafnframt á að viðskipti þessi nemi liðlega 70% af vergri þjóðarframleiðslu. Erlendar skuldir nemi 6.000 milljörðum og nettó skuldastaða er neikvæð um 180% af vergri landsframleiðslu. Árlegar vaxtagreiðslur til útlanda nema um 200 milljörðum eða um 54% af því útflutningi. Tvöfalt meira er flutt inn við framleiðum og flytjum út. Afleiðingin er sú að við getum ekki greitt niður erlendu vextina, en þurfum í sífellu að hækka yfirdráttinn gagnvart útlöndum, þ.e. auka skuldina við erlendu aðilana.

Vegna þessa hefur krónan fengið verðgildi sem hún engan vegin er raunhæft. Krónan er metin til verðleika á "speculatívan" hátt, þ.e. verðgildi hennar stjórnast af spurn í vaxtarmunarviðskiptum en ekki í framleiðslulegum gildum, t.d. hvaða hluti hægt er að framleiða hér og nýta á hagkvæmari hátt en gert er annarsstaðar. Afleiðingin af þessu er að framleiðsla og nýting auðlinda (fiskistofnar, hugverk, þjónusta ofl.) verður hlutfallslega dýrar hér og á erfiðara í samkeppni á erlendum mörkuðum.

Ég hef lengi spáð því að skellurinn á hagkerfið verði þegar Seðlabankinn lækkar vextina. Í öllum venjulegum hagkerfum ætti vaxtalækkun að stuðla að aukinni fjárfestingu og hleypa lífi í innlendan hlutabréfamarkað og knýja hagkerfið þannig áfram. Ég held að það gerist með öfugum formerkjum hér, þrátt fyrir spár allra greiningardeilda um hið gagnstæða. Það sem ég held að gerist er að þegar vextir lækka tekur krónan dýfu og fer að "fjármagna" sjálf krappari dýfu í gegnum  flótta úr vaxtarmunarviðskiptum og í gegnum uppgjör/gjaldþrot og skarpa verðlækkun á fasteignamarkaði, sem situr upp með framleiðslu á húsnæði sem dugar til næstu sjö ára og fjármögnuð er að verulegu leyti með erlendu fjármagni.

Gangi þetta eftir leitar raungengi krónunnar aftur að jafnvægi þar sem framleiðslukostnaður innanlands gefur okkur möguleika að keppa við erlenda aðila um "vörur" sem framleiddar eru hér. Þá er bara spurning hvað mikið verður eftir af lífvænlegum fyrirtækjum til að geta framleitt og selt til að fá inn nýja peninga í þjóðarbúið. Áhrif af falli krónunnar á örugglega einnig eftir að hafa víðtækari áhrif á einkaneyslu en við höfum áður séð í gengisbreytingum fyrri ára. Einstaklingar eru í dag hlutfallslega meira skuldsettir í erlendri mynt en nokkurn tíma áður. Fall krónunnar á eftir að bíta hratt í þá einstaklinga sem skuldsettir eru í erlendri mynt. Hinir fá hækkun á lánum sínum í gegnum verðtrygginguna þegar verðbólgan tekur á skrið með hækkuðu verði á innflutningi.

Þetta er kannski ekki fögur lýsing og vonandi verður hún ekki að veruleika. En ég óttast að svo verði. Við höfum notast við óskynsama peningamálastefnu og jafnframt hafa ríkisfjármálin verið þannig rekin að þau hafa verið þensluhvetjandi. Jákvæður greiðslujöfnuður ríkssjóðs er eingöngu tilkominn vegna of mikils innflutnings en ekki af góðum rekstri. Þegar innflutningur dregst saman situr ríkissjóður eftir með kostnaðinn og öll óleystu verkefnin hvernig hægt hefði verið að hagræða í rekstrinum.

Það má sjá þessu glöggt dæmi í svokölluðum mótvægisaðgerðum ríkissjóðs til að bregðast við aðsteðjandi vanda vegna kvótaskerðingarinnar. Segir manni mikið um það hversu lítt tengt þetta fólk er, sem getur gengið að laununum sínum vísum með hjálp annarra. Mikið af aðgerðunum eru millifærsluleiðir sem snúast um að flytja til opinber störf (fimm nýir lögreglumenn hér og sex nýir bókarar þar) eða sóa fjármunum í aðgerðir sem koma kannski aldrei til með að skila "útlögninni" til baka. Lítið í aðgerðunum er með beinum markmiðum um að efla nýsköpun og búa til umhverfi sem hvetur til framsækni einstaklinganna til að finna leiðir til að "framleiða vörur" sem hægt er að selja úr landi. Kannski hefði verið skysamlegra að útdeila þessum milljörðum beint til einstaklinganna, lána þeim til að opna t.d. E-Trade reikninga og kenna fólki að veiða á erlendum fjármagnsmiðum.

 

 


mbl.is Beinn ávinningur 70 milljarðar á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríð snúast um hagsmuni

Öll stríð snúast um hagsmuni. Oftast var herjað til að komast yfir náttúruauðlindir, ná í nýtt ræktunarland eða  vatn, ná í ódýrt vinnuafl eða tryggja markaði. Valdhafarnir "markaðssettu" herfarirnar annaðhvort í nafni trúarinnar eða að verið væri að herja á óvin sem landinu stafaði sérleg ógn af. Tilgangurinn með markaðssetningunni var jú að tryggja eða auka áhrifamátt ríkisins og einnig að búa til skiljanleg "rök" fyrir lýðinn, svo að auka mætti skattheimtu til að fjármagna herförina og ekki síður að ætlað mannfall í herförinni hafi haft tilgang. Stríðið í Írak snýst um hagsmuni, olíu, ekkert annað.

Bandaríkjamenn líkt og Nasistar (þegar þeir réðust inn í Tékkóslóvakíu) byggðu gagnaöflun sína á upplýsingum frá glæpamönnum. Óáreiðanlegum upplýsingum sem kannski tóku frekar mið af því að veita upplýsingar sem voru nægjanlega rangar til að koma af stað atburðarrás sem þjónaði hagsmunum þessara glæpamanna og féllu að hugmyndaheimi þeirra sem standa við stjórnvölinn í Bandaríkjunum. Olíusjóður Íraks og frystar erlendar innstæður voru leystar upp og 700 tonn af dollaraseðlum prentaðir og fluttir  flugleiðis til Íraks í flutningavélum til að búa til "goodwill" og reyna á þann hátt að stytta tímann sem þá var bara skilgreind sem "aðgerð". Mest af þessu fjármagni lenti hjá glæpamönnunum sem veittu svo vel á garðann með röngum upplýsingum. 

Afleiðingarnar af þessari herför eru hörmulegar. Fyrir utan öll þau mannslíf sem fórnað hefur verið í þessu tilgangslausa stríði er heimurinn orðinn verri og sumpart hættulegri en hann var áður. Alskyns öfgahópar hafa sprottið upp til að herja á þá sem herja á trúbræður þeirra í suðri. Trúarbrögðin notuð til að villa um fyrir fólki í þeim tilgangi að hvetja það til að framkvæma einhver voðaverk og þá ekki bara á þeim stöðum sem stríðið er rekið. Viðbrögðin utan átakasvæðisins eru þau að allt eftirlit er aukið, gengið á mannréttindi fólks með þukli og gagnasöfnun með tilheyrandi ofurkostnaði fyrir öll hagkerfin. Allt í nafni einhverrar "ógnar" sem við sjálf erum farin að halda að sé til staðar.

Vegna þessa stríðs, sem átti að vera aðgerð, er orðið erfiðara og kostnaðarsamara að eiga í viðskiptum við erlenda aðila, flutningur á fjármagni á milli landa er undir sérstakri smásjá, lengri tíma tekur fyrir fólk að ferðast, gríðarlegur innbyggður kostnaður hefur verið settur á vegna eftirlits með samborgurum með þeim afleiðingum að vinnuafl flyst til í störf sem eru þjóhagslega óhagkvæm og heimurinn er orðinn verri vegna þess að flestir trúa að "ógnin" sé til staðar. Afleiðingarnar eru að lífsgæði fólks hafa skerts og þjóðhagslegur óhagkvæmur kostnaður hefur aukist.


mbl.is Greenspan: Íraksstríðið snýst aðallega um olíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hangikjötinu skulu þér þekkja þá

Einn af þeim þátt sem skilja að mismunandi menningarheima og oft er notað til að bera lönd saman er á hvern hátt lögum viðkomandi lands er beitt af hálfu dómstólanna. Okkur finnst að öll jöfnu furðulegt og grimmilegt þegar hendur eru höggvnar af fólki fyrir hnupl í Sádí Arabíu eða þegar fólk er þar kaghýtt á almannafæri fyrir að að neyta áfengis eða glugga í erlent blað þar sem í er auglýsing um dömubindi. Allt þetta vekur hjá manni kenndir um að illa sé farið með fólk og lögin sem refsingarnar byggja á óréttlátar og ómanneskjulegar og okkur sem hér búum óskiljanlegar.

Það sem vekur furðu mína er dómur Héraðsdóms Suðurlands yfir manni sem stal hangikjötslæri. Eins og ég nefndi með samanburðinn að þá eiga lögin sem við sjálf setjum að endurspegla viðhorf okkar til náungans og lifsins almennt. Við setjum okkur upp regluverk á hvern hátt skuli refsað fyrir atvik sem ekki samrímast þeim gildum sem ríkja hverju sinni.

Þó að ég sé ekki löglærður, að þá hef ég réttlætiskennd og tel mig ekki eiga í erfiðleikum með að greina á milli hvað er rangt og hvað er rétt. Ég veit að maðurinn gerði rangt með því að taka það sem honum bar ekki. Það veit ég, en ég veit líka hitt að það er rangt að dæma mann, þrátt fyrir að hann hafi rofið skilorð með verknaði sínum, til svo þungrar refsingar. Það eru ósanngjörn lög og leyfi ég mér að efast um að það samrímist þeim gildum sem almennt ríkja í þjóðfélagi okkar í dag.

Stundum hefur verið sagt að dómstólar dæmi bara aumingja og dómarar séu vilhallir valdinu. Vildi ég að ósatt væri, en á langri ævi hef ég séð svo mörg dæmi um slíkt að ég er farinn að efast um að réttlætið sé haft að leiðarljósi í dómsölunum. Það er miður ef slíkt reynist vera rétt og setur þjóðfélag okkar niður á annað og verra stig.

Dæmi um fáránlega dóma að mínu mati er verðsamráð olíufélaganna. Þar var sannað að forráðamenn félagnna viðhöfðu athæfi sem skaðið fólkið í landinu. Lögin voru ekki nægilega afgerandi og því sluppu þessir menn við dóma sem allstaðar annarsstaðar, a.m.k. í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, hefðu verið dæmdir til sektar og margra ára fangelsisvistar.

En íslenskir dómstólar hafa alltaf tekið hart á sauða- og snærisþjófum. Nægir þar að vísa í söguna um ógæfufólk sem dæmt var til vistar á Brimarhólmi fyrir smávægilega yfirsjón.

Kannski á réttlætið eftir að ríða inn í dómsalina og kannski á hið há Aalþingi okkar eftir að fjalla um slík mál og gera breytingar á lögum sem löngu eru tímabær. Ég held að sagan eigi eftir að dæma okkur af dómum eins og þessu "hangikjötsmáli" og bera það saman við dóma þar sem sýkna var dæmd, þar sem menn verðskulduðu refsingu, eins og í samráði olíufélaganna.


mbl.is Þrettán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela hangikjötslæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverður geiri

Fréttin um að Geysir Green Energy hafi selt hlutafé til erlendra fagfjárfesta hljóta að marka þáttaskil í útrás íslensks orkufyrirtækis. Mjög áhugavert að heyra/sjá að erlendir aðilar eru reiðubúnir að taka þátt í útrásinni með því að leggja félaginu til aukið áhættufjármagn. Gerir ekkert annað en að styðja við þá skoðun að við séum að gera góða hluti, á réttum tíma og á réttum stöðum.

Það sem vekur hins vegar furðu mína er sú umræða sem farið hefur í gang um að erlent fjármagn sé eitthvað verra og hættulegra en innlent fjármagn. Ef eitthvað er að þá ættum við að fagna því að einhver hafi áhuga á því sem verið er að gera hér á landi og bjóða allt fjármagn sem tilbúið er að taka þátt í áhættunni velkomið.

Yfirlýsingar úr pólitíkinni hafa verið vægast sagt furðulegar varðandi aðkomu þessara nýju erlendu aðila að Geysi Green Energy. Í einu orðinu er talað um að einkavæða orkugeirann og að útrásin í þessum geira eigi eftir að jafnast á við bankaútrásina en í hinu orðinu tala pólitíkusar um að útlendingar séu að koma bakdyrameginn að "náttúruauðlindinni". Afhverju voru þá ekki settar upp girðingar í lögunum sem heimiluðu sölu orkufyrirtækja til einkaaðila um að erlend eignaraðild væri ekki heimild hjá fyrirtækjum sem hefðu áhuga á að fjárfesta í orkufyrirtækjum? Allt óábyrgt tal stjórnmálamanna getur skaða þessa útrás.

Við eigum ekki að óttast fjármagnið, hvort sem það er innlent eða erlent. Það leitar yfirleitt þangað sem það kemur að bestum notum og skynsamlegast er að vinna. Orkufyrirtækin þyrfti að einkavæða, þau eru flest hver orðin innanfeit af verndinni sem þau hafa notið.


mbl.is Goldman Sachs og Ólafur Jóhann að eignast 8,5% í Geysir Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur mikillar vinnu

Það er vissulega ánægjulegt að sjá hversu margt jákvætt hefur komið frá ÍE að undanförnu. Félagið átti á brattann að sækja í fyrstu. Ótrúleg rætni, óvild og öfund sem einkennt hefur viðhorfið til þeirra. Vonandi eru þeir tímar að baki.

Félagið er eitt af örfáum félögum sem eru hér á landi þar sem einhver alvöru nýsköpun er stunduð og reynt að koma henni í markaðshæfan búning. Hin félögin eru Össur og Marel og kannski má einnig flokka Enex í þennan hóp líka þar sem reynt er að útvíkka yfirburðarþekkingu okkar á jarðvarma og rekstur jarðvarmaveitna.

Þrátt fyrir mikla hagsæld hér undanfarin ár hefur nýsköpun ekki verið mikil. Við höfum t.d. ekkert tekið þátt í olíuævintýri nágranna okkar, Norðmanna. Ekkert smíðað af tækjum og búnaði fyrir þann iðnað þó að við höfum hugvit og allar aðstæður til að keppa við sambærileg félög í Noregi. Það er líka umhugsunarvert afhverju það fjármagn sem hingað streymir og verður hér til nýtist ekki meira til alvöru atvinnusköpunar.

mbl.is ÍE finnur stökkbreytingar sem valda öllum tilfellum glákuafbrigðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róið á krónumið

Enn ýta menn úr vör suður í Evrópu og sækja hingað norður eftir á fengsæl mið krónunnar, fjármagnaðir í "Carry-Trade útgerð" þar sem búast má við að fengurinn verði a.m.k. 10 til 12% árlegur vaxtamunur. Ekki léleg býtti það. Á þessum miðum er enginn kvóti  eða takmarkaður aðgangur að "auðlindinni".

Seðlabankinn sér um sleppingar og aflinn er óþrjótandi. Menn standa í kösinni og þurfa að hafa sig alla við til að klára að blóðga áður en trollið er híft upp aftur.  Á þessum miðum skín sólin glatt, karlinn í brúnni brosir yfir atganginum í strákunum sem gefa ekkert eftir í aðgerðinni. Góð tilfinning þegar dallurinn fer að þyngjast á bárunni. Tími til kominn að taka stímið í land eftir góðan túr á Íslandsmið.

Veiðum á krónumiðunum er viðhaldið  af "bilaðri" peningamálastjórn Seðlabankans. Gjaldmiðillinn er kominn í þann "fasa" að hann er orðinn "speculatívur" og honum er haldið í hæstu hæðum af erlendum aðilum sem sjá sér hag í því að "totta" vaxtamuninn úr krónunni. Krónan á sér ekki lengur grunn sem byggir á heildarframboði eða eftirspurn í hagkerfinu. Seðlabankinn er orðinn "konsúll" fyrir erlendar fjármagnsútgerðir og veifar flagginu og setur kúrsinn til hagsbóta fyrir aðila utan íslenska hagkerfisins.

En allir hlutir eru forgengilegir, líka þessi. Teikn eru á lofti að sá órói sem hefur verið á fjármálamörkuðum erlendis sé ekki yfirstaðinn. Verði sú aðlögun skörp eða langvinn má fastlega búast við því að þessir erlendu útgerðarmenn losi um það fjármagn sem bundið er í krónunni. Gerist það hratt mun krónan taka dýfu með tilheyrandi verðbólguskoti ofan í vexti sem eru í himinhæðum. Það getur orðið stór bylgjan sem flæðir yfir hagkerfið á leið sinni að jafna þann mun sem búinn hefur verið til í "röngu" raungengi. Þá er spurning hvað tekur við, hugsanlega óðaverðbólga og/eða aukið atvinnuleysi með tilheyrandi erfiðleikum á fjármála- og fasteignamarkaði. Útflutningsatvinnuvegirnir eiga ekkert "batter" til að taka við stórri dýfu, þeir hafa verið þrautpíndir á háu gengi og ekki verður sóknin í fiskimiðin aukin í bráð. 

 


mbl.is Rabobank gefur út nýjan flokk krónubréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn styrkist krónan

Krónan styrktist enn í dag. Velti því fyrir mér hvort að ég er nægjanlega gamall til að muna eftir hvenær hún var svona sterk síðast. Ég allavega er búinn að gleyma hvenær það var. Kannski er ástæðan að þessu sinni tilboð Novators í Actavis, sem jú setur þrýsting á krónuna þar sem hlutöfum verður greitt í krónum fyrir hlut sinn í félaginu.

Áhugavert að sjá í gær niðurstöður úr svokallaðri "Hamborgaravísitölu" en þar er borinn saman verð á McDonalds hamborgara í nokkrum löndum. Samkvæmt könnunni er verð á hamborgara hér á landi um 123% hærra en verð á samskonar hamborgara. Samkvæmt kaupmáttarjafnvægiskenningunni (Purchasing Power Parity theory) er krónan ofmetin gagnvart dollar sem nemur þessum mun og ætti frekar að vera um 138kr. gagnvart dollar en 62 kr. eins og hún er skráð í dag.

En það er kannski ekki nema von að við búum við slíka ofurkrónu. Þegar Seðlabankinn gefur yfirlýsingar og um leið "tryggingu" fyrir óbreyttum ofurvöxtum fram á næsta ár. Kannski er það líka einkennandi fyrir bankann hversu hann virðist vera lítt tengdur við raunveruleikann að á meðan ríkisstjórnin er að taka stórar og erfiðar ákvarðanir varðandi aflasamdrátt að þá tilkynnir bankinn óbreytta vexti 6 til 8 mánuði fram í tímann. Eðlilegra hefði manni nú fundist að bankinn hefði gefið út þá yfirlýsingu að vextir kæmu aftur til endurskoðunar þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um samdrátt þorskafla og hugsanlegar mótvægisaðgerðir lægju fyrir. Bankinn virðist fljóta í einhverskonar tómarúmi, óháður tíma og aðstæðum. Tekur lítt tilllit til þess sem hinn stóri aðilinn sem getur haft áhrif á peningamálastefnuna er að gera.

Og afleiðingarnar af þessari stefnu bankans eru þær að við eyðum hluta þjóðartekna okkar í að fjármagna ævikvöld þýskra tannlækna og barnaskólakennara á sólarströnd í Tyrklandi. Það er einmitt stór hópur erlendra lífeyrirsþega sem nýtt hefur sér þennan ofurvaxtamun sem er hér á landi og í þeirra heimalandi. Yfirlýsingar Seðlabankans um vaxtatryggingu til næstu 6 til 8 mánuði hlýtur að hafa verið kærkomin frétt fyrir þessa aðila en kannski rot- eða náðarhögg fyrir einhverja aðila hér innanlands sem þurfa að taka á sig þorskaflaskerðinguna.

En það kemur að því að Hrunadansinum ljúki. Þá verður gengisdýfan meiri þegar þessir aðilar flykkjast til að innleysa krónurnar sínar og fá þá mynt sem þeir venjulega nota til að kaupa í matinn í sínu landi.  Þá þarf sterkan Seðlabanka og sterkan fjármagnsmarkað og spurning hvort að gólfið haldi eða fari eins og það gerði í Hrunakirkju forðum.

 


mbl.is Krónan styrktist um 0,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið á eftir að ganga endanlega frá þessu

Það má fastlega búast við því að fjörkippur verði í útgáfu Jöklabréfa á komandi mánuðum. Ákvörðun Seðlabankans um óbreytta stýrivexti fram á næsta ár á eftir að auka spurn erlendra aðila eftir krónunni og festa í sessi þegar útgefin bréf.  Krónan á því líklega eftir að styrkjast frekar eins og Jyske Bank benti nýlega á í greiningu sinni. 

Engar forsendur eru að verða til að halda framleiðslu í þessu landi þar sem vextir eru a.m.k. 10 til 12% hærri en í löndunum í kringum okkur og myntin stórkostlega ofmetin. Frekari styrking krónunnar ofan í aflasamdráttinn á eftir að magna vanda framleiðslufyrirtækjanna og þeirra byggða sem síst mega við auknum áföllum.


mbl.is LÍÚ: Breytt gengisstefna það eina sem getur mildað áfallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband