Lífeyrissjóðirnir ættu að hugleiða kaup á Krónubréfum

Ein helsta ástæðan fyrir því að krónan styrkist ekki eru óuppgerðu Krónubréfin, sem talin eru vera um 500 til 650 milljarðar. Ríkistjórnin valdi frekar að setja hömlur á gjaldeyrismarkaðinn en að nota lán AGS til að "stúta" þessum bréfum þar sem árlegur vaxtakostnaður er jafnhár og nemur rekstri ríkisins til 18 mánaða án fjármagnskostnaðar. Valin var sú leið að geyma AGS lánið á lágum vöxtum, greiða háa vexti af Krónubréfunum og takmarka aðgengi fyrirtækja og almennings að markaði með gjaldeyri. Árangur til styrkingar krónunni af þessari aðgerð er enginn eða hefur a.m.k. enn ekki komið í ljós og er mér til efs að hann eigi nokkurn tíma eftir að skila árangri á meðan við búum við þá "ógn" að eiga eftir að greiða óuppgerð Krónubréf. Ástæður eins og krafa erlendra birgja um fyrirframgreiddan innflutning og lengri greiðslufrestir í útflutningi eiga eflaust líka sinn þátt í að skýra erfitt líf krónunnar.

Mér finnst að lífeyrissjóðirnir ættu að taka frumkvæðið, koma okkur til bjargar og skoða þann möguleika að selja erlend eignasöfn sín, flytja gjaldeyrinn heim og ráðstafa andvirðinu til kaupa á Krónubréfum og þá líklegast með góðum afföllum. Hugsanlega mætti gera þetta þannig að samhliða þessu yrðu höft á gjaldeyrismarkaði afnumin og krónan að endingu leitaði jafnvægis í hærra raungengi. Áhrifin á gengistryggðu og verðtryggðu lánin væru fljót að skila sér með sterkari krónu og verðhjöðnunaráhrifin hefðu fljótlega áhrif á vaxtastigið í landinu. Þetta gæti verið ein leið í því að byggja undir að ekki verði hér fjöldagjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja og halda atvinnulífinu gangandi.  

 


mbl.is Yfir 12.100 án atvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

El Gordo

Ég "gradúlera" fulltrúa okkar að hafa veitt sér þessi "feitu" réttindi umfram aðra á tímum þegar fjöldi fólks er að missa vinnuna og eigur sínar og fyrirséð er að ríkissjóður verði rekinn með halla til næstu ára. Þetta er enn eitt dæmið um þá góðu stjórnsýslu sem hér hefur fest sig í sessi og aukið hefur á hróður okkar á meðal annarra þjóða. Þegar aðilar, í umboði okkar, telja sig vera þess megnuga að ákvarða sín eigin réttindi.

Ég er ekki viss um að þetta sé vilji þjóðarinnar. Hallast frekar að því að þetta séu Maríu Antonette heilkenni af hæstu gráðu. "Geta þau ekki borðað kökur?" Spurði María þegar lýðurinn svalt og heimtaði að einvaldurinn útvegaði brauð. Líkt er komið fyrir okkar fulltrúum og Maríu forðum. Tengingin við það sem er að gerast er engin og hefur kannski heldur aldrei verið. En kannski taka þau út sinn dóm á fallöxi kosninganna, ef minni þeirra sem hér búa verður ekki þess skertara?


mbl.is Eftirlaunafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forréttindi og jöfnuður

Það skýtur skökku við að þingmenn Samfylkingarinnar, sem hvað iðnastir voru að boða jöfnuð og breytingar í síðustu kosningum og fengu meðal annars þann er þetta ritar við fylgilags við sig, skuli bjóða þjóðinni annan eins ófögnuð og með þessu frumvarpi. Fólkið á þingi hefur ekki unnið það sér til ágætis að það réttlæti að greiða því hærri eftirlaun en til almenns starfsmanns ríkisins.

Megum við næst búast við frumvörpum þar sem réttur þessa fólks til aðgengis að sameiginlegri heilbrigðisþjónustu landsmanna verði meiri og betri? Hvar hyggjast þessir málsvarar þjóðarinnar draga línuna?


mbl.is Eftirlaunaréttur ráðherra sá sami og þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klisjan um heilbrigðiskerfið

Ég er þeirrar skoðunar að sama klisjan gildi um heilbrigðiskerfið og var um útrásina okkar. Þ.e. að engin hafi kunnað að reka banka betur en við og að okkar heilbrigðiskerfi sé það besta í heimi. Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé alrangt og þarf reyndar ekki að fara langt út fyrir landssteinana til að benda á dæmi máli mínu til stuðnings. Kostnaðarþátttaka sjúklinga er síst meiri í nálægum löndum, laun eru lægri hjá heilbrigðisstarfsfólki hér en kostnaður við sjúkling hærri. Skýr vísbending um kerfi sem hefur eiginleika til að hætt verði að hampa því sem besta kerfi í heimi.

Ég held að kerfið verði ekki bætt með því að moka meiri fjármunum í það. Við höfum heldur ekki efni á því lengur. Nú á að nota tækifærið og hefla þetta kerfi almennilega til, setja markmið um að bæta gæði kerfisins, auka skilvirkni og kostnaðarvitund starfsmanna og bæta líðan sjúklinga. Það eru óteljandi möguleikar til að gera kerfið betra án þess að kosta til þess auknum fjármunum.

 


mbl.is Heilbrigðisstofnanir í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hnappar á Þingi

Ég skil ekki lengur hvað við þurfum við þingmenn að gera. Þegar stjórnarfrumvörpin renna í gegn og það eina sem þingmenn þurfa að gera er að ýta á hnappinn. Mér finnst einhvernveginn að svona vinna krefjist ekki mikillar menntunar eða hárra launa. Og afhverju þarf að vera að vinna þetta á yfirtíð þegar niðurstaðan er fyrirfram ákveðin og eina sem þarf að gera er að ákveða tíma atkvæðagreiðslunnar? Svona lagað gengi ekki hjá framleiðslufyrirtæki.

Best væri að draga verulega úr umsvifum Alþingis og koma hnöppunum heim til þingmanna. Þeir gætu kynnt sér málin á netinu og greitt svo atkvæði yfir netið. Best væri náttúrulega að fá erlent og ódýrara vinnuafl til að sjá um þennan þátt fyrir okkur. Þannig gætum við t.d. samið við verkamann í Gana sem er með $30 á mánuði til að styðja á hnappinn. Á þennan hátt gætum við líklega sparað um 3 milljarða á ári og verið fullviss um það að lagasetningin væri síst verri.


mbl.is Samstaða um rannsóknarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskynsamlegt

Ég tel að tillögur ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir vera óskynsamlegar og beinlínis hættulegar við núverandi aðstæður. Beita á öllum tiltækum ráðum til að örva eftirspurn, en ekki tækjum sem beinlínis draga úr heildareftirspurninni.

Örugglega hefði verið hægt að spara til viðbótar 7 milljarða (áætluð aukning skatttekna) í ríkisrekstrinum, sem ekki hefðu haft áhrif hér innanlands. Nefni sem dæmi, öryggiseftirlit og ýmis önnur verkefni á vegum Utanríkisráðuneytisins sem ekkert skilja eftir til innlendrar verðmætasköpunar. Dæmin eru eflaust mun fleiri, en vandamálið sem við eigum við að glíma er að það vantar "rekstrarvitund" hjá ráðamönnum þjóðarinnar.

Hækkun tekjuskatts og útsvars kann hugsanlega að leiða til þveröfugra áhrifa á afkomu ríkissjóðs, setur auknar álögur á landsmenn og gæti dýpkað og lengt kreppuna. Þetta er arfavitlaus aðgerð og í engu samræmi við það sem aðrar þjóðir eru að gera til að vinna sig út úr erfiðleikunum.


mbl.is Tekjuskattur og útsvar hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslands "Enronið" og feitar þóknanir

Í öllu þessu fári sem nú gengur yfir virðist gleymast hlutverk og ábyrgð sumra endurskoðunarfélaganna. Þau lögðu "blessun" sína yfir að ráðandi hluthafar gætu misnotað aðstöðu sína á kostnað minni hluthafa. Þau "greiddu leið" fyrir notkun "hringekja" til að "poppa upp" eigið fé félaga til að ná í meira af ódýru fjármagni, líkt og gert var með Sterling sölunum. Og þau voru líklega gerendur þegar aðilar stofnuðu einkahlutafélög til að halda uppi verði á hlutabréfum, líkt og gert var með Stím ehf. Voru það hinar háu þóknanir sem greiddar voru endurskoðunarfélögunum sem leiddu til þessara yfirhylminga?

Fyrir nokkrum árum síðan var eitt stærsta endurskoðunarfyrirtæki Bandaríkjanna, Arthur Anderson, gjaldþrota vegna Enron-málsins. En það mál er líklega keimlíkt því sem við erum að fara í gegnum, "window-dressing" á hæsta stigi.

Hér höfum við annan háttinn á þessum. Viðskiptaráðherra telur að trygging fyrir "boðlegri" niðurstöðu á bankahruninu sé að til sé tölvuafrit af saldóstöðu í bönkunum á degi hrunsins. Það lýsir mikilli vankunnáttu ráðherrans. Afrit tölvugagna er engin trygging fyrir því að sönn mynd verði dregin upp þegar hluti gerendanna skoðar sínar eigin gerðir.


mbl.is Sami maður beggja vegna borðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta ógnunin

Lækkun á fiskverði erlendis, jafnvel hrun, er líklega mesta ógnunin sem við stöndum frammi fyrir um þessar mundir. Þetta getur orðið þungt högg og ekki gott að verða fyrir því í þeirri veiku stöðu sem við erum í. Það verður ekki auðvelt að hreinsa til í rústunum ef gjaldeyristekjurnar dragast verulega saman. Það verður jafnframt vonlaust að halda úti viðlíka opinberri þjónustu og gert hefur verið á undanförnum árum.  

Það verða ekki bankar, opinber fyrirtæki, heildsölur, þjónustufyrirtæki, byggingarfyrirtæki eða sprotafyrirtæki sem draga okkur á endanum út úr kreppunni. Það verður fiskur, slor og ferðaþjónusta. "Gamla hagkerfið" og gömlu "lurkarnir" þar sem framleidd eru "raunveruleg" verðmæti munu verða "gufuvélin" sem dregur vagninn áfram. Því eru fréttir um lækkun fiskverðs og frekari dýpkun alheimskreppunnar ekki bara áhyggjuefni fyrir þessar greinar, heldur landsmenn alla.


mbl.is Fréttaskýring: Hamfarir á hrávörumörkuðum hafa áhrif hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

(Ó)háður sérfræðingur

"Skilanefndum föllnu bankanna var í byrjun nóvember gert að ráða óháða sérfræðinga til að rannsaka hvort vikið hefði verið frá innri reglum þeirra, lögum og reglum um starfsemi fjármálafyrirtækja, lögum um verðbréfaviðskipti, almennum hegningarlögum, svo og öðrum réttarheimildum við hrun bankanna."

Þannig var forskriftin og ramminn sem skilanefndin bar að starfa eftir. "Óháður sérfræðingur" var að hennar mati endurskoðunarfélag sem endurskoðað hafði hjá flestum af stærri eigendum Glitnis. Þetta er óhæfa og ótrúlegt dómgreindarleysi hjá nefndinni að hafa gefið slíkt færi á sér og þar með dregið úr tiltrú almennings á störfum nefndarinnar. Fróðlegt væri að vita hvort nefndin hefði sett sér einhverjar starfsreglur, hvað lá til grundvallar og hvernig ákvörðun um val á "óháðum sérfræðingi"  var tekin. Formaður nefndarinnar ber að axla ábyrgð og segja af sér.


mbl.is Farið yfir störf KPMG fyrir skilanefnd Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra Íslandskot

Fé án hirðis er kannski lýsingin á ástandinu fyrir "fjárskurðinn", þegar lánsfé streymdi inn á hagana hér á landi, þar sem vaxtabeitin var meiri en í öðrum löndum og fjárhirðarnir og forðagæslumennirnir lágu saman í sólríkri laut og létu pytluna ganga á milli sín og hreyktu sér af því hversu snjallir þeir væru að fara með sitt eigið fé og fé annarra. Vel var veitt í lautinni og fjáreigendur á nálægum bæjum treystum þeim best til að leita uppi bitmeiri haga. Bóndinn á næsta bæ, sem var að benda þeim á að þeir héldu safninu of þétt, á of litlum haga og að enn væri ekki farið að hirða túnin þó langt væri liðið á sumar, var bara fífl. Hvað vissi hann um fjárrekstur? Þetta var bara aumingi, sem ekki gat stækkað hjá sér fjárstofninn, þó að hann byggi á höfuðbólinu og ætti mun stærri haga en við. Við í Stóra Íslandskoti þurftum sko ekki að láta segja okkur hvernig ætti að umgangast fé og hvernig reka ætti gott fjárbú. Það var óumdeilanleg náðargáfa sem okkur hafði hlotnast og sem að auki var á allra vörum í sveitinni. Á einstaka Þorrablótum eða á fundum búnaðarfélagsins var þetta fífl stundum með leiðinlegar athugasemdir, en þá var gott að við í Stóra Íslandskoti stóðum þétt saman og svöruðum þessum asna og öfundarmanni fullum hálsi. Hvílíkur asni og fífl þessi maður gat verið.

Það var gaman í lautinni. Endalausar heimsóknir, vel veitt og stundum kom það fyrir að einhverjum fjárhirðanna eða forðagæslumannanna var boðið á næstu bæi eða til hinna búnaðarfélaganna til að halda erindi um hinn nýja búskap, "Fjárstóriðju". Hvílíkir snillingar við vorum!

En svo kom áfallið. Það greindist riða í einni rollunni og forðagæslumennirnir lögðu til að hún yrði skorin til að uppræta smitið. Best var að reyna að halda þessu leyndu og þagga til að ekki færu sögur á kreik í sveitinni. Riða hafði reyndar greinst í næstu sveitum en það var óþarfi að vera með of miklar áhyggjur af því sem var að gerast annarsstaðar. En vondar fréttir berast hraðar en góðar. Fljótlega logaði sveitin af því sem gerst hafði og allar línur að Stóra Íslandskoti urðu rauðglóandi. Bændur á nálægum bæjum vildu endurheimta fé sitt og voru jafnvel tilbúnir að mæta með gömlu heyvagnana og smala sjálfir. Nú voru góð ráð dýr og léleg enn dýrari. Við ákváðum að skera niður allt aðkomu fé en halda í okkar. Smitið hafði líklega komið með einhverri andskotans aðkomu rollunni og vitlegast að koma í veg fyrir að okkar fé sýktist af þessu fári. Viðbrögðin í sveitinni urðu þannig að við í Stóra Íslandskoti hættum líklega við að mæta á næsta Þorrablót og vorum jafnvel að hugleiða það að segja okkur úr búnaðarfélaginu þegar við fréttum að þeir hjá kaupfélaginu hefðu lokað á reikninginn okkar og að kvartað hefði verið til yfirdýralæknis. Ég skil bara ekki hvernig þetta fólk er og hvernig nábúa við eigum.

Yfirdýralæknir birtist svo með fríðu föruneyti og Bjargráðasjóði og að endingu, þó að við hefðum andmælt í eldhúsinu yfir kaffibolla og jólaköku frá því í gær, var ákveðið að skera niður það sem eftir var af fjárstofninum. Nú erum við hirðar án fjár.

Nú hefur þessi leiðinlegi á næsta bæ og einhverjir aðrir á næstu bæjum ásamt Bjargráðasjóði lánað okkur pening til að byggja upp stofninn aftur. Kaupfélagið var með einhverja stæla og helst er ég á því að innanbúðarmenn þaðan hafi verið valdir af þessu öllu saman. Því að um daginn fundum við haus af sýktri á hérna í túnfætinum, sem ekki hafði sneitt aftan vinstra og rifið framan hægra eins og markið okkar er hér í Stóra Íslandskoti. Líklega hefur öfundin rekið þá hingað í skjóli myrkurs og þeir sýkt það sem við höfðum verið að reyna að byggja upp. Yfirdýralæknirinn og Bjargráðasjóður hafa samt sett einhver leiðinleg skilyrði, t.d. um hvenær kaupa megi fé og hvort keypt verður kollótt eða grátt og svo toppuðu þeir það með fáránlegri kröfu þegar farið var fram á að við bærum á áburð a.m.k. sex vikum fyrir slátt, en ekki í sömu vikunni sem alltaf hafði tíðkast hjá okkur í Stóra Íslandskoti. Það fólst nefnilega ákveðin hagræðing í því að halda tækjunum gangandi þessa einu viku sem fór í áburðardreifingu og slátt og hirðingu. Hinar vikurnar var gott að hafa þau sem kennileiti og viðmið og eins nýttust þau bærilega sem skjól fyrir blessaðar skepnurnar. Við sluppum sem betur fer við að endurnýja eða moka út úr fjárhúsunum. Við hefðum heldur ekki látið bjóða okkur slíkt. Við erum stolt hér í Stóra Íslandskoti og þó að við höfum orðið fyrir tímabundnu áfalli er ekki hægt að láta bjóða sér hvað sem er.

Nú erum við farin að huga að uppbyggingunni. Notum gömlu gegningamennina og eitthvað af gömlu fjárhirðunum til að byggja upp nýjan stofn. Aðal forðagæslumaðurinn hefur líka verið liðtækur en stundum úrillur á morgnana. Dettur stundum í hug að hann sé þunnur eftir langar skálræður í lautinni forðum. Þetta verður allt komið í bærilegt lag eftir einhvern tíma og allt verður eins og áður. Verst ef krakkarnir þurfa að fara á mölina og leita að vinnu því eins og við vitum að þá er ekki víst að þau komi aftur og óvíst að Stóra Íslandskot haldist þá innan fjölskyldunnar.

 


mbl.is Bankar sammælast um aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 804

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband