Búið í baukunum?

Líklega er þá valdstjórnin búin að hirða þann gjaldeyri sem landsmenn geymdu í náttborðsskúffunum. Lagasetningin gaf frest í 2 vikur en eftir þann tíma er sá er lumar á gjaldeyri orðinn að stórglæpamanni. Verður næst bannað að eiga frosið lambalæri?

Það er ekki hægt að kalla þetta markað með gjaldeyri. Þetta er eins og að vera í veröld skapaðri af Dario Fo!


mbl.is Krónan byrjuð að veikjast á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar heimskan tekur völdin

Af lagatextanum má ráða að innlendum aðilum verði óheimilt að eiga erlend verðbréf. Eiga lífeyrissjóðirnir þá að selja sitt erlenda verðbréfasafn og fjárfesta hér á landi í ónýtum hlutabréfamarkaði, skuldabréfum fyrirtækja sem þurfa að fjármagna rekstur sinn á ofurvöxtum og í ríkisskuldabréfum þar sem við stjórn er fólk sem breytir lögunum eftir þörfum? Er ekki nóg að koma þjóðinni á hausinn þarf líka að taka af henni lífeyrissparnaðinn?


mbl.is Hömlum aflétt og nýjar settar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérfræðinga leitað á elliheimilum?

Þurfum við að leita á elliheimilin eftir sérfræðingum í haftastjórnun? Nei, greinilega ekki. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafa greinilega á að skipa fólki sem er umhugað um að innleiða sambærileg höft og voru hér við lýði á sjötta áratugnum. Þegar fólk þurfti að fá pólitískt "samþykki" til að kaupa bíl, þegar skömmtunarseðlar voru gefnir út á sykur og hveiti og þegar slegnir voru rúgbrauðspeningar! Það sem verður leyfilegt að flytja inn, fer eftir "smekk" þeirra sem ráða. Seðlabankinn setur framtíðarkúrsinn í tísku og smekk landsmanna.

Þessi aðgerð lengir í kreppunni og dýpkar hana. Hún heldur gjaldeyri utan kerfisins og krónan fær pólitískt verðgildi sem hamlar því að atvinnulífið fái að þróast eðlilega. Fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á pólitískri velvild eða ranglega skráðri krónu verða þau sem lifa. Það verður til "Commission kerfi", líkt og var áður en markaður með gjaldeyri var frjáls, þar sem inn- og útflutningsaðilar geta haldið eftir hluta af greiðslum eða tekjum í erlendri mynt á erlendum bankareikningum sem ekki verða gefnir upp. Pólitíkin kemur til með að drottna og deila og spillingin eykst.

Aðgerðin kemur einnig til með að takmarka möguleika okkar í "rústabjörguninni". Hún veldur því að erlendar lánastofnanir hafa takmarkaðan áhuga á því að koma að fjármögnun verkefna hér á landi og jafnframt geri ég ráð fyrir að erfiðara verði að endurfjármagna þegar tekin lán. Hvernig ætlar Landsvirkjun t.d. að endurfjármagna hátt í 200 milljarða á næsta ári þegar lánveitendurnir geta búist við því að sett verði höft á fjármagnsflutninga? Það hefur enginn vitiborinn aðili áhuga á því að setja hér inn erlendan pening eftir setningu þessara laga!

Við urðum okkur til skammar og háðungar með setningu neyðarlaganna. Þessi lög toppa vitleysuna og opinbera hversu veika stjórnmála- og embættismenn við höfum til að vinna fyrir okkur. Aðgerðir sem boðaðar hafa verið til að vernda heimilin eru grín og með þessum lögum er lagður grunnur að uppbyggingu á "sjúku" atvinnulífi. Kreppan magnast og lengist í skjóli þessara laga!


mbl.is Lög um gjaldeyrismál samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útgöngubann næst?

Ég er alveg hættur að skilja hvaða fólk við höfum kosið til að stjórna þessu landi og hvaða fólk ráðleggur þeim sem setja eiga lögin. Hef reyndar verið þeirrar skoðunar lengi að mest af þessu fólki skori ekki hátt í greindinni og sé líklega vel fyrir neðan meðlalagið. Hvílík lög sem verið er að setja á Alþingi þessa stundina! Hvet alla sem nenna að lesa frumvarpið að kynna sér hverskonar hömlur á að setja á fólk og fyrirtæki í þessu landi og hversu refsiglaður refsiramminn er. Það er verið að skerða réttindi þeirra sem búa hér á landi og það er verið að skerða réttindi þeirra sem eiga erlendar fjárkröfur á okkur. Þessi lög eiga eftir að gera mikinn skaða og skerða möguleika okkar til að leita eftir fjármögnun erlendis. Hvernig ætlum við að reisa við brunarústirnar ef aðgengi okkar og þeirra sem enn geta hugsað að erlendu lánsfé skerðast?

Verður okkur bannað að vera úti á milli 22:00 og 7:00 í næstu lagasuðu? Eða á að taka af okkur kosningaréttinn?


mbl.is Geta stöðvað gjaldeyrisflutninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn eiga ekki að vera með bein inngrip á markaði

Markaður með gjaldeyri og "rétt" skráning myntar er ein af frumforsendum þess að hér þróist samkeppnishæft umhverfi til reksturs og að vinnuaflið leiti þangað þar sem launin eru best og fyrirtækin best rekin. Það hlýtur að vera frumkrafa þeirra sem ætla að þrauka hér á þessu náskeri að möguleikarnir til að geta bitið og brennt séu ekki lakari hér en í löndunum í kringum okkur. Öll bein inngrip í gjaldeyrismarkaðinn, hvort sem um lengri eða skemmri tíma er að ræða, eru mjög varasöm og geta valdið okkur ómældu tjóni. Nærtækasta dæmið er peningamálastjórnunin sem var viðhöfð hér með fölsun á genginu með öllum þeim skelfilegu afleiðingum sem það hefur valdið.

Við eigum frekar að láta krónuna fara í "frjálst fall" þegar markaðir opna og svæla út krónubréfin á "lágu" gengi. Þetta frumvarp miðar að því, sýnist mér, að halda krónubréfunum innan "kerfisins" og þegar jafnvægi verður komið á gjaldeyrismarkaðinn að þá verður væntanlega slakað á kröfunni um gjaldeyriskaupum vegna fjármagnsflutninga. Betra og hugsanlega "ódýrari" leið fyrir okkur væri að aftengja vísitöluna tímabundið og láta verðbólguskotið "fríhjóla" á meðan krónan leitar að jafnvægisgildi. En það má ekki tala um slíkt. Það jaðrar við guðlast í eyrum þeirra sem stýra nú för og forkólfum úr verkalýðshreyfingunni.

Bein inngrip á gjaldeyrismarkaðinn verður okkur dýr aðgerð. Borgum líklega einhverjum tugum milljarða meira í lokin til að koma okkur undan ógreiddum krónubréfum frekar en að láta erlenda fjármagnseigendur flýja með bréfin sín í byrjun og þá hugsanlega með hluta af gjaldeyrisvarasjóðnum. Við fall krónunnar myndi innstreymið á gjaldeyri útflutningsfyrirtækja aukast sem að hluta myndi vega upp útstreymi krónubréfanna.  

Þessi lög kunna líka að skaða okkur sem skuldara að ef hægt er að setja lög á Alþingi á nokkrum klukkustundum sem takmarkar réttindi aðila sem eiga kröfur sem breyta þarf í erlenda mynt. Hvernig lítum við út í augum umheimsins ef hægt er að framkvæma slíka lagasetningu? Núna þessi lög og áður eignaupptaka og mismunun innstæðueigenda með neyðarlögum, appartheid lög sem mismuna innstæðueigendum sömu innlánstofnunar eftir búsetu. Hvernig verður samningsstaða OR, LV, ríkis, fyrirtækja og banka gagnvart erlendum bönkum í framtíðinni þegar Alþingismenn hyggjast ráðast að réttindum erlenda kröfuhafa með þessum hætti á nokkrum klukkustundum? Við erum kominn í þessa erfiðu stöðu vegna heimatilbúins klúðurs og verðum sem hér búum að sætta okkur við það, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að taka á okkur afleiðingar þess en ekki að blanda inn í þetta ótengdum aðilum, erlendum eigendum krónubréfanna.

 


mbl.is Frumvarp um gjaldeyrisviðskipti lagt fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drekasvæðið

Það verður áhugavert að fylgjast með þróun og framvindu á Drekasvæðinu. Fróðlegt verður að fylgjast með því á Alþingi hvort að "lagasmiðirnir" hafi ekki dúr og moll laganna þannig að þau rími við áðurgerð lög á Frívaktinni, þ.e. þeirra sem mest eru spiluð og njóta mestra vinsælda hjá ákveðnum foréttindahópum.  Þó ég hafi ekki augum litið frumvarpið, kæmi mér ekki á óvart að hér séu á ferðinni "sér íslensk lög", sem örugglega taka lítið sem ekkert mið af því sem aðrar þjóðir í olíuleit og vinnslu hafa samið. Lagavalið á "sér-íslensku" Frívaktinni verður því eftir sem áður hugsanlega sniðið að þörfum þeirra sem hafa sterkust tengsl við pólitíkina og gæðunum úthlutað í samræmi við það. Stefgjaldið af Drekasvæðinu kann því að verða jafnrýrt og af öðrum lögum sem fjalla t.d. um fisk og orku.
mbl.is Unnið að útboði á rannsóknarleyfum á Drekasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíðna Gísladóttir

Á margan hátt minnir Ingibjörg Sólrún og hennar stíll á gamla takta Davíðs Oddssonar, að undanskildum húmornum. Bæði hafa þau haldið í kringum sig "já-fólki", hálfgerðum náhirðum eða klíkum, sem oftast eru betur upplýst um málefni líðandi stundar en þingmaður af sama meiði. Stjórnunarstílinn ekki ósvipaður, þeir sem ekki "bekena" hið boðaða orð, eru foringjanum ekki þóknanlegir og sumum hefur jafnvel verið komið út af sakrarmentinu. Liðsmenn náhirðarinnar vita að þeir eiga vísar umbanir í vændum, séu þeir foringjanum tryggir. Sú síðasta var greidd með nýrri sendiherrastöðu á meðan má þjóðin búa sig undir enn verra harðræði.

Við þurfum að losa okkur við Davíðnu, Davíð og Geir, hirðina og prótintátana sem fylgja þeim. Þau eiga stærstan þátt í því hvernig komið er fyrir okkur. Fylkjum liði á Austurvöll á laugardaginn og komum þessu fólki frá!

 


mbl.is Nauðsynlegt að vera samstiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsla?

Það er spurning, fari ágreiningur um Icesave ekki fyrir dómstóla eða gerðardóm, hvort stjórnvöld hafi umboð til að semja. Þau eiga þátt í hvernig komið er fyrir okkur og í raun umhugsunarvert hvort aðili sem þannig fer með það vald hafi í raun heimild til að semja fyrir umbjóðendur sína. Mér finnst að ef ekki fæst niðurstaða í gegnum dómstólaleiðina eða með gerðardómi, eigi þjóðin að fá að staðfesta eða synja samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er hægt að koma slíkri atkvæðagreiðslu á með viku fyrirvara.
mbl.is Enginn góður kostur í stöðunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppir að í fjármögnun

Hæstvirtum iðnaðarráðherra og upplýsingafulltrúa LV virðist greina á í þessari frétt. Ég hef frekar trú á að upplýsingafulltrúinn hafi rétt fyrir sér og að ráðherrann sé að matreiða þingheim á röngum upplýsingum eins og þeir hafa svo gjarnan gert á undanförnum vikum.

Í rauninni á þessi frétt ekki að koma neinum á óvart. Hvorki ríkið eða Landsvirkjun eru lánshæf og því tómt mál að tala um að þessir aðilar afli lánsfjár til einhverra framkvæmda við óbreyttar aðstæður. Erlendir lánamarkaðir eru lokaðir. Landið er metið í flokki áhættumestu lántakenda, bæði með t.t. greiðsluhæfis og einnig pólitískrar áhættu á að eignarrétturinn verði ekki virtur. Allt atriði sem fæla frá erlent fjármagn.

Það þarf ekki marga tíma í bókfærslu til að komast að því með því að fara yfir síðasta uppgjör LV og reikna upp skuldir m.v. gengi dagsins að LV er tæknilega gjaldþrota. Krafan um arðsemi verkefna hefur í gegnum árin verið fórnað af stjórnmálamönnum og nú sitjum við uppi með virkjanir sem hafa vart við að framleiða fyrir afborgunum og vöxtum af erlendum lánum. Við erum lokuð inn í samningum til næstu áratuga sem ekki gefa af sér nægjanlegar tekjur til að unnt verði að framkvæma venjubundið viðhald, hvað þá að byggja upp eigið fé til frekari framkvæmda. Það væri því glapræði að lífeyrissjóðirnir kæmu að Búðarhálsvirkjun nema að endursamið yrði um raforkuverðið við Alcan.


mbl.is Búðarhálsvirkjun frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjörið óreiðufólk

Það er lítil ráðdeildarsemi hjá kjörnum fulltrúum okkar (óháð flokkum) þessa dagana þó að allt sé hér á ferðinni til andsk.. Alls telst mér til að 14 þingmenn og 7 ráðherrar hafi verið við skyldustörf erlendis í vikunni, þar sem hver aðili fær daglega greiddar 41-62 þús. kr. í dagpeninga.

Skyldi nú ekki vera ástæða til að skoða svona og spyrja sig þeirra einföldu spurninga hvort ekki megi líka spara hjá "þessu fólki" þegar fyrirtæki eru að segja uppi fólki eða lækka laun? Hvort þetta fólk eigi ekki að fara fram fyrir skjöldu og lækka launin sín og vera í fararbroddi í niðurskurði og sparnaði? Það yrði þá kannski trúverðugra. En það verður líklega seint og venjulega fá ráð frá þessu fólki, nema kannski eitt og eitt ráð hvernig gera megi slátur. En kannski verða lánveitingar nágranna okkar og vina í austri og vestri, Færeyinga og Grænlendinga, til þess að þessu fólki skorti ekkert og geti haldið áfram þessari óráðssíu. Þau hafa jú forgang á gjaldeyri umfram t.d. innflutning á lyfjum, matvælum og varahlutum, sem er jú svipuð forgangsröðun og viðhöfð er í N-Kóreu.


mbl.is Hrina hópuppsagna hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband