Færsluflokkur: Bloggar

Af hangikjötinu skulu þér þekkja þá

Einn af þeim þátt sem skilja að mismunandi menningarheima og oft er notað til að bera lönd saman er á hvern hátt lögum viðkomandi lands er beitt af hálfu dómstólanna. Okkur finnst að öll jöfnu furðulegt og grimmilegt þegar hendur eru höggvnar af fólki fyrir hnupl í Sádí Arabíu eða þegar fólk er þar kaghýtt á almannafæri fyrir að að neyta áfengis eða glugga í erlent blað þar sem í er auglýsing um dömubindi. Allt þetta vekur hjá manni kenndir um að illa sé farið með fólk og lögin sem refsingarnar byggja á óréttlátar og ómanneskjulegar og okkur sem hér búum óskiljanlegar.

Það sem vekur furðu mína er dómur Héraðsdóms Suðurlands yfir manni sem stal hangikjötslæri. Eins og ég nefndi með samanburðinn að þá eiga lögin sem við sjálf setjum að endurspegla viðhorf okkar til náungans og lifsins almennt. Við setjum okkur upp regluverk á hvern hátt skuli refsað fyrir atvik sem ekki samrímast þeim gildum sem ríkja hverju sinni.

Þó að ég sé ekki löglærður, að þá hef ég réttlætiskennd og tel mig ekki eiga í erfiðleikum með að greina á milli hvað er rangt og hvað er rétt. Ég veit að maðurinn gerði rangt með því að taka það sem honum bar ekki. Það veit ég, en ég veit líka hitt að það er rangt að dæma mann, þrátt fyrir að hann hafi rofið skilorð með verknaði sínum, til svo þungrar refsingar. Það eru ósanngjörn lög og leyfi ég mér að efast um að það samrímist þeim gildum sem almennt ríkja í þjóðfélagi okkar í dag.

Stundum hefur verið sagt að dómstólar dæmi bara aumingja og dómarar séu vilhallir valdinu. Vildi ég að ósatt væri, en á langri ævi hef ég séð svo mörg dæmi um slíkt að ég er farinn að efast um að réttlætið sé haft að leiðarljósi í dómsölunum. Það er miður ef slíkt reynist vera rétt og setur þjóðfélag okkar niður á annað og verra stig.

Dæmi um fáránlega dóma að mínu mati er verðsamráð olíufélaganna. Þar var sannað að forráðamenn félagnna viðhöfðu athæfi sem skaðið fólkið í landinu. Lögin voru ekki nægilega afgerandi og því sluppu þessir menn við dóma sem allstaðar annarsstaðar, a.m.k. í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, hefðu verið dæmdir til sektar og margra ára fangelsisvistar.

En íslenskir dómstólar hafa alltaf tekið hart á sauða- og snærisþjófum. Nægir þar að vísa í söguna um ógæfufólk sem dæmt var til vistar á Brimarhólmi fyrir smávægilega yfirsjón.

Kannski á réttlætið eftir að ríða inn í dómsalina og kannski á hið há Aalþingi okkar eftir að fjalla um slík mál og gera breytingar á lögum sem löngu eru tímabær. Ég held að sagan eigi eftir að dæma okkur af dómum eins og þessu "hangikjötsmáli" og bera það saman við dóma þar sem sýkna var dæmd, þar sem menn verðskulduðu refsingu, eins og í samráði olíufélaganna.


mbl.is Þrettán mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela hangikjötslæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverður geiri

Fréttin um að Geysir Green Energy hafi selt hlutafé til erlendra fagfjárfesta hljóta að marka þáttaskil í útrás íslensks orkufyrirtækis. Mjög áhugavert að heyra/sjá að erlendir aðilar eru reiðubúnir að taka þátt í útrásinni með því að leggja félaginu til aukið áhættufjármagn. Gerir ekkert annað en að styðja við þá skoðun að við séum að gera góða hluti, á réttum tíma og á réttum stöðum.

Það sem vekur hins vegar furðu mína er sú umræða sem farið hefur í gang um að erlent fjármagn sé eitthvað verra og hættulegra en innlent fjármagn. Ef eitthvað er að þá ættum við að fagna því að einhver hafi áhuga á því sem verið er að gera hér á landi og bjóða allt fjármagn sem tilbúið er að taka þátt í áhættunni velkomið.

Yfirlýsingar úr pólitíkinni hafa verið vægast sagt furðulegar varðandi aðkomu þessara nýju erlendu aðila að Geysi Green Energy. Í einu orðinu er talað um að einkavæða orkugeirann og að útrásin í þessum geira eigi eftir að jafnast á við bankaútrásina en í hinu orðinu tala pólitíkusar um að útlendingar séu að koma bakdyrameginn að "náttúruauðlindinni". Afhverju voru þá ekki settar upp girðingar í lögunum sem heimiluðu sölu orkufyrirtækja til einkaaðila um að erlend eignaraðild væri ekki heimild hjá fyrirtækjum sem hefðu áhuga á að fjárfesta í orkufyrirtækjum? Allt óábyrgt tal stjórnmálamanna getur skaða þessa útrás.

Við eigum ekki að óttast fjármagnið, hvort sem það er innlent eða erlent. Það leitar yfirleitt þangað sem það kemur að bestum notum og skynsamlegast er að vinna. Orkufyrirtækin þyrfti að einkavæða, þau eru flest hver orðin innanfeit af verndinni sem þau hafa notið.


mbl.is Goldman Sachs og Ólafur Jóhann að eignast 8,5% í Geysir Green
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árangur mikillar vinnu

Það er vissulega ánægjulegt að sjá hversu margt jákvætt hefur komið frá ÍE að undanförnu. Félagið átti á brattann að sækja í fyrstu. Ótrúleg rætni, óvild og öfund sem einkennt hefur viðhorfið til þeirra. Vonandi eru þeir tímar að baki.

Félagið er eitt af örfáum félögum sem eru hér á landi þar sem einhver alvöru nýsköpun er stunduð og reynt að koma henni í markaðshæfan búning. Hin félögin eru Össur og Marel og kannski má einnig flokka Enex í þennan hóp líka þar sem reynt er að útvíkka yfirburðarþekkingu okkar á jarðvarma og rekstur jarðvarmaveitna.

Þrátt fyrir mikla hagsæld hér undanfarin ár hefur nýsköpun ekki verið mikil. Við höfum t.d. ekkert tekið þátt í olíuævintýri nágranna okkar, Norðmanna. Ekkert smíðað af tækjum og búnaði fyrir þann iðnað þó að við höfum hugvit og allar aðstæður til að keppa við sambærileg félög í Noregi. Það er líka umhugsunarvert afhverju það fjármagn sem hingað streymir og verður hér til nýtist ekki meira til alvöru atvinnusköpunar.

mbl.is ÍE finnur stökkbreytingar sem valda öllum tilfellum glákuafbrigðis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Róið á krónumið

Enn ýta menn úr vör suður í Evrópu og sækja hingað norður eftir á fengsæl mið krónunnar, fjármagnaðir í "Carry-Trade útgerð" þar sem búast má við að fengurinn verði a.m.k. 10 til 12% árlegur vaxtamunur. Ekki léleg býtti það. Á þessum miðum er enginn kvóti  eða takmarkaður aðgangur að "auðlindinni".

Seðlabankinn sér um sleppingar og aflinn er óþrjótandi. Menn standa í kösinni og þurfa að hafa sig alla við til að klára að blóðga áður en trollið er híft upp aftur.  Á þessum miðum skín sólin glatt, karlinn í brúnni brosir yfir atganginum í strákunum sem gefa ekkert eftir í aðgerðinni. Góð tilfinning þegar dallurinn fer að þyngjast á bárunni. Tími til kominn að taka stímið í land eftir góðan túr á Íslandsmið.

Veiðum á krónumiðunum er viðhaldið  af "bilaðri" peningamálastjórn Seðlabankans. Gjaldmiðillinn er kominn í þann "fasa" að hann er orðinn "speculatívur" og honum er haldið í hæstu hæðum af erlendum aðilum sem sjá sér hag í því að "totta" vaxtamuninn úr krónunni. Krónan á sér ekki lengur grunn sem byggir á heildarframboði eða eftirspurn í hagkerfinu. Seðlabankinn er orðinn "konsúll" fyrir erlendar fjármagnsútgerðir og veifar flagginu og setur kúrsinn til hagsbóta fyrir aðila utan íslenska hagkerfisins.

En allir hlutir eru forgengilegir, líka þessi. Teikn eru á lofti að sá órói sem hefur verið á fjármálamörkuðum erlendis sé ekki yfirstaðinn. Verði sú aðlögun skörp eða langvinn má fastlega búast við því að þessir erlendu útgerðarmenn losi um það fjármagn sem bundið er í krónunni. Gerist það hratt mun krónan taka dýfu með tilheyrandi verðbólguskoti ofan í vexti sem eru í himinhæðum. Það getur orðið stór bylgjan sem flæðir yfir hagkerfið á leið sinni að jafna þann mun sem búinn hefur verið til í "röngu" raungengi. Þá er spurning hvað tekur við, hugsanlega óðaverðbólga og/eða aukið atvinnuleysi með tilheyrandi erfiðleikum á fjármála- og fasteignamarkaði. Útflutningsatvinnuvegirnir eiga ekkert "batter" til að taka við stórri dýfu, þeir hafa verið þrautpíndir á háu gengi og ekki verður sóknin í fiskimiðin aukin í bráð. 

 


mbl.is Rabobank gefur út nýjan flokk krónubréfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn styrkist krónan

Krónan styrktist enn í dag. Velti því fyrir mér hvort að ég er nægjanlega gamall til að muna eftir hvenær hún var svona sterk síðast. Ég allavega er búinn að gleyma hvenær það var. Kannski er ástæðan að þessu sinni tilboð Novators í Actavis, sem jú setur þrýsting á krónuna þar sem hlutöfum verður greitt í krónum fyrir hlut sinn í félaginu.

Áhugavert að sjá í gær niðurstöður úr svokallaðri "Hamborgaravísitölu" en þar er borinn saman verð á McDonalds hamborgara í nokkrum löndum. Samkvæmt könnunni er verð á hamborgara hér á landi um 123% hærra en verð á samskonar hamborgara. Samkvæmt kaupmáttarjafnvægiskenningunni (Purchasing Power Parity theory) er krónan ofmetin gagnvart dollar sem nemur þessum mun og ætti frekar að vera um 138kr. gagnvart dollar en 62 kr. eins og hún er skráð í dag.

En það er kannski ekki nema von að við búum við slíka ofurkrónu. Þegar Seðlabankinn gefur yfirlýsingar og um leið "tryggingu" fyrir óbreyttum ofurvöxtum fram á næsta ár. Kannski er það líka einkennandi fyrir bankann hversu hann virðist vera lítt tengdur við raunveruleikann að á meðan ríkisstjórnin er að taka stórar og erfiðar ákvarðanir varðandi aflasamdrátt að þá tilkynnir bankinn óbreytta vexti 6 til 8 mánuði fram í tímann. Eðlilegra hefði manni nú fundist að bankinn hefði gefið út þá yfirlýsingu að vextir kæmu aftur til endurskoðunar þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar um samdrátt þorskafla og hugsanlegar mótvægisaðgerðir lægju fyrir. Bankinn virðist fljóta í einhverskonar tómarúmi, óháður tíma og aðstæðum. Tekur lítt tilllit til þess sem hinn stóri aðilinn sem getur haft áhrif á peningamálastefnuna er að gera.

Og afleiðingarnar af þessari stefnu bankans eru þær að við eyðum hluta þjóðartekna okkar í að fjármagna ævikvöld þýskra tannlækna og barnaskólakennara á sólarströnd í Tyrklandi. Það er einmitt stór hópur erlendra lífeyrirsþega sem nýtt hefur sér þennan ofurvaxtamun sem er hér á landi og í þeirra heimalandi. Yfirlýsingar Seðlabankans um vaxtatryggingu til næstu 6 til 8 mánuði hlýtur að hafa verið kærkomin frétt fyrir þessa aðila en kannski rot- eða náðarhögg fyrir einhverja aðila hér innanlands sem þurfa að taka á sig þorskaflaskerðinguna.

En það kemur að því að Hrunadansinum ljúki. Þá verður gengisdýfan meiri þegar þessir aðilar flykkjast til að innleysa krónurnar sínar og fá þá mynt sem þeir venjulega nota til að kaupa í matinn í sínu landi.  Þá þarf sterkan Seðlabanka og sterkan fjármagnsmarkað og spurning hvort að gólfið haldi eða fari eins og það gerði í Hrunakirkju forðum.

 


mbl.is Krónan styrktist um 0,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengið á eftir að ganga endanlega frá þessu

Það má fastlega búast við því að fjörkippur verði í útgáfu Jöklabréfa á komandi mánuðum. Ákvörðun Seðlabankans um óbreytta stýrivexti fram á næsta ár á eftir að auka spurn erlendra aðila eftir krónunni og festa í sessi þegar útgefin bréf.  Krónan á því líklega eftir að styrkjast frekar eins og Jyske Bank benti nýlega á í greiningu sinni. 

Engar forsendur eru að verða til að halda framleiðslu í þessu landi þar sem vextir eru a.m.k. 10 til 12% hærri en í löndunum í kringum okkur og myntin stórkostlega ofmetin. Frekari styrking krónunnar ofan í aflasamdráttinn á eftir að magna vanda framleiðslufyrirtækjanna og þeirra byggða sem síst mega við auknum áföllum.


mbl.is LÍÚ: Breytt gengisstefna það eina sem getur mildað áfallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir frá ÍE

Margir mjög jákvæðir hlutir hafa verið að koma fram hjá ÍE að undanförnu. Ánægjulegt að sjá að þeir eru að ná árangri víða. Vonandi kemst umræðna hér á landi einhverntíma út úr þeirri neikvæðni sem almennt hefur einkennt viðhorf fólks til ÍE. Fyrirtækið er eitt það framsæknasta sem starfandi er hér á landi, eina skráða íslenska fyrirtækið sem skráð er í kauphöll í BNA og líklega það íslenska fyrirtæki sem mest er verslað með af bréfum í.

mbl.is Erfðaþættir auka áhættu á hjartsláttaróreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Opinberaðir businessmenn"

Ég held að að það verði ekki góð þróun ef Hafnarfjörður og Reykjanesnær nýta forkaupsrétt sinn í HS. Það gæti verið HS hagkvæmt að fá inn aðila með aðra sýn og aðrar áherslur. Aðilar sem eru vanir að standa í samkeppni hugsa á annan hátt en "opinberir" businessmenn. Nýir aðilar geta eflaust lagað mikið til í rekstri sem hefur í of langan tíma þrifist í skjóli opinberrar verndar og er orðinn innanfeitur af verndinni.

Víða um heim er verið að einkavæða orkugeirann til að ná fram aukinni hagkvæmni.  Möguleikar HS til frekari vaxtar,  t.d. með því að hasla sér völl erlendis með sérþekkingu sinni á virkjun og dreifingu jarðvarma skerðast verulega, að mínu mati, með auknum kaupum Hafnarfjarðar og Reykjanesbæjar.  

Jafnframt má velta því fyrir sér hvort sveitarstjórnarmenn hafa heimildir til að ganga þvert á ákvarðanir ríkisvaldsins um einkavæðingu í orkugeiranum. Eigum við íbúarnir kannski ekki rétt á því að fá að kjósa um svona stórar ákvarðanir, líkt og gert var um stækkun álversins í Hafnarfirði?


mbl.is Segir útilokað að Hafnarfjörður geti eignast 60% í HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttalega vitlaust

Mér finnst þetta nú vera óttalega vitlaust og sóun á fé illra stæðra sveitarfélaga að senda sveitarstjórnarmenn í þessa för.  Nær að eyða smá tíma og skoða hvar olíuhreinsunarstöðvar eru staðsettar og afhverju þær eru staðsettar á þessum stöðum. Líka hægt að velta því fyrir sér afhverju ekki hefur verið byggð ný stöð í USA í mörg ár og af hverju ekki eru fyrirætlanir olíufyrirtækja um að byggja fleiri.  Örugglega hægt að fá miklar upplýsingar með litlum tilkostnaði til að átta sig á því hvort ástæða sé til að eyða meiru af fé skattborgaranna í frekari skoðun.

 


mbl.is Fulltrúar vestfirskra sveitarfélaga kynna sér olíuhreinsistöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímamóta ræða

Hátíðarræðan er gríðarlega góð hjá Sturlu og andinn í henni góður. Ekki oft sem maður sér (heyrir) stjórnmálamenn ganga svona hreint til verks. Formaðurnn hefði mátt hafa svipaðan anda í sinni ræðu.
mbl.is Sturla: Kvótakerfið hefur mistekist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband