"Friends or foes?"

Ég var í dag með annað augað á sjónvarpinu að fylgjast með fundi, þar sem Bernake var tekinn á beinið á Capitol Hill. Þeir hafa þann háttinn á þarna í vestrinu að þingnefnd spyr formann bankaráðs seðlabankans (Bernake) spjörunum úr um virkni, áhrif og horfur þeirrar stefnu er bankinn fylgir í peningamálum. Eðlilega hafa flestir áhyggjur af ástandinu og horfunum og voru margar spurningarnar þess eðlis að menn voru að lýsa áhyggjum af að samspil aðgerða seðlabankans og aðgerða ríksivaldsins virkuðu kannski seint og illa og hefðu takmörkuð áhrif. Áhyggjur þingmannanna lutu semsagt að því að því að velta fyrir sér árangri aðgerða sem lagt hafði verið af stað með, en ekki að hvað hefði gerst ef ekkert hefði verið gert. Eins og ætíð skilaði Bernake sínu vel, enda vel sjóaður og menntaður í fræðunum, með doktorspróf í hagfræði frá MIT og var prófessor við Princeton á annan áratug. Þetta var áhugaverður fundur og margt gagnlegt sem þar kom fram.

Við höfum annan hátt á þessu hjá okkur. Leggjum áherslu á að stjórn peningamála sé í höndum aðila sem helst hafa enga menntun á því sviði. Stefnan og ákvarðanir í peningamálum helst ekki ræddar. Tilkynningar að hætti gamla sovéts frá Kalkofnsvegi. Aðgerðir ríkisvaldsins og Seðlabankans helst ekki samstilltar. Og niðurstaðan, að áliti þessara "hagfræðinga-ígilda", er eins og við höfum öll orðið svo áþreifanlega vör við síðustu daga: Þetta er allt öðrum að kenna. Þetta er einhverjum aðilum út í heimi að kenna.

Auðvitað er þetta bara rugl. Það er ekki einhverjum erlendum aðilum að kenna hvernig komið er fyrir okkur og okkar lélegu stjórnun á peningamálum. Það er okkur sjálfum að kenna og eðlilegast væri að viðurkenna að peningamálastefnan og aðgerðir í ríkisfjármálum hafi skolað okkur þangað sem við erum, á einhverja óyndisströnd þar sem sólin er löngu hætt að skína. Þessir erlendu aðilar eru eðlilega bara að reyna að græða á vitleysunni sem hefur þrifist hér og blasað hefur við þeim sem eitthvað hafa nennt að setja sig inn í þessi mál. Hér sitjum við í okkar "eineltishugsunargangi" og höldum að allir séu að ráðast að okkur eða leggja stein í götu okkar. Við þurfum að koma okkur út úr þessu volæði og sjálfsvorkun, breyta peningamálastefnunni, skipta um stjórnendur og stjórn í Seðlabankanum og koma fram með alvöru aðgerðir í ríkisfjármálum. Hættum að hlausta á gömul "trikk" eins og notuð eru í N-Kóreu (og nú á Kalkofnsvegi og í Stjórnarráðinu) til að dreifa athyglinni frá þeim sem helst eiga hana skilið og kenna útlendingum um alla okkar óáran. Vandamálið er hér. Það þarf að leysa það hérna.


Þetta er bílasölunum að kenna!

Ég aðstoðaði son minn s.l. sumar að kaupa sinn fyrsta bíl. Eftir að hafa reynt að koma vitinu fyrir drenginn í nokkrar vikur og reynt að sannfæra hann um hann gæti fengið minn bíl þegar hann langaði á rúntinn, var ég skyndilega sestur fyrir framan bílasalann sem klæddur var Armanifötum og með Rolexúr. Viðskiptin hófust um eina bílinn sem drengurinn hafði augastað á. Sá í Armanifötunum var búinn að átta sig á því áður en ég settist í stólinn og öll gamla reynslan í samningatækni, sem ég hélt að ég væri svo slingur í, fokin út í veður og vind. Þegar hann var búinn að "sannfæra" okkur feðgana um hið góða verð, spurði hann hvernig ætti að borga fyrir gripinn. "Ekkert mál, að fá fjármögnun. Pabbi þinn skrifar bara undir og þú ferð heim á "kagganum" á eftir". "Nú, hvaða fjármögnunm er það?"  spurði ég. "Best að taka þetta í erlendu, lægstu vextirnir. Ég fór eitthvað að andmæla þessu en Armanimaðurinn greip þá til "Hálffimm frétta" Kaupþings frá því deginum áður og nýlegrar markaðsgreiningar frá Glitni. Dengurinn horfði á mig og ég sá í svip hans að hann spurði: "Ætlarðu að vera svona vitlaus að vera að reyna að andmæla þessu pabbi?". ´"Allt í lagi, allt í lagi, hvar eru pappíranir?" spurði ég. Drengurinn réði sér ekki fyrir kæti og kom í humátt á eftir mér, á nýja "kagganum", að næstu bensínstöð til að komast heim, sagðist hafa gleymt debetkortinu heima. Síðan eru liðnir átta mánuðir og lánið hækkað um 40% og enn skuldar hann mér bensínið.

Ég hef verið að lesa, núna um páskana, blogg og greinar og hlaustað og séð fréttir um efnahagsumræðuna, hvernig viðbrögð stjórnmálamanna eru og hvernig "þetta fólk" horfir á "vandann". Einn upprennandi ungliðinn vill meina að "klassísk hagfræði" hafi ekki virkað og þess vegna séum við þar sem við erum. Ótrúlegt ef satt er og merkilegt að þess skuli ekki vera getið á helstu ljósvakamiðlum heimsins núna um páskana umj þessa merkilegu uppgötvun. Flott að fletta svona ofan af klassískri hagfræði með íslenska módelinu, væntanlegur Nóbelsverðlaunahafi sem við eigum hérna á meðal vor. Ótrúlegt hvað stjórnmál geta verið fræðandi, enda sagt að þingseta jafngildi doktorsprófi í hagfræði. Ég fer bara helst að hallast að því að þetta sé rétt. Ekki furða að okkur gangi vel með stjórnun þessa málaflokks. Vel búum við að því að hafa í formannsþóftunni í peningamálastjórnuninni, hagyrðing og doktorsígildi og bíð ég bara eftir því að hinir "hagyrtu" kviðlingar formannsins fari að fjúka frá Kalkofnsvegi. Mikill fróðleikur verður það, kannski "tímatafðir" kviðlingar nú eða kannski að formaðurinn fari að kveða í diffurjöfnum. Þetta verður líklega bókmenntalegt afrek 21. aldarinnar. Gömlu lurkarnir, GH og ISG vilja ekkert gera. "Þetta eru bara einhverjar sviptingar erlendis", segja þau.

Þetta er alltaf einhverjum öðrum að kenna, hjá "þessu fólki", var niðurstaða mín, eftir að hafa beðið of lengi eftir páskaegginu. Fólkið sem kosið er, "þetta fólk", til að stjórna þessu landi hefur bara ekkert með þessa óáran að gera. "Við þurfum að einbeita okkur að ná kjöri hjá Öryggisráðinu! eða Sameiginlegur Norrænn gjaldmiðill. Hvað er mikilvægara? Afhverju erum við að angra "þetta fólk", þessa 63 doktorsnema okkar í hagfræði? Og hvað er því mikilvægara en að kapteinninn gefi skipun um að dekka borðin fyrir kvöldverðinn, þó að siglt sé innan skerja og vindur blási af hafi og mótorinn sé farinn að slá feilpúst? "Þetta fólk" á enga sök á þessu. Það er ekki hægt að sakast við fólk sem aldrei skilur neitt. Það var mér kennt sem ungum dreng af foreldrum mínum. Þetta er Armanimanninum að kenna! Við eigum öll að sameinast um að einbeita ónægju okkar að Armanimanninum! Gefum doktorsnemunum frið, það gæti borgað sig!

 


Aðgerða er strax þörf

Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í dag vextina um 0,75% og eru vextirnir nú komnir í 2,25%. Markaðurinn hafði gert ráð fyrir vaxtalækkun sem næmi 1% til 1,25%. Rök Seðlabankans fyrir þessari lækkun en ekki þeirri er markaðurinn hafði vænst, var að bankinn óttaðist að hann hefði ekki svigrúm til að eiga við verðbólguna ef hann keyrði vextina neðar. Í þeirri vaxtalækkunarhrinu sem bankinn hefur framkvæmt á undanförnum mánuðum, til að blása glæðum í kólnandi hagkerfi, hefur $ lækkað mikið í verði gagnvart öðrum myntum og hefur ekki verið lægri gegnvart Evru síðan skráning hennar var tekin upp. Lækkandi $ þýðir hærra verð á innfluttum vöum til BNA og aukinn verðbólguþrýsting. Samhliða lækkun $ hefur olían náð himinhæðum og stafar hækkun hennar einkum að lægri $ en megnið af viðskiptum með olíu fer fram í $. Af allri olíu sem dælt er upp á jörðinni fer 24% til brennslu í BNA. Rekstur bifreiða er um 6% af ráðstöfunartekjum almennings í BNA en um 4,17% hér á landi. Það er því ljóst að 37% hækkun á olíufatinu á undanförnum fjórum mánuðum þrýstir verulega á verðlag í BNA. Seðlabanki BNA gerir sér grein fyrir þessari undirliggjandi hættu, en gerir sér jafnframt grein fyrir að það er meira virði að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Þá hefur ríkisstjórn BNA beitt margvíslegum mótvægisaðgerðum sem smyrja eiga hagkerfið og koma því úr stöðnun, m.a. aðstoð við þá sem lent hafa í vandræðum með húsnæðislánin sín, aukinn möguleiki fyrirtækja til að fresta skattgreiðslum ofl.

Hér á landi er þessu öðruvísi háttað. Hér eru vextir í himinhæðum og fáir hafa áhyggjur af hjólum efnahagslífsins. Það sem við eigum sameiginlegt með Bandaríkjamönnum er að gjaldmiðill beggja landanna er að lækka. Annað eigum við ekki sameiginlegt. Tökin á efnahagsmálunum í BNA miða að því að leysa vandann. Hér eru engin tök. Hér á að bíða og sjá til hvernig þessu reiðir öllu af. Sjá til hvort að þetta fari ekki hjá. Í rauninni er það hneykslanlegt og óásættanlegt að ráðamönnum þessa lands skuli ekki vera umhugað um að búa til þannig skilyrði að fyrirtæki geti fjármagnað sinn rekstur á svipuðum kjörum og sambærileg fyrirtæki geta í löndunum sem við viljum bera okkur saman við og að almenningur skuli á sinni ævi þurfa að greiða allt að þrefallt hærra verð en t.d. á Norðurlöndunum  fyrir að eignast loks kofann sem það ákvað að búa sér og sinni fjölskyldu. Þetta er í raun óásættanlegt og kannski merkilegt þegar maður hugsar til þess hvað við getum látið bjóða okkur. Hve mikið eimir eftir af þrælslundinni, óttanum og kotungsbragnum hjá okkur, sem líklega innræktaðist í okkur í gegnum tíðar beygingar og höfuðsfatþóf áa okkar er yfirvaldið reið hjá.  Aðgerðarleysi ráðamanna á eftir að koma fram í því að verðbólguskot ríður hér yfir í vor og ekki ólíklegt að húsnæðislánin hækki á árinu um a.m.k. 15-20%. Góðærinu verður skilað til baka í formi hærri lána á almenning. Vextir Seðlabankans taka ekki að lækka fyrr en verðbólguskotið er yfirstaðið, sem líklega verður ekki fyrr en á síðari hluta ársins. Aðgerðir ráðamanna munu að öllum líkindum felast í því að föðurleg ímynd upphefur raust sína og segir að það sé okkur öllum nauðsynlegt að fara varlega og taka á okkur tímabundnar byrðar. Að sama skapi verður sagt að kerfið sé sterkt, þjóðin ung, vel menntuð og bjartsýn og dugnaður fólksins muni sigra alla erfiðleika. En þetta er gert í þeim eina tilgangi að sætta fólk við orðinn hlut. Eignatilfærslan sem vinkona okkar, verðbólgan, verður látin gera, er þetta venjulega sem hún kann best, þ.e. að flytja byrðar til þeirra sem skulda og bæta hag þeirra sem eiga lánin. Stórkostleg eignatilfærsla mun eiga sér stað og fjármagnið dregið úr almenningnum, í þá dilka sem fjármagnið eiga. Fé kotunganna glataðist allt á fjalli. Þetta var ekki þeirra réttardagur!

Það er lífsnauðsynlegt að grípa til aðgerða. Hefja vaxtalækkunarferlið og smyrja hagkerfið með raunverulegum mótvægisaðgerðum sem virka hratt og vel. Ekki að koma með tillögur um að mála skúra í eigu ríkisins. Beina mótvægisaðgerðum að liðum sem m.a. hafa áhrif á þessu vitlausu verðtryggingu sem við höfum kosið að þjóna. Hemja verðbólguna á þann hátt, sérstaklega ef við höfum þá trú að um tímabundið ástand sé að ræða. Reisa og styðja við sjávarútvegsbyggðirnar sem hafa farið verst út úr niðurskurðinum með því að setja t.d. 50.000 tonna byggðakvóta á línu og færi og leyfa sveitarstjórnunum að ákveða afgjaldið fyrir kvótann og hvaða skilyrði fylgja úthlutuninni. Blása lífi í bryggjurnar og vinnsluna í landi og auka tekjur sveitarfélaganna. Þetta magn er ekkert í þeim stóra lífmassa sem við getum á engan hátt gert okkur grein fyrir hversu stór er. Það er örugglega auðveldara að spá fyrir og niður á síðasta hundraðið, hversu margir koma í Smáralindina á ári, heldur en hvað mikið má veiða úr hinum sameiginlega stofni þjóðarinnar. Þessi aðgerð kostar ekkert og tölfræðilega er ég viss um að 100 eða 150 þús. tonn til eða frá í ráðgjöf um aflamagn hafi engin áhrif á stærð hryggningarstofnsins, svo mikil er óvissan. Það er ekki hægt að spá fyrir um það hversu margir koma í Smáralindina á ári, það er heldur ekki hægt að spá fyrir með einhverjum þúsunda tonna frávikum hversu mikið má veiða. Það er "heimskulegt" að ætla að ráðgjöf með svona mikilli óvissu geti leitt til niðurstöðu með svona þröngum vikmörkum. Það á að grípa til aðgerða strax en ekki að bíða eftir því að það verði um seinan.


Hver er munurinn að fara fram úr fjárheimildum og skila ekki vsk. og staðgreiðslu?

Á undanförnum árum hefur fjöldi manna hlotið dóma fyrir að skila ekki virðisaukaskatti og staðgreiðslu í rekstri hlutafélaga. Dómar hafa runnið á færibandi í gegnum dómskerfið og brotin talin fullframin þegar komið er fram yfir gjalddaga. Sannanlega eru þetta fjármunir sem aðilum sem eru með mannahald og stunda virðisaukaskattskylda starfsemi ber að standa skil af. En í raun er þetta þvinguð innheimta, sem ríkið hefur sett á atvinnulífið til að annast skattheimtu fyrir sig. Í mörgum tilfellum, sem mér eru kunnug, hafa vandræðin orðið til vegna þess að sú þjónusta sem fyrirtækið byggir starfsemi sína á, hefur ekki fengist greidd eða að viðvarandi taprekstur hefur verið. Í stað þess að stöðva starfsemina, freistast menn til að halda áfram. Af þeim málum sem ég hef kynnt mér, hafa fæstir þeirra sem dóm hafa hlotið, nýtt þetta skilafé í eigin þágu. Það hefur farið til greiðslu launa starfsmanna og þeirra liða sem mest eru aðkallandi til að halda fyrirtækinu á "floti". Í þessum málum virðast ekki vera til neinar málsbætur og flestir dómarnir þannig að sektin er tvöföld sú fjárhæð sem "skotið var undan".

Við annan tón kveður þegar opinberir embættismenn brjóta lög og fara fram úr fjárheimildum. Viðvarandi fjáraustur almanna fjármuna virðist ekki teljast refsiverður. Ræflarnir sem ekki stóðu sig í innheimtu virðisaukaskatts og staðgreiðslu eru dregnir fyrir dómara, sviptir eigum sínum og æru. Embættismennirnir spila frítt og bera enga ábyrgð. Svo frítt virðist þetta spil þeirra vera eða húsbóndavaldið (ráðherravaldið) deigt, að aðgangur að fjárhirslum ríkissjóðs virðist í sumum tilfellum vera án takmarkana. Auk stofnana sem taka fjárlögin og fjármuni almennings í sínar hendur og fara reglulega fram úr fjárheimildum, bendi ég á frægt dæmi, greiðslur til Byrgisins til margra ára, en þar var ekki til samningur til grundvallar greiðslu! Samt var greitt! Að sjálfsögðu bar enginn ábyrgð.

Það hlýtur að vera réttlætismál að allir standi jafnir gagnvart lögunum. Ef hægt er að dæma mann fyrir að "sólunda" fjármagni sem ríkinu bar, að þá á eins að dæma mann sem "sólundar" fjármagni sem ríkið á.


Hugleiðingar á fyrsta degi eftir hlaupaársdag.

Með lögum um fiskveiðar frá 1983 var komið á lénsskipulagi þar sem lénsherrar ráða ákveðnum hluta auðlindar sem áður var frjáls aðgangur að. Í krafti þessara réttinda getur lénsherrann ráði vexti og viðgangi heilu byggðarlaganna eins og sýnt hefur sig. Lélegast verstöð Íslands, Reykjavík, hefur mestu heimildirnar. Fiskveiðistjórnunarkerfið er "peningakerfi" en ekki verndarkerfi. Árangur þessa kerfis er að við það sem það skilar að landi er þriðjungur af því sem sóknin á Íslandsmið skilaði að meðaltali á 40 ára tímabili fyrir 1983 og skuldsetningin er 14 sinnum meiri í greininni að raungildi en hún var við upptöku kerfisins. Frábær árangur hvað varðar vernd og hagkvæmni. Það sem gerst hefur er að sóunin hefur aukist. Enginn sem rær kemur að landi með þriggja nátta blóðdauðgaðan fisk eins og algent var áður í brælutíð. Hversvegna ætti hann að gera það ef hann hefur bara heimild til að landa ákveðnu magni? Sá sem hegðaði sér þannig í slíku kerfi yrði ekki langlífur. Niðurstaðan er því sú að við veiðum mun meira en við nýtum, verðum af miklum tekjum og sóunin sem felst í brottkastinu er gríðarleg. Það þarf að breyta kerfinu og hef ég ákveðnar hugmyndir um á hvern hátt það mætti gera.

Ég var alltaf hlynntur samstarfi við Evrópuríkin, þ.m.t. EES samninginn og Schengen samstarfið. Hef reyndar endurskoðað afstöðu mína og finnst þetta Schengen samstarf vera rugl ef við erum ekki fullgildir aðilar að ESB. Samstarfið er kostnaðar- og áhættusamara fyrir okkur þar sem við erum útvörður svæðisins í samanburði við lönd sem eru inni í "miðjunni". Við eigum ekki að vera "varnarmúr" fyrir ESB ef við erum ekki fullgildir meðlimir.

Ég held að við höfum tvo kosti í dag. Annarsvegar að huga að fullri aðild að ESB eða hugsa okkur sem þjóð sem er óháð eða næstum óháð öllum bandalögum líkt og Sviss. Það eru bæði kostir og ókostir við þessar leiðir. Að vera óháð setur þá kröfu á okkur að við sjálf, þ.e. löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldið sé þannig að við getum útdeilt nægjanlega miklu réttlæti til íbúanna og búið til aðstæður þar sem íbúunum finnst þeir ekki vera verr settir en íbúar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við höfum mörg dæmi um hið gagnstæða. Lögunum er misbeitt, framkvæmdavaldið tekur ákvarðanir sem ekki myndu líðast í öðrum löndum, t.d. ákvörðun um skipan dómara, salan á ferjunni Baldri og lengi mætti telja. REI-málið er dæmi um vanþroskaða stjórnsýslu og eftirmálarnir kannski enn frekar. Allt þetta vekur spurningar hvort að aðild að ESB myndi ekki styrkja, bæta og gera stjórnsýsluna betri. Ég held að myntin sé okkar helsta vandamál við núverandi aðstæður. Við erum með sveiflukennt hagkerfi og myntin getur á margan hátt verkað sem sveifluauki á hagkerfið. Peningamálastjórnunin og ríkisfjármálin hafa að mínu mati verið í molum. Erlendar fjárfestingar, að undanskildum stóriðjuframkvæmdum eru litlar sem engar og er myntin talin vera helsti þröskuldurinn fyrir að lítið erlent áhættufjármagn kemur inn í kerfið. Það er slæmt og dregur til lengri tíma úr möguleikum okkar til frekari þróunar. Kosturinn við að vera óháður bandalögum er að við getum hugsanlega samið við bandalög og orðið brú á milli bandalaga, ESB, NAFTA, Rússa og Kínverja. Afhverju t.d. ekki að leyfa Rússum að taka olíu hér fyrir N-Atlantshafsflotann og koma sér upp aðstöðu, hleypa Kínverjum hér inn til að leita að olíu á Drekasvæðinu, framselja fiskveiðiheimildirnar til ESB (þjóðin fengi þá eðlilegt afgjald fyrir auðlindina) og selja okkur bara þeim sem borga mest? Hvað er að því? Kannski höldum við bara meira sjálfstæði ef grunnhugsunin er sú að við viljum bara hagnast sem mest á samstarfi við ólíka aðila en ekki festa okkur í trússi við ákveðinn hóp eða hagsmuni.

Við vitum líklega hvað við fengjum ef við gerðumst aðilar að ESB. Stjórnsýslan myndi batna og ef við gerðumst aðilar að myntbandalaginu myndum við losna við óhagræðið af krónunni. Það yrði okkur mikill fengur en á móti yrði erfiðara fyrir okkur að stjórna og bregðast við skammtíma hagsveiflum innan kerfisins. Við værum bundin ákvörðunum um vaxtastig Seðlabanka Evrópu. Sveiflum á vinnumarkaði yrði hugsanlega erfiðara að stýra og við værum meira háð ákvörðunum frá Brussel við efnahagsstjórnun.

Ég myndi velja sjálfstæðið og ekki sækja um aðild að ESB. Treysta á það að okkur beri gæfa til að beina stjórnmálunum í þann farveg að búin verði til stjórnsýsla sem er réttlát og sækir kannski fyrirmyndina að einhverju leyti til smiðanna í Brussel. Margt sem kemur þaðan er gott og full ástæða fyrir okkur að aðlaga okkar kerfi að smíðinni þar. Við eigum einnig að haga ríkisfjármálunum þannig að ekki sé við það unað að farið sé fram úr heimildum og styrkja og efla Seðlabankann með nýjum stjórnendum og gera hann pólitískt óháðann. Breyta á fiskveiðistjórnunarkerfinu og setja allar heimildir á uppboðsmarkað og nýta fjármunina til að styrkja við sveitarfélög á landsbyggðinni. Jafnframt að nýting annarra náttúruauðlinda sé þannig að borgað sé afgjald af nýtingunni sem safnast í sjóð eins og Norðmenn eiga. Við eigum að segja okkur úr Schengen og NATÓ. Vera opinn fyrir samstarfi við allar þjóðir, leggja áherslu á samstarf við bandalög og festast ekki í trússi við ákveðin öfl. Halda sjálfstæði okkar og sýna það í verki gagnvart öðrum. Reyna að græða á því að vera óháð. Ég held að myntin verði ekki vandamál við slíkar aðstæður.


"Krónísk" minnimáttarkennd

 

deCode er líklega merkilegast fyrirtæki sem hefur starfstöð hér á landi. Það hefur laðað til landsins fólk sem býr yfir yfirburðarþekkingu á sínu sviði og líklega það íslenska fyrirtæki sem best er þekkt erlendis. Möguleikarnir eru einnig miklir en rannsóknirnar og þróunin er kostnaðar- og áhættusöm. Það er eðli slíkra fyrirtækja.

Það er sorglegt þegar þarf að segja upp góðu starfsfólki sem býr yfir mikilli þekkingu. Stundum er það nauðsynlegt til að aðlaga reksturinn að breyttu og erfiðara umhverfi. Stundum þarf að hörfa og gefa eftir orustuna til að eiga möguleika að sækja fram og vinna stríðið.

deCode hefur starfað hér á landi í umhverfi sem að mörgu leyti hefur verið fyrirtækinu fjandsamlegt. Stundum hef ég velt því fyrir mér afhverju þeir eru ekki fyrir löngu farnir úr landi, t.d. til Indlands eða Kína þar sem aðstæður eru slíkum fyrirtækjum hagfelldari og mörg fyrirtækin vinna í umhverfi þar sem þau njóta virðingar fyrir framlög sín til að bæta lífsgæði jarðarbúa.

Líklega er deCode of stórt fyrir okkur. Þjóðarsálin uppfull af "krónískri" minnimáttarkennd til að hópur snillinga á heimsmælikvarða geti starfað hér á landi við að búa til markaðshæfar lausnir sem byggja á langtíma rannsóknum. Öfundin og naggið hefur oftast yfirgnæft það sem gott hefur komið frá fyrirtækinu. Það er synd að við skulum ekki hafa visku eða manndóm til að geta reist höfuðið hátt og búið til farveg fyrir fleiri fyrirtæki eins og deCode. Nei, áhuginn hjá stjórnmálamönnunum snýst um að falbjóða orkuna, helst undir framleiðslukostnaðarverði, leggjast eins og útglennt portkona fyrir orkugleypum og tryggja lénsskipulag við nýtingu náttúruauðlinda.  


mbl.is Fjöldauppsagnir hjá deCode
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðdeildarsemi við Kalkofnsveg

"Ingimundur Friðriksson, seðlabankastjóri, sagði í erindi í Rótarýklúbbi Austurbæjar í dag, að það vekti undru hve kæruleysislegt viðhorf margir virðist hafa til verðbólgu. Ótímabær vaxtalækkun myndi leiða til verðbólgu og kjaraskerðingar og fráleit sé sú kenning að til þess að hemja verðbólgu þurfi að lækka vexti."

Þá vaknar sú spurning hvort Seðlabankinn, með sinni ráðdeildarsemi, geri ekki svipað og stjórn og forstjóri Glitnis gerðu, lækki laun stjórnar og stjórnenda og gefi þar með hugsanlega tóninn í komandi kjarasamningum við ríkisstarfsmenn. Finnst a.m.k. að launahækkunin sem bankastjórar Seðlabankans tóku sér á síðasta ári og réttlætt var með þenslu og mikilli spurn eftir góðu starfsfólki hljóti við þau skilyrði sem nú eru, að ganga til baka. Stjórnarformaðurinn hlýtur að boða lækkun launa og leggja sitt af mörkum til að hemja verðbólguna og koma vaxtalækkunarferlinu af stað. Tal um ráðdeildarsemi og hófstillta kjarasamninga hjá öðrum, úr þessari átt og án þess að leggja sitt af mörkum, er því harla ótrúverðug.


mbl.is Ótímabær vaxtalækkun leiðir til kjaraskerðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin stjórnmál

Hvernig er hægt að styðja foringja sem á eftir að taka ákvörðun ef stuðningurinn er skilyrtur? Hvernig er hægt að segja að maður styðji einhvern mann en bíði samt eftir hans afstöðu og að hann taki sínar ákvarðanir? Þetta gengur ekki upp í mínum huga. Annaðhvort styður maður foringjann og hans ákvarðanir eða maður styður eða er á móti ákvörðuninni sem foringinn tekur. Þetta var m.a. umræðuefni í Kastljósi kvöldsins og sá er sat á "beininu" var kjörinn fulltrúi, Gísli Baldur, sem vildi ekki gefa upp hvort að hann styddi ákvörðun Vilhjálms ef Vihjálmur tæki þá ákvörðun að hann myndi falast eftir embætti borgarstjóra í samræmi við málefnasamninginn. Annaðhvort er Gísli Baldur ósáttur eða sáttur við það að Vilhjálmur verði borgarstjóri óháð ákvörðun Vilhjálms. Gísli Baldur styður samt Vilhjálm en er ekki tilbúinn að lýsa yfir stuðningi sínum við að Vilhjálmur verði borgarstjóri.

Það eru skrýtin stjórnmál þar sem menn geta ekki tekið afstöðu. Þetta mál er þannig að til að því ljúki, þarf að taka afstöðu með eða á móti Vilhjálmi. En eins og með mörg erfið mál að þá fara þeir sem eiga að leysa þau lengra út í forarvilpuna með málin óleyst. Í svona málum á að taka afstöðu, með eða á móti. Menn sem stefna að því að verða foringjar verða að geta tekið afstöðu.


REI-skýrslan er farsi

Verklagið sem notast var við til að leiða "sannleikann" fram í REI-málinu er furðuleg og vekur hjá manni spurningar hvort ekki er eitthvað meiriháttar bogið við íslenska stjórnsýslu. Ég trúði því þegar málið var sett af stað að "velta ætti við öllum steinum". Að nú væri loksins komin "stjórnsýslunefnd" sem færi ofan í sumana á því sem aflaga fór í þessu máli. Trúði því að stjórnsýslunefndin væri stýrihópur sem ákvarðaði umgjörð málsins, stýrði verkefninu og fengi til liðs við sig sjálfstæða og óháða aðila til að framkvæma úttekt og skoðun á málinu ofan í kjölinn. Reyndin varð önnur. Ofan í saumana fóru aðilar sem allir eru á einhvern hátt tengdir málinu. Á milli nefndarmanna fór síðan textinn sem birta átti í lokaskýrslunni. Nefndarmenn gátu sett mark sitt á textann og úr varð  "samningstexti" aðila, sem allir voru tengdir málinu. Trúverðugleiki úttektarinnar beið hnekki með þessu "moði" um sameiginlegt orðalag sem skýrsluhöfundar urðu ásáttir um. Það er miður að þetta skyldi hafa orðið niðurstaðan. Efinn fær bólfestu og maður fer að hugsa hvort þessi niðurstaða sé pólitísk, stjórnmál snúast jú víst um málamiðlanir, sagði einhver. Finnst stjórnsýslunefndin ákvað að fara þessa leið, að þá hefðu þeir a.m.k. átt að bera það mikla virðingu fyrir kjósendum að láta ágreining eða skoðanamun nefndarmanna koma fram í sérbókunum, frekar en að bræða álitin í sameiginlegan texta, sem víða hefur enga merkingu. Þetta er ekki stjórnsýsla sem er boðleg á 21. öld. Markmiðið með úttektinni, hélt ég vera, að upplýsa og gera sýnilega þá atburði sem voru undanfarar REI-málsins. Niðurstaðan er  bara óskýr sameiginlegur texti stjórnmálamanna, sem á engan hátt upplýsir eigendur OR um hina raunverulegu atburði.


Getur ísneysla fjölgað nauðgunum?

Á fimmta áratugnum, þegar menn fóru að nota tölfræðina í auknu mæli til að reyna að skýra út ástæður ýmissa verknaða, fundu menn út að mikil fylgni var á milli aukinnar ísneyslu og aukningar nauðgana. Rannsóknir fóru í gang og margir töldu að hugsanlega kynni að vera efni í ísnum sem "kveikti" á þessu óeðli og breytti mönnum í þessar skaðræðisskepnur. Hugmyndir voru uppi um að banna neyslu á ís. Við nánari skoðun komust menn að því, að þriðji þátturinn hefur áhrif, sem er hitastig. Ísneysla eykst við hækkað hitastig og það gera nauðganir líka.

Mér var hugsað til alls þessa fólks, sem lá kannski andvaka á þessum tíma og var að velta fyrir sér hugsanlegum ástæðum þessa á fimmta áratugnum, þegar ég las grein sjávarútvegsráðherra um hans skýringar á fækkun fólks í sjávarútvegi. Enn situr hann við sama heygarðshornið, hugsaði ég, og reynir að finna rök fyrir að sjávarútvegurinn sé vel rekinn.

Tæknibreytingar sem orðið hafa í sjávarútvegi og vinnslu eru langt frá því að skýra að öllu leyti þá fólksfækkun sem orðið hefur í greininni. "Strúktúrbreyting" m.v. svipað aflamagn skýrir frekar þá fækkun sem orðið hefur. Þegar 24 til 28 kallar á frystitogara keyra í gegnum línuna hjá sér á sólarhring 20 til 25 tonnum og 20 til 30% af verðmætinu rennur út um rennuna, hausar, beinagarðar, slóg og ormuð flök og blóðflök. Hagræðingin sem sjávarútvegsráðherrann telur felast í að telja mannshausa í atvinnugreininni og telja það vera dæmi um hagræðingu þegar verðmætum er kastað á glæ og vinnslan knúin áfram með innfluttum orkugjöfum, finnst mér vera fráleit. Svipað og að halda því fram að hagræðing næðist í vinnslunni með því að pakka öllu í 7 punda smjörpappírspakkningar á Rússland eða hengja allan fisk upp í skreið. Þá gætum við nú aldeilis fækkað fólki og gert okkur glaðan dag og montað okkur yfir því að það þyrfti færra fólk til að vinna sama magn.

Ég er hættur að átta mig á því hvar sjávarútvegsráðherrann er staddur í þessari umræðu um atvinnugreinina. Helst finnst mér hann minna á gamlan kommissar sem sá um stjórnun á samyrkjubúi í sáluga Sovét. Setja baunirnar í 30 punda dósir í stað þess að reyna að framleiða þar sem afraksturinn er mestur, til að geta tilkynnt Kremlverjunum að framleiðslumagninu hafi verið náð með færra starfsfólki.  

Rök sjávarútvegsráðherrans eru eins og í dæminum með ísinn, í versta falli ljótur blekkingarleikur, í besta falli lýsir hann fullkominni vankunnáttu á viðfangsefninu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hagbarður

Höfundur

Hagbarður
Hagbarður

Óli Rúnar Ástþórsson

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 21
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband