1.3.2008 | 12:19
Hugleiðingar á fyrsta degi eftir hlaupaársdag.
Með lögum um fiskveiðar frá 1983 var komið á lénsskipulagi þar sem lénsherrar ráða ákveðnum hluta auðlindar sem áður var frjáls aðgangur að. Í krafti þessara réttinda getur lénsherrann ráði vexti og viðgangi heilu byggðarlaganna eins og sýnt hefur sig. Lélegast verstöð Íslands, Reykjavík, hefur mestu heimildirnar. Fiskveiðistjórnunarkerfið er "peningakerfi" en ekki verndarkerfi. Árangur þessa kerfis er að við það sem það skilar að landi er þriðjungur af því sem sóknin á Íslandsmið skilaði að meðaltali á 40 ára tímabili fyrir 1983 og skuldsetningin er 14 sinnum meiri í greininni að raungildi en hún var við upptöku kerfisins. Frábær árangur hvað varðar vernd og hagkvæmni. Það sem gerst hefur er að sóunin hefur aukist. Enginn sem rær kemur að landi með þriggja nátta blóðdauðgaðan fisk eins og algent var áður í brælutíð. Hversvegna ætti hann að gera það ef hann hefur bara heimild til að landa ákveðnu magni? Sá sem hegðaði sér þannig í slíku kerfi yrði ekki langlífur. Niðurstaðan er því sú að við veiðum mun meira en við nýtum, verðum af miklum tekjum og sóunin sem felst í brottkastinu er gríðarleg. Það þarf að breyta kerfinu og hef ég ákveðnar hugmyndir um á hvern hátt það mætti gera.
Ég var alltaf hlynntur samstarfi við Evrópuríkin, þ.m.t. EES samninginn og Schengen samstarfið. Hef reyndar endurskoðað afstöðu mína og finnst þetta Schengen samstarf vera rugl ef við erum ekki fullgildir aðilar að ESB. Samstarfið er kostnaðar- og áhættusamara fyrir okkur þar sem við erum útvörður svæðisins í samanburði við lönd sem eru inni í "miðjunni". Við eigum ekki að vera "varnarmúr" fyrir ESB ef við erum ekki fullgildir meðlimir.
Ég held að við höfum tvo kosti í dag. Annarsvegar að huga að fullri aðild að ESB eða hugsa okkur sem þjóð sem er óháð eða næstum óháð öllum bandalögum líkt og Sviss. Það eru bæði kostir og ókostir við þessar leiðir. Að vera óháð setur þá kröfu á okkur að við sjálf, þ.e. löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldið sé þannig að við getum útdeilt nægjanlega miklu réttlæti til íbúanna og búið til aðstæður þar sem íbúunum finnst þeir ekki vera verr settir en íbúar í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Við höfum mörg dæmi um hið gagnstæða. Lögunum er misbeitt, framkvæmdavaldið tekur ákvarðanir sem ekki myndu líðast í öðrum löndum, t.d. ákvörðun um skipan dómara, salan á ferjunni Baldri og lengi mætti telja. REI-málið er dæmi um vanþroskaða stjórnsýslu og eftirmálarnir kannski enn frekar. Allt þetta vekur spurningar hvort að aðild að ESB myndi ekki styrkja, bæta og gera stjórnsýsluna betri. Ég held að myntin sé okkar helsta vandamál við núverandi aðstæður. Við erum með sveiflukennt hagkerfi og myntin getur á margan hátt verkað sem sveifluauki á hagkerfið. Peningamálastjórnunin og ríkisfjármálin hafa að mínu mati verið í molum. Erlendar fjárfestingar, að undanskildum stóriðjuframkvæmdum eru litlar sem engar og er myntin talin vera helsti þröskuldurinn fyrir að lítið erlent áhættufjármagn kemur inn í kerfið. Það er slæmt og dregur til lengri tíma úr möguleikum okkar til frekari þróunar. Kosturinn við að vera óháður bandalögum er að við getum hugsanlega samið við bandalög og orðið brú á milli bandalaga, ESB, NAFTA, Rússa og Kínverja. Afhverju t.d. ekki að leyfa Rússum að taka olíu hér fyrir N-Atlantshafsflotann og koma sér upp aðstöðu, hleypa Kínverjum hér inn til að leita að olíu á Drekasvæðinu, framselja fiskveiðiheimildirnar til ESB (þjóðin fengi þá eðlilegt afgjald fyrir auðlindina) og selja okkur bara þeim sem borga mest? Hvað er að því? Kannski höldum við bara meira sjálfstæði ef grunnhugsunin er sú að við viljum bara hagnast sem mest á samstarfi við ólíka aðila en ekki festa okkur í trússi við ákveðinn hóp eða hagsmuni.
Við vitum líklega hvað við fengjum ef við gerðumst aðilar að ESB. Stjórnsýslan myndi batna og ef við gerðumst aðilar að myntbandalaginu myndum við losna við óhagræðið af krónunni. Það yrði okkur mikill fengur en á móti yrði erfiðara fyrir okkur að stjórna og bregðast við skammtíma hagsveiflum innan kerfisins. Við værum bundin ákvörðunum um vaxtastig Seðlabanka Evrópu. Sveiflum á vinnumarkaði yrði hugsanlega erfiðara að stýra og við værum meira háð ákvörðunum frá Brussel við efnahagsstjórnun.
Ég myndi velja sjálfstæðið og ekki sækja um aðild að ESB. Treysta á það að okkur beri gæfa til að beina stjórnmálunum í þann farveg að búin verði til stjórnsýsla sem er réttlát og sækir kannski fyrirmyndina að einhverju leyti til smiðanna í Brussel. Margt sem kemur þaðan er gott og full ástæða fyrir okkur að aðlaga okkar kerfi að smíðinni þar. Við eigum einnig að haga ríkisfjármálunum þannig að ekki sé við það unað að farið sé fram úr heimildum og styrkja og efla Seðlabankann með nýjum stjórnendum og gera hann pólitískt óháðann. Breyta á fiskveiðistjórnunarkerfinu og setja allar heimildir á uppboðsmarkað og nýta fjármunina til að styrkja við sveitarfélög á landsbyggðinni. Jafnframt að nýting annarra náttúruauðlinda sé þannig að borgað sé afgjald af nýtingunni sem safnast í sjóð eins og Norðmenn eiga. Við eigum að segja okkur úr Schengen og NATÓ. Vera opinn fyrir samstarfi við allar þjóðir, leggja áherslu á samstarf við bandalög og festast ekki í trússi við ákveðin öfl. Halda sjálfstæði okkar og sýna það í verki gagnvart öðrum. Reyna að græða á því að vera óháð. Ég held að myntin verði ekki vandamál við slíkar aðstæður.
Um bloggið
Hagbarður
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mig langar nú mest að vita: Hver er Hagbarður og er hann örugglega "hagfræðingur" ?
Auðun Gíslason, 1.3.2008 kl. 16:36
Jú, jú. Hann er hagfræðingur af gamla skólanum og hefur víðtæka reynslu eins og nafnið gefur til kynna. "Enginn verður óbarinn biskup" og það sama má segja um Hagbarð. Enginn verður alvöru hagfræðingur nema "hagbarður". Þú ræður svo hvernig þú leikur þér með svarið.
Hagbarður, 1.3.2008 kl. 18:51
Heill og sæll, Hagbarður og aðrir skrifarar !
Þakka þér; skilvísa færzlu, og vel grundaða.
Með beztu kveðjum, sem fyrr / Óskar Helgi Helgason
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 17:02
Líst vel á hugmyndina um að vera hlutlaus brú milli hagsmunaraðila.
Þorsteinn Valur Baldvinsson, 3.3.2008 kl. 23:17
Hr. Hagbarður, ég er í vandræðum með að skilja hvernig hið opinbera skilgreinir og hannar "verðbólgu" (sem í rauninni er bara verðfall peninga vegna offramleiðslu þeirra [skulda]).
"""Vísitalan hefur sterka drætti framfærsluvísitölu því í henni er leiðrétt fyrir staðkvæmni með því að nota margfeldismeðaltal í grunni. Keðjuvogir eru notaðar til að leiðrétta staðkvæmni milli verslana og gæðaleiðréttingum beitt til að leiðrétta staðkvæmni vegna innkaupa heimila."""
Segir hagstofan ma. um vísitölu neysluverðs. Hvað merkir þetta snakk eiginlega? Virðingarfyllst, BF.
Baldur Fjölnisson, 5.3.2008 kl. 18:18
Sæll Baldur og takk fyrir innlitið
Skilgreiningin þín á verðbólgu er fín og segir nákvæmlega það sem verðbólga er.
Varðandi vísitöluna, sem mælikvarða á verðbólgu, að þá eru nokkrir þættir sem þarf að hafa í huga:
(1) Hvað er "að vísitalan hafi sterka drætti í framfærsluvístölu því í henni er leiðrétt fyrir staðkvæmni með því að nota margfeldismeðaltal í grunni"?
(2) Hvað er að "nota keðjuvogir til að leiðrétta fyrir staðkvæmni vegna innkaupa heimila"?
(3) Hvað er að nota "gæðaleiðréttingar til að leiðrétta staðkvæmni vegna innkaupa heimila"?
Svör:
(1)Það má segja að það séu tveir punktar við framkvæmd mælingar á vísitölunni. Grunnurinn er viðamikil könnun sem fer fram á fimm ára fresti. Síðast var hún framkvæmd 2005. Tekið er úrtak hjá 1.200 heimilum víðsvegar um landið (veit ekki á hvaða tíma árs) og heimilin beðin um að halda búreikning í tvær vikur. Þetta er grunnurinn. Þarna fær Hagstofan neyslugrunn, t.d. hvað er keypt mikið af kaffi og hvaða tegundum, hvar er verslað og hvað varan kostar. Þetta er það sem kallað var grunnurinn í "gömlu" framfæsrluvísitölunni, en hún breyttist 1995 í vístölu neysluverðs. Hinn punkturinn er mælingin á breytingum á þessum grunni. Hann er gerður mánaðarlega með um 4.000 athugunum á þeim vörum eða vöruflokkum sem mynda grunninn. Mælingin stendur yfir í eina viku í miðjum mánuði. Þegar gögnin hefur verið safnað saman í gagnagrunninn er hægt að reikna út breytingar sem orðið hafa frá fyrri mælingu og vístalan lítur dagsins ljós seinnipart mánaðar. Þetta er vinnuferlið í þessu. Örugglega felast erfiðleikarnir við þessar mælingar í svokallaðri staðkvæmd. Staðkvæmdarvara er vara sem getur komið í stað annarrar vöru. T.d. lambakjöt getur komið í stað svínakjöts. Þar sem grunnurinn er fastur í fimm ára könnuninni geta neyslubreytingar breytt miklu. T.d. vitum við það ef að svínakjöt lækkar getur neysla á öðru kjöti vaxið. Þar sem viðamikil könnun á neysluvenjum fer ekki fram nema á fimm ára fresti er ekki víst að mælingin fái fangað þessi áhrif í raun þar sem spurn eftir vöru er jú oftast háð verði. Grunnurinn er fastur en neysluvenjur geta breyst. En í upphaflegu mælingunni er staðkvæmdaráhrifunum "eytt út" með því að taka meðlatalið. MeðalJóninn kaupir neytir t.d. 1 kg. af súpukjöti á mánuði og 800 g. af svínakjöti. Þetta er sett sem fasti en ekki endilega víst að hann endurspegli neysluvenjur þegar fjær dregur frá því að könnunin var gerð.
(2) Keðjuvogir segja til um hvar innkaupin fara fram. Í grunngögnunum (fimm ára athuguninni) verða til upplýsingar hvar heimilin kaupa inn, Bónus, Hagkaup, Nettó ofl., hvaða vöru og í hvað miklu magni. Við mánaðarmælinguna er reynt að líkja eftir þessari skiptingu. Hef þó heyrt að "raunheimurinn" sé látinn ráða að einhverju leyti. Og frekar horft til þess hvar fólk er að versla. T.d. getur ný verslunarkeðja sem býður lægra verð haft áhrif.
(3) Líkt og með staðkvæmdina, þ.e. að neysluvenjur breytist vegna þess t.d.að fólk skiptir úr lambakjöti yfir í svínakjöt vegna þess t.d. að verðið lækkar, geta gæðin líka aukist. Það þurfa ekki endilega að vera sömu gæði í vörunni sem mæld var fyrir fimm árum og eru í dag. Vara sem t.d. var ekki til á markaði þegar grunnurinn var gerður kæmi inn á markað og kæmi að einhverju leyti í stað annarrar vöru sem var í neyslugrunninum. Eða að vara hefði aukist að gæðum og væri orðin önnur en hún var í neyslugrunninum. Hagstofan reynir að leiðrétta fyrir þessu.
Þú sérð að þetta eru umfangsmiklar mælingar sem eiga að endurspegla raunverulega verðþróun. Vandamálið er að neysluvenjur geta breyst og spurningin hvað er staðkvæmdarvara. Staðkvæmdarvara er nefnilega háð þeim "andskota" að hún er í raun mjög flókin. Hún er tengd efnahag og breytingar á efnahag. Ristað brauð með sultu getur t.d. orðið staðkvæmdarvara fyrir lambakjöt hjá heimili sem missir fyrirvinnuna. Og humar orðið staðkvæmdarvara fyrir ristað brauð í morgunmat eins og við þekkjum úr auglýsingunni með Lýð sem fékk lottóvinninginn. Í gamla daga var sagt að ákveðinn frakki sem passaði á Klemens fyrrum Hagstofustjóra hefði alltaf verið still út hjá A&L þegar verið var að framkvæma mælingar.
Vona að þú sért einhverju nær.
Kv.
Hagbarður, 5.3.2008 kl. 22:13
Leiðrétting: "T.d vitum við það ef að svínakjöt hækkar vex neysla á öðru kjöti"
Hagbarður, 5.3.2008 kl. 22:21
Snilld. Ef þú ert ekki þegar að kenna hagfræði í háskólanum Hagbarður þá vona ég sannarlega að þú ljúkir ferlinum þar.
Ég er að spá í að reyna að taka bráðlega fyrir á blogginu mínu ýmis frekar nýstárleg og afar tæknileg fjármálainstrúment, sem geta verið afar gagnleg svo langt sem þau ná - en líka mjög hættuleg þegar markaðir snúast og uppkjaftagangurinn sem ég kalla svo hættir að virka á mörkuðum. Og ég vona sannarlega að þú miðlir þar af þekkingu þinni og innsæi.
Ég kann nú ekki íslensk orð yfir þessi fyrirbæri en það sem ég hef í huga eru ýmsir fjármálapakkar sem peningamaskínan veltir á milli sín svo sem "Mortgage Backed Securities", "Collateralized Debt Obligations" sem er hluti af risavaxinni ófreskju sem kallast "Structured Finance" og hefur vaxið hröðum skrefum eftir að skuldapappíraframleiðsla og brask henni tengt varð mikilvægasta starfsemi á vesturlöndum og önnur framleiðsla fór til Asíu. Þetta eru ótrúlega sniðug skím sem fáir skilja eða spá í og allt er tryggt í bak og fyrir á stærðfræðilegan hátt en þar sem stærðfræðin telst til absólút vísinda en hagfræðin til nokkurs konar gervivísinda (no offense) með td. sálfræði og geðlækningum þá er alltaf fyrirsjáanlegt að slík skím reki í strand fyrr eða síðar. Menn yfirskjóta alltaf á mörkuðum. Það er mannlegt eðli. Græðgin er sterkur drifkraftur. Hún vegur salt við óttann. Á einhverjum tímapunkti verður viðsnúningur og bólur hjaðna. Því stærri og villtari sem þær eru því skaðlegri eru þær. Lygar og blekkingar og bókhaldssvik sem drifu internetbóluna um aldamótin eru smámunir samanborið við ævintýralegu húsnæðispappíraófreskjuna sem núna er að leggja niður laupana.
Það væri nú vel þegið ef þú vildir sjálfur taka fyrir öll þessi mikilfengilegu instrúment sem þola ekki vel almenna umræðu og valda mikilli fýlu hjá td. stjórnmálamönnum sem eru ekki mikið fyrir svok. "samræðustjórnmál" og vilja bara fá að framfylgja sinni hugmyndafræði og sinna kostenda (sem þeir hafa fengið frá síkópötum á glóbal skala) í friði.
Baldur Fjölnisson, 5.3.2008 kl. 23:04
Í þessu sambandi er sérlega mikilvægt að hafa í huga að hinar margnefndu lánshæfisskrifstofur gegna mjög svo mikilvægu hlutverki við að fóðra áðurnefnda kreditófreskju. Þær úrskurða lánshæfi skuldapakkanna og innihalds þeirra og þeirra sem braska með þá. Allt er síðan til sölu fyrir rétta verðið og þjónusta þessarra aðila kostar að sjálfsögðu eins og allt annað. Þú getur keypt hvað sem er nú á dögum, skoðanakannanir með réttum niðurstöðum og rétta ímynd og komist með fótósjoppi og mogganum á alþingi og í ríkisstjórn. Ótal bjánar kaupa lélega bíla af þjálfuðum bílasölum og þeir kaupa þig líka með réttri markaðssetningu.
Þetta síðasta hjá Moody's varðandi ríkissjóð er alveg sérlega vesældarlegt. Jú jú þetta er allt í góðum málum og ríkissjóðurinn getur alveg reddað bönkunum ef illa fer en þeir forðast að skýra hvernig það á að gerast. Ég býst við að það fyrirkomulag sé í samráði við fundaherferð Mr. Haarde. Sannleikurinn er sá að bankakerfið hér er ofurútblásin og heldur vafasöm blaðra sem þarf að afskrifa sirka 99% af verðlausu hlutafé sínu og jafnframt þarf að skera tvö núll af verðlausri krónu. Góðar stundir.
Baldur Fjölnisson, 5.3.2008 kl. 23:26
Sæll aftur og takk fyrir hólið
Ég held að menn hafi notað "skuldabréfavafninga" yfir CDO. Þeir eru jú gerðir úr fjöldann öllum af MBS og þá sérstaklega RMBS sem við venjulega köllum hér "veðskuldabréf" og þá veðskuldabréf á íbúðarhúsnæði. Ágætis skýring hér að neðan, sem lýsir þessu myndrænt:
http://www.portfolio.com/interactive-features/2007/12/cdo
Ég er sammála þér um lýsingar þínar á ástæðum þessa og ástandi. Mjög margt sem var að í þeim efnum. Það er líka fróðlegt að velta fyrir sér hvernig þessar "bólur" verða til og við hvaða skilyrði. Hvernig viðhorf breytast og tregbreytileiki viðhorfsbreytinga. Hversu lengi góðærið og kreppan er í hugum flestar þó breytingarnar hafi löngu farið í gegn.
Það verður gaman að fylgjast með pælingum þínum og ég skal reyna að leggja mitt af mörkum.
Hagbarður, 5.3.2008 kl. 23:39
Við þurfum að hugsa grundvallaratriði í mjög svo löngum bylgjum. Maðurinn er tiltölulega nýtilkominn sem ráðandi lífvera á jörð þessarri. Hann hefur verið að breiða alvarlega úr sér síðustu 50 þús. árin, með skelfilegum afleiðingum fyrir aðrar lífverur. Hann hefur skipulega útrýmt stórum dýrum og brýtur sífellt niður sjálfa lífkeðjuna og nú er svo komið að allir heimsins heimiliskettir éta meira af fiski en allir heimsins selir. Hvernig hljómar það? Og meira en helmingur af öllu sjávarfangi fer í að fóðra beljur til að fæða mannkyn sem bætir við sig milljarði einstaklinga á tólf árum ! Sem þýðir í raun að beljan er umsvifamesti ránfiskur hafsins á kostnað annarra. Þannig rofnar lífkeðjan á margvíslegan hátt og það er samkvæmt meðvitaðri stefnu. Öll heimsins afneitun getur því ei breytt.
Í þessu samhengi og tímalínu er nútíma fjármála- og efnahagskerfi bara sem sekúndu tilraun. Þessi tilraun hefur tekið alvarlegum kollsteypum og þurft sífellt örvæntingarlegri stríðslygar og vitlausari terror hollywoodsjó til að ljúga hana áfram. Klepptækir rugludallar ráða ferðinni eins og hver maður sér og eigendur og kostendur þeirra munu áfram bjóða upp á hið sama - siðvillta stríðsmangara og atvinnulygara. Hér heima munu nytsamir sakleysingjar sem hafa sína hugmyndafræði frá þessum sækóum áfram kóa með þeim sem fyrr.
Baldur Fjölnisson, 6.3.2008 kl. 00:34
Það eru ekki til neinar alveg nákvæmar sögulegar tilvísanir. Þróunin er gífurlega hröð og skrúfan snýst sífellt hraðar. Allt er risavöxnum breytingum háð. En samt snýst þetta allt um mannlegt eðli. Og það hefur ekki breyst hið minnsta síðustu árþúsundin. Aftur minni ég á langar tímalínur. En veruleikahönnunarmaskína nútímans reynir að venja okkur við eins konar eilífan nútíma, eilífa æsku. Það er ekki gert mikið úr sögunni og því sem hefur leitt til nútímans, það er frekar talað niður við eigum jú að horfa aðeins til framtíðar og ekki spá í steypunni frá Dabba og Dóra sem þeir gleyptu frá sálufélögum sínum.
Baldur Fjölnisson, 6.3.2008 kl. 01:07
Töflur
- Erlend staða þjóðarbúsins
Lýsigögn- Erlend staða þjóðarbúsins
Tímaraðir- Erlend staða þjóðarbúsins
Annað tengt efni- Erlend staða þjóðarbúsins og þáttatekjur (Peningamál, 2. hefti 2007)
Umsjón: Tómas Örn Kristinsson, upplýsingasviði. Netfang: tomas.orn.kristinsson@sedlabanki.isFormaður Bankaráðs Seðlabankans heitir Halldór Blöndal. Bankaráð Seðlabankans er skipað af Álþingi Íslendinga.
Baldur Fjölnisson, 9.3.2008 kl. 22:47
Takk fyrir gögnin. Vista þau á tölvuna mína.
Hagbarður, 10.3.2008 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.