Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
18.3.2008 | 21:49
Aðgerða er strax þörf
Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði í dag vextina um 0,75% og eru vextirnir nú komnir í 2,25%. Markaðurinn hafði gert ráð fyrir vaxtalækkun sem næmi 1% til 1,25%. Rök Seðlabankans fyrir þessari lækkun en ekki þeirri er markaðurinn hafði vænst, var að bankinn óttaðist að hann hefði ekki svigrúm til að eiga við verðbólguna ef hann keyrði vextina neðar. Í þeirri vaxtalækkunarhrinu sem bankinn hefur framkvæmt á undanförnum mánuðum, til að blása glæðum í kólnandi hagkerfi, hefur $ lækkað mikið í verði gagnvart öðrum myntum og hefur ekki verið lægri gegnvart Evru síðan skráning hennar var tekin upp. Lækkandi $ þýðir hærra verð á innfluttum vöum til BNA og aukinn verðbólguþrýsting. Samhliða lækkun $ hefur olían náð himinhæðum og stafar hækkun hennar einkum að lægri $ en megnið af viðskiptum með olíu fer fram í $. Af allri olíu sem dælt er upp á jörðinni fer 24% til brennslu í BNA. Rekstur bifreiða er um 6% af ráðstöfunartekjum almennings í BNA en um 4,17% hér á landi. Það er því ljóst að 37% hækkun á olíufatinu á undanförnum fjórum mánuðum þrýstir verulega á verðlag í BNA. Seðlabanki BNA gerir sér grein fyrir þessari undirliggjandi hættu, en gerir sér jafnframt grein fyrir að það er meira virði að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Þá hefur ríkisstjórn BNA beitt margvíslegum mótvægisaðgerðum sem smyrja eiga hagkerfið og koma því úr stöðnun, m.a. aðstoð við þá sem lent hafa í vandræðum með húsnæðislánin sín, aukinn möguleiki fyrirtækja til að fresta skattgreiðslum ofl.
Hér á landi er þessu öðruvísi háttað. Hér eru vextir í himinhæðum og fáir hafa áhyggjur af hjólum efnahagslífsins. Það sem við eigum sameiginlegt með Bandaríkjamönnum er að gjaldmiðill beggja landanna er að lækka. Annað eigum við ekki sameiginlegt. Tökin á efnahagsmálunum í BNA miða að því að leysa vandann. Hér eru engin tök. Hér á að bíða og sjá til hvernig þessu reiðir öllu af. Sjá til hvort að þetta fari ekki hjá. Í rauninni er það hneykslanlegt og óásættanlegt að ráðamönnum þessa lands skuli ekki vera umhugað um að búa til þannig skilyrði að fyrirtæki geti fjármagnað sinn rekstur á svipuðum kjörum og sambærileg fyrirtæki geta í löndunum sem við viljum bera okkur saman við og að almenningur skuli á sinni ævi þurfa að greiða allt að þrefallt hærra verð en t.d. á Norðurlöndunum fyrir að eignast loks kofann sem það ákvað að búa sér og sinni fjölskyldu. Þetta er í raun óásættanlegt og kannski merkilegt þegar maður hugsar til þess hvað við getum látið bjóða okkur. Hve mikið eimir eftir af þrælslundinni, óttanum og kotungsbragnum hjá okkur, sem líklega innræktaðist í okkur í gegnum tíðar beygingar og höfuðsfatþóf áa okkar er yfirvaldið reið hjá. Aðgerðarleysi ráðamanna á eftir að koma fram í því að verðbólguskot ríður hér yfir í vor og ekki ólíklegt að húsnæðislánin hækki á árinu um a.m.k. 15-20%. Góðærinu verður skilað til baka í formi hærri lána á almenning. Vextir Seðlabankans taka ekki að lækka fyrr en verðbólguskotið er yfirstaðið, sem líklega verður ekki fyrr en á síðari hluta ársins. Aðgerðir ráðamanna munu að öllum líkindum felast í því að föðurleg ímynd upphefur raust sína og segir að það sé okkur öllum nauðsynlegt að fara varlega og taka á okkur tímabundnar byrðar. Að sama skapi verður sagt að kerfið sé sterkt, þjóðin ung, vel menntuð og bjartsýn og dugnaður fólksins muni sigra alla erfiðleika. En þetta er gert í þeim eina tilgangi að sætta fólk við orðinn hlut. Eignatilfærslan sem vinkona okkar, verðbólgan, verður látin gera, er þetta venjulega sem hún kann best, þ.e. að flytja byrðar til þeirra sem skulda og bæta hag þeirra sem eiga lánin. Stórkostleg eignatilfærsla mun eiga sér stað og fjármagnið dregið úr almenningnum, í þá dilka sem fjármagnið eiga. Fé kotunganna glataðist allt á fjalli. Þetta var ekki þeirra réttardagur!
Það er lífsnauðsynlegt að grípa til aðgerða. Hefja vaxtalækkunarferlið og smyrja hagkerfið með raunverulegum mótvægisaðgerðum sem virka hratt og vel. Ekki að koma með tillögur um að mála skúra í eigu ríkisins. Beina mótvægisaðgerðum að liðum sem m.a. hafa áhrif á þessu vitlausu verðtryggingu sem við höfum kosið að þjóna. Hemja verðbólguna á þann hátt, sérstaklega ef við höfum þá trú að um tímabundið ástand sé að ræða. Reisa og styðja við sjávarútvegsbyggðirnar sem hafa farið verst út úr niðurskurðinum með því að setja t.d. 50.000 tonna byggðakvóta á línu og færi og leyfa sveitarstjórnunum að ákveða afgjaldið fyrir kvótann og hvaða skilyrði fylgja úthlutuninni. Blása lífi í bryggjurnar og vinnsluna í landi og auka tekjur sveitarfélaganna. Þetta magn er ekkert í þeim stóra lífmassa sem við getum á engan hátt gert okkur grein fyrir hversu stór er. Það er örugglega auðveldara að spá fyrir og niður á síðasta hundraðið, hversu margir koma í Smáralindina á ári, heldur en hvað mikið má veiða úr hinum sameiginlega stofni þjóðarinnar. Þessi aðgerð kostar ekkert og tölfræðilega er ég viss um að 100 eða 150 þús. tonn til eða frá í ráðgjöf um aflamagn hafi engin áhrif á stærð hryggningarstofnsins, svo mikil er óvissan. Það er ekki hægt að spá fyrir um það hversu margir koma í Smáralindina á ári, það er heldur ekki hægt að spá fyrir með einhverjum þúsunda tonna frávikum hversu mikið má veiða. Það er "heimskulegt" að ætla að ráðgjöf með svona mikilli óvissu geti leitt til niðurstöðu með svona þröngum vikmörkum. Það á að grípa til aðgerða strax en ekki að bíða eftir því að það verði um seinan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2008 kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.3.2008 | 00:54
Hver er munurinn að fara fram úr fjárheimildum og skila ekki vsk. og staðgreiðslu?
Á undanförnum árum hefur fjöldi manna hlotið dóma fyrir að skila ekki virðisaukaskatti og staðgreiðslu í rekstri hlutafélaga. Dómar hafa runnið á færibandi í gegnum dómskerfið og brotin talin fullframin þegar komið er fram yfir gjalddaga. Sannanlega eru þetta fjármunir sem aðilum sem eru með mannahald og stunda virðisaukaskattskylda starfsemi ber að standa skil af. En í raun er þetta þvinguð innheimta, sem ríkið hefur sett á atvinnulífið til að annast skattheimtu fyrir sig. Í mörgum tilfellum, sem mér eru kunnug, hafa vandræðin orðið til vegna þess að sú þjónusta sem fyrirtækið byggir starfsemi sína á, hefur ekki fengist greidd eða að viðvarandi taprekstur hefur verið. Í stað þess að stöðva starfsemina, freistast menn til að halda áfram. Af þeim málum sem ég hef kynnt mér, hafa fæstir þeirra sem dóm hafa hlotið, nýtt þetta skilafé í eigin þágu. Það hefur farið til greiðslu launa starfsmanna og þeirra liða sem mest eru aðkallandi til að halda fyrirtækinu á "floti". Í þessum málum virðast ekki vera til neinar málsbætur og flestir dómarnir þannig að sektin er tvöföld sú fjárhæð sem "skotið var undan".
Við annan tón kveður þegar opinberir embættismenn brjóta lög og fara fram úr fjárheimildum. Viðvarandi fjáraustur almanna fjármuna virðist ekki teljast refsiverður. Ræflarnir sem ekki stóðu sig í innheimtu virðisaukaskatts og staðgreiðslu eru dregnir fyrir dómara, sviptir eigum sínum og æru. Embættismennirnir spila frítt og bera enga ábyrgð. Svo frítt virðist þetta spil þeirra vera eða húsbóndavaldið (ráðherravaldið) deigt, að aðgangur að fjárhirslum ríkissjóðs virðist í sumum tilfellum vera án takmarkana. Auk stofnana sem taka fjárlögin og fjármuni almennings í sínar hendur og fara reglulega fram úr fjárheimildum, bendi ég á frægt dæmi, greiðslur til Byrgisins til margra ára, en þar var ekki til samningur til grundvallar greiðslu! Samt var greitt! Að sjálfsögðu bar enginn ábyrgð.
Það hlýtur að vera réttlætismál að allir standi jafnir gagnvart lögunum. Ef hægt er að dæma mann fyrir að "sólunda" fjármagni sem ríkinu bar, að þá á eins að dæma mann sem "sólundar" fjármagni sem ríkið á.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Hagbarður
Færsluflokkar
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar